Týnt blað úr bréfabók séra Jóns Halldórssonar í Hítardal kemur í leitirnar

Desember 2015

Týnt blað úr bréfabók séra Jóns Halldórssonar í Hítardal kemur í leitirnar

ÞÍ. Staðarhraun. AA/2. Kirkjustóll 1749-1817, bls. 31-32.

Jón Halldórsson (1665-1736) var prestur í Hítardal í Hraunhreppi og prófastur í Mýrasýslu um langt skeið. Hann var jafnframt mikilvirkur fræðimaður og eftir hann liggja m.a. rit eins og Biskupasögur, Skólameistarasögur, Hítardalsannáll og Hirðstjóraannáll sem öll hafa verið gefin út á prenti. Óútgefin rit eftir hann eru m.a. Ættartölubók (sem þó hefur verið ljósprentuð) og hinar mjög svo áhugaverðu Prestasögur um Skálholtsbiskupsdæmi. Bæði forfeður Jóns og eftirkomendur höfðu mikinn áhuga á sögu og voru jafnframt hirðumenn á skjöl en sonur hans var Finnur Jónsson (1704-1789) Skálholtsbiskup.

Bréfabók Jóns hefur varðveist en hún er þverhandarþykk og nær yfir árin 1701-1720. Í bókinni sjálfri er að finna talsverðar upplýsingar um feril hennar. Hún hefur verið í handritasafni Jóns Sigurðssonar (1811-1879) forseta, nánar tiltekið nr. 216 meðal handrita í fjögurra blaða broti. Framan við bókina stendur með hendi Jóns: „Frá Síra Þorsteini Erlendssyni Hjalmarsen í Hítardal, og hafði Páll Melsteð fengið hjá honum. (1854)“ Þá hefur Jón Þorkelsson (1859-1924) þjóðskjalavörður skrifað fremst í bókina að hún hafi verið afhent safninu úr Landsbókasafni 18. maí 1900 samkvæmt landshöfðingjaúrskurði frá 7. maí og bréfi stiftsyfirvalda frá 16. maí sama ár. Enda um embættisbók prófasts að ræða.

Nánari upplýsingar um feril bókarinnar er að finna í tímaritinu Nýtt kirkjublað en ritstjóri þess var Þórhallur Bjarnarson (1855-1916) biskup. Þar er að finna eftirfarandi frásögn af bréfabókinni:

Bréfabók Jóns Halldórssonar er einhver mesti kjörgripurinn í handritasafni voru. Páll Melsteð sögumeistari hefir sennilega bjargað þeirri bók. Hann var settur sýslumaður í Mýrasýslu og gisti, á þingaferðum sínum, hjá séra Þorsteini Hjalmarsen í Hítardal vorið 1855. Páll var snemma á fótum um morguninn á undan öðru fólki. Hann rekur þá augun í óinnbundnar og illa haldnar skræður uppi á hyllu, tekur eina ofan og rekur sig þar á bréfaskifti þeirra Jóns biskups Vídalíns og Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal, því í bókinni eru bæði bréf frá séra Jóni og til hans. Páll bað séra Þorstein lána sér bókina, og fór með hana heim til sín, vestur í Bjarnarhöfn. Um haustið s.á. fór Páll utan og hafði með sér skræðuna og þótti Jóni Sigurðssyni heldur en ekki fengur í, hét nú svo að bókin væri lánuð Jóni Sigurðssyni til afnota. Þegar Páll kom heim frá lagaprófi 1857, var hann krafinn bókarinnar, og prófastarnir í Mýrasýslu stóðu síðan lengi á Jóni Sigurðssyni að skila henni. Hann gegndi því ekki og sagði hlæjandi við Pál: „Þeir hafa ekkert með hana að gera“ - „Þeir eyðileggja hana bara.“ Svo varð bókin eign landsins eftir Jón Sigurðsson. Nokkur blöð voru glötuð úr fremri hluta bókarinnar er Páll náði í hana. Bókin er á stærð við Sturlungu-útgáfu Bókmentafélagsins.

Það er rétt sem hér kemur fram að sumstaðar vanti blöð í bókina en ánægjulegt er frá því að segja að eitt þessara týndu blaða er komið í leitirnar. Blaðið samsvarar blaðsíðum 91-92 og er því helmingur þeirrar eyðu fylltur en ennþá vantar blaðsíður 89-90. Umrætt blað fannst í kirkjustól (bók þar sem inn eru færð skjöl er varða eignarheimildir, vísitasíur og reikninga kirkna) Staðarhrauns í Hraunhreppi, nánar til tekið á bls. 31-32. Þetta er niðurlag bréfs séra Gunnars Pálssonar í Stafholti í Stafholtstungum, frá 9. nóvember 1702, þar sem hann útlistar áform sín um að gera Einar bróður sinn að aðstoðarpresti sínum. Í framhaldi af því er svar séra Jóns Halldórssonar, 9. desember 1702, þar sem hann skýtur málinu til biskups. Þá kemur vitnisburður séra Jóns gefinn Sigurði Jónssyni á Svarfhóli í Hraunhreppi en hann er dagsettur 23. desember 1702. Þar lýsir hann því yfir að dauði sveitarómagans Sigríðar Jónsdóttur, sem hafði síðastliðinn vetur í áhlaupaveðri orðið úti milli Mels og Svarfhóls, hafi ekki gerst vegna illvilja eða ásetnings Sigurðar á Svarfhóli. Þess má geta að Jón Vídalín (1666-1720) biskup hafnaði bón séra Gunnars um að fá bróður sinn vígðan sér til aðstoðarprests eins og sjá má af bréfi biskups frá 10. janúar 1703.

Ekki stendur til að færa tíðrætt blað úr kirkjustólnum yfir í bréfabókina nú sem stendur en það kann að gerast er fram líða stundir. Þessum upplýsingum er hér með komið til skila en í bréfabók séra Jóns er margt fróðlegt að finna og bíður hún starfsamra handa.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta týnda blaðsins.

Heimildir

  • ÞÍ. Staðarhraun. AA/2. Kirkjustóll 1749-1817, bls. 31-32.
  • ÞÍ. Mýraprófastsdæmi. BC/1. Bréfabók Sæmundar Oddssonar prófasts 1683-1693, Bréfabók Jóns Halldórssonar prófasts 1701-1720, Úttektir og vísitasíur í Mýrasýslu 1721-1776, bls. 93-95.
  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn IV, 4. Bréfabók Jóns Vídalín 1699-1703, bls. 289-290.
  • „Bréfabók Jóns Halldórssonar ...“, Nýtt kirkjublað. Hálfsmánaðarrit fyrir kristindóm og kristilega menning 3:5 (15. mars 1908), bls. 63.
  • Jón Halldórsson, Ættartölubók 1-2. Íslenskt ættfræðisafn. Reykjavík 1983.
  • Jón Þorkelsson, „Formáli“, Biskupasögur Jóns prófasts Haldórssonar í Hítardal. Með viðbæti I. Skálholtsbiskupar 1540-1801. Sögurit II. Reykjavík 1903-1910, bls. I-XXVIII.

Hér að neðan er uppskrift týndu blaðanna (PDF, 250 KB).

ÞÍ. Staðarhraun. AA/2. Kirkjustóll 1749-1817, bls. 32 (91)
ÞÍ. Staðarhraun. AA/2. Kirkjustóll 1749-1817, bls. 33 (92)
ÞÍ. Mýraprófastsdæmi. BC/1, bls. 93
ÞÍ. Mýraprófastsdæmi. BC/1, bls. 94
ÞÍ. Mýraprófastsdæmi. BC/1, bls. 95