Viðskiptasamningar í fyrri heimsstyrjöldinni

Júní 2018

Viðskiptasamningar í fyrri heimsstyrjöldinni

ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. B/189-2. Db 5. nr. 507.

Á síðustu árum hefur athygli fræðimanna beinst að fyrra heimsstríðinu og áhrifum þess á Ísland. Nærtækt er að nefna í því sambandi bók Gunnars Þórs Bjarnasonar: Stríðið mikla 1914 ̶ 1918, sem kom út nýverið. Fyrri heimsstyrjöldin hefur fallið nokkuð í skuggann af þeirri síðari og þeim miklu samfélagsbreytingum sem fylgdu henni, en vissulega hafði fyrri styrjöldin einnig mikil áhrif á íslenska sögu, þó með ólíkum hætti væri. Styrjöldin leiddi meðal annars af sér skort á nauðsynjavöru á Íslandi. Einkum var skortur á tveimur mjög mikilvægum vöruflokkum, annars vegar korni og hins vegar kolum. Kolin voru notuð til kyndingar og án þeirra lagðist atvinnulífið að stórum hluta í dvala. Ekki var hægt að knýja kolakynt skipin eða kynda húsin, sem var sérlega bagalegt þegar kom fram á árið 1918 og miklir kuldar voru viðvarandi. Á sama hátt gerði styrjöldin Íslendingum erfitt fyrir þegar kom að sölu afurða á erlenda markaði.

Í upphafi styrjaldarinnar sendu Bretar ræðismann til Íslands, Eric Grant Cable að nafni. Var skipun Cable til marks um aukið mikilvægi Íslands á styrjaldartímum. Bretum var mikið í mun að vörur færu ekki frá Íslandi til Þýskalands, en danska ríkið og þar með Ísland var hlutlaust í stríðinu. Flutningur ullar til Danmerkur, sem síðan var seld áfram til Þýskalands, var þeim sérstakur þyrnir í augum, enda var ull ekki einungis notuð í klæði, heldur sem tróð í byssur hermanna. Breski flotinn leitaði í þeim skipum sem voru á leið yfir hafið og gerði vörur upptækar ef grunur lék á að þær myndu rata í hendur Þjóðverja. Bretar voru allsráðandi á hafinu með sinn öfluga herskipaflota og ljóst var að viðskipti við útlönd færu aðeins fram með vitund og vilja breskra yfirvalda.

Áhrifaríkasta leið Breta, til að stöðva flutninga til Þýskalands, var að fyrirskipa íslenskum skipum að þau mættu ekki flytja vörur frá landinu nema með viðkomu í breskum höfnum til eftirlits. Ef þau reyndu að ganga gegn þessari fyrirskipun yrði kolasala til þeirra stöðvuð. Tilraunir til útflutnings með öðrum hætti voru því mjög áhættusamar. Jafnframt lögðu Bretar áherslu á gerð viðskiptasamninga við Ísland í þeim tilgangi að koma algjörlega í veg fyrir flutning vara til Þýskalands og ekki síður til að tryggja Bretum og bandamönnum þeirra aðgang að íslenskum fiski. Fyrsti viðskiptasamningur milli Íslands og Bretlands var gerður árið 1916. Grunnatriði hans voru að Íslendingum var heimilt að flytja vörur til Breta, bandamanna þeirra og hlutlausra ríkja, sem ættu ekki landamæri að Þýskalandi og breska ríkið lýsti sig reiðubúið til að kaupa þær vörur sem ekki seldust. Samningurinn var endurnýjaður árið 1918.

Afleiðing styrjaldarinnar fyrir Íslendinga var því sú að þeir tóku að flytja stóran hluta af vörum sínum til Bretlands í stað Danmerkur og raunar opnuðust aðrir markaðir einnig, svo sem í Bandaríkjunum. Nær helmingur af öllum vörum sem Ísland seldi úr landi árið 1918 voru fluttar til Bretlands en aðeins 2,2% til Danmerkur. Þó þetta hlutfall breyttist nokkuð eftir stríðið varð Bretland áfram mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar vörur.

Athyglisvert er að skoða viðskiptasamninga Íslands og Bretlands í ljósi þess að Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Áhrifasvæði Breta var stórt eftir að heimsstyrjöldinni lauk og styrjöldin hafði einnig þær afleiðingar að allmörg ríki urðu í raun til við lok hennar og við skiptingu yfirráðasvæða Þjóðverja og bandamanna þeirra. Viðskiptasamningarnir við Bretland voru því afar mikilvægir fyrir Ísland á leið þess til fullveldis og loks fulls sjálfstæðis.

Skjal mánaðarins að þessu sinni tengist samningaviðræðunum við Breta. Sveinn Björnsson, þá ungur málflutningsmaður en síðar ríkisstjóri og forseti Íslands, var sendur til London til að leita samninga við Breta. Með réttu áttu Danir að sjá um gerð viðskiptasamninga við erlend ríki, en Danir voru í viðkvæmri stöðu. Þjóðverjar gætu brugðist illa við samningum milli Danmerkur og Bretlands. Það var því álitamál hvort segja ætti Dönum frá því að Íslendingar væru að semja við aðra þjóð. Niðurstaðan varð þó að segja danska utanríkisráðherranum frá málinu og var Sveini Björnssyni falið að kynna það fyrir danska utanríkisráðherranum; Erik Scavenius. Sveinn Björnsson lýsir samtali þeirra í endurminningum sínum:

Hann hlustaði á mig með athygli, þagði drykklanga stund, og síðan skiptumst við á þessum orðum: Hann: „Ber að skoða þetta sem tilkynningu eða viljið þér fá samþykki eða umboð frá utanríkisráðuneytinu?“ Ég: „Einvörðungu tilkynningu.“ Hann: „Það er gott, þá skiljum við víst hvor annan.

Unnar Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Agnar Kl. Jónsson: Stjórnarráð Íslands 1904-1964. 2. bindi, Reykjavík, 2004.
  • Sólrún B. Jensdóttir: Ísland á brezku valdsvæði 1914-1918. Reykjavík, 1980.
  • Sveinn Björnsson: Endurminningar. Reykjavík, 1952.
  • ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. B/189-2. Db 5. nr. 507.
Bréf Sveins Björnssonar til Stjórnarráðs Íslands.
Bréf Sveins Björnssonar til Stjórnarráðs Íslands.
Bréf Sveins Björnssonar til Stjórnarráðs Íslands.