Uppdráttur Níelsar Jónssonar af Gjögri á Ströndum

Desember 2014

Uppdráttur Níelsar Jónssonar af Gjögri á Ströndum

ÞÍ. Sýslumaðurinn á Hólmavík 2011 R/1-1.

Með skjölum sýslumanna sem berast til Þjóðskjalasafns eru margs konar gögn, sem sum hver virðast vart tengjast starfi þeirra með beinum hætti, en eru engu að síður merkilegar heimildir. Svo er um uppdrátt Níelsar Jónssonar (1870-1934) alþýðufræðimanns sem kenndur var við Grænhól á Gjögri, en uppdrátturinn barst til Þjóðskjalasafns frá Sýslumanninum í Strandasýslu.

Níels stundaði aðeins nám í tvo vetur á Reykjanesi og var því sjálfmenntaður að miklu leyti en uppdráttur Níelsar ber merki vandvirkni, nákvæmni og listfengi. Hann lagði greinilega afar mikla vinnu í að gera hann sem best úr garði. Uppdrátturinn er merkileg heimild og raunar einstök fyrir þá sem vilja kynna sér sögu byggðarinnar á Gjögri. Uppdráttinn gerði Níels eftir mælingum sem hann framkvæmdi árin 1913 og 1917 og sýnir hann af nákvæmni þau hús sem búið var í auk búða sjómanna, sem munu þá flestar hafa verið yfirgefnar.

Gjögur var fornfræg verstöð og voru þaðan stundaðar umfangsmiklar hákarlaveiðar. Bændur sendu vinnumenn sína í ver og hétu búðirnar oftast eftir bæjunum þar sem útvegsbændurnir bjuggu. Talið er að á annan tug árabáta hafi verið gerðir út frá Gjögri þegar mest var, yfirleitt sexæringar. Hákarlaveiðar lögðust að mestu af fyrir aldamótin 1900 en upp frá því fór fólk að hefja þar fasta búsetu. Þess má geta að nú er ekki föst búseta á Gjögri allt árið en árið 1920 voru ríflega 50 manns skráðir þar til heimilis og þegar mest var, um 20 árum síðar, voru íbúar yfir 70 talsins.

Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld lýsir lífi hákarlasjómanna í ljóðinu Í hákarlalegum og eru hér birt fyrstu tvö erindin, hefur hann efalítið haft hákarlaútgerðina á Gjögri í huga þegar hann orti:

Í skaparans nafni ýtt var út
opnu skipi, er leyst var festi.
Með Andrarímnur í andans nesti,
en annars harðfisk og blöndukút;
en munaðaraukinn eini og besti
ögn af sykri í vasaklút.

Skipverjar allir áttu þar
einhvern skyldleikasvip í framan,
útigangsjálkar allir saman,
um það hörundið vottinn bar.
Þar var annað er glóðvolgt gaman
að gera sér mjög um þvotta far.

Níels Jónsson fæddist 23. maí 1870 á Tindi í Kirkjubólshreppi, sonur Halldóru Halldórsdóttur og Jóns Jónssonar sem þar bjuggu. Hann kvæntist Guðrúnu Bjarnadóttur og eignuðu þau eina dóttur Karitas Elísabetu Karílínu Níelsdóttur árið 1894. Hún varð síðar húsfreyja á Grænhóli. Níels andaðist 1. mars 1934.

Níels hélt dagbækur og var fyrsti veðurathugunarmaður í Árneshreppi frá 1921-1934. Má lesa hluta af dagbókum hans á síðu Veðurstofu Íslands. Fræðast má frekar um Níels í bókinni Bræður af Ströndum, sem Sigurður Gylfi Magnússon tók saman og gefin var út af Háskólaútgáfunni árið 1997.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Bræður af Ströndum. Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld. Ritstj. Sigurður Gylfi Magnússon, Rvk. 1997.
  • Þorsteinn Hjaltason „Frá hákarli til síldar. Atvinnu og íbúaþróun í Árneshreppi á Ströndum 1850-1950“. Ritgerð til BA prófs. Hugvísindasvið 2009.
Uppdráttur Níelsar Jónssonar af Gjögri á Ströndum