Tvær fornar leiðarlýsingar yfir Sprengisand

September 2017

Tvær fornar leiðarlýsingar yfir Sprengisand

ÞÍ. Rentukammer. D3/4–11. (Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri).

Í skjölum Landsnefndarinnar fyrri eru varðveittar tvær gamlar leiðarlýsingar yfir Sprengisand frá árunum 1770 og 1771 ritaðar af Eiríki Hafliðasyni (ca. 1716–1797), lögréttumanni í Tungufelli í Lundarreykjardal og Jóni Benediktssyni (1714–1776), sýslumanni í Þingeyjarsýslu. Eitt af þeim verkefnum sem Landsnefndinni hafði einmitt verið falið, var að kanna hvort hægt væri að finna og taka upp á ný gamla fjallvegi og þjóðleiðir.

Nefndarmenn fréttu fljótlega að Jón Benediktsson sýslumaður hefði einhvern tíma farið hina svokölluðu Sprengisandsleið og báðu hann, í bréf dags. 8. febr. 1771, um að gefa sér sem nákvæmasta lýsingu á leiðinni. Eiríkur Hafliðason lögréttumaður var hins vegar talinn allra manna kunnugastur leiðinni og hafði farið hana að minnsta kosti fjórum sinnum og benti Jón nefndinni á hann. Lýsingarnar þeirra liggja nú saman í skjalasafni nefndarinnar.

Þessar tvær lýsingar þeirra félaga Jóns og Eiríks eru sennilega elstu leiðarlýsingarnar um Sprengisandsleið sem varðveittar eru þar sem leiðin er rakin í nokkrum áföngum og kennileitum og örnefnum lýst allvel.

Eiríkur Hafliðason rekur leiðina frá alþingi á Þingvöllum um Skálholt og upp í gegnum Gnúpverjahrepp. Þaðan norður eftir Sandártungu, yfir Fossá, upp eftir Hólaskógi og þvert yfir Sandfell. Frá Skúmstungum norður fyrir Kræklu- og Fitjaskóga, yfir Fjórðungssand og yfir Þjórsá á vaðinu við Sóleyjarhöfða þar sem hann leggur til að höfð verði ferja. Kennileiti og örnefni eru ekki alltaf þau sömu hjá honum og við þekkjum í dag. Hann getur um Arnarfellsjökul sem nú þekkist betur sem Hofsjökull og Þúfuverskvísl nefnir hann Sandkvísl. Laufasandur er sennilega þar sem nú er kallað Laugasandur eða Laugafellsöræfi og Fjórðungsöldu virðist hann kalla Háöldu.

Úr Þúfuveri fer hann til Háumýra og þaðan um 2½ mílu (15–20 km) upp að Sveinum sem hann segir vera kletta með nokkrum vörðum á en örnefnið mun ekki vera þekkt í dag. Þá stefnir hann á Beinakerlingu, stóra vörðu sem stendur þar „mitt á milli sinna 24 dætra“. Frá Háöldu (Fjórðungsöldu) heldur hann niður Kiðagil, síðan sennilega um Króksdal sem hann nefnir Krossdal, og þaðan að bæ sem hann nefnir Þverárkot, skammt frá Mývatni, sem hlýtur að vera misskilningur því enginn bær með því nafni þekkist þar. Sennilegast á hann við Svartárkot í Bárðardal.

Lýsing Jóns Benediktssonar er heldur styttri og ónákvæmari en lýsing Eiríks enda liðin um 30 ár frá því Jón fór þarna um síðast þegar hann skrifaði hana. Hann hafði verið í fylgd Eiríks Hafliðasonar og leiðin í grófum dráttum sú sama og Eiríkur lýsir og hér segir Jón þá koma niður að Svartárkoti í Bárðardal. Kennileiti eru líka flest þau sömu nema hann kallar Fjórðungssand fyrir Litlasand og Fjórðungskvísl fyrir Jökulsá sem fæst engan veginn staðist.

Einkar áhugavert örnefni hjá Jóni eru svo þrjú fjöll sem hann nefnir Sætur eða Sátur og þekkjast ekki í dag eftir því sem best verður að komist. Hann virðist vera staddur nokkurn veginn á miðjum Sandinum og horfir í austur á fjallgarðinn milli Heklu og Herðubreiðar, sem hann segir allan hulinn jökli, og „við þennan fjallgarð en þó fráskilin honum, standa þrjú fjöll sem heita Sætur“.

Uppskrift af lýsingunum ásamt skýringum má nálgast hér fyrir neðan.

Báðar lýsingarnar eru ritaðar á dönsku enda ætlaðar embættismönnum konungs í Danmörku til frekari skoðunar líkt og annað efni sem Landsnefndin hafði til umfjöllunar. Íslenskar þýðingar lýsinganna er að finna í ritinu Hrakningar og heiðavegir, 1. bindi, bls. 27–32.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift lýsinganna.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer. D3/4–11. (Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri).
  • Hallgrímur Jónasson, Á Sprengisandi. Ferðaleiðir og umhverfi. Árbók Ferðafélags Íslands 1967. Reykjavík 1967.
  • Hrakningar og heiðavegir. 1. bindi. Pálmi Hannesson og Jón Eyþórsson sáu um útgáfuna. Akureyri 1949.
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, „Landsnefndin fyrri og verkefni hennar.“ Landsnefndin fyrri 1770–1771 I. Bréf frá almenningi. Ritstj. Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Reykjavík 2016.
  • Landsnefndin 1770–1771 I–II. Bergsteinn Jónsson sá um útgáfuna. Sögurit 29. Reykjavík 1958–1961.

Vefsíður

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að hlaða niður uppskriftir af ferðalýsingunum.

Leiðarlýsing Jóns Benediktssonar.
Leiðarlýsing Jóns Benediktssonar.
Leiðarlýsing Jóns Benediktssonar.
Leiðarlýsing Jóns Benediktssonar.
Leiðarlýsing Eiríks Hafliðasonar.
Leiðarlýsing Eiríks Hafliðasonar.
Leiðarlýsing Eiríks Hafliðasonar.
Leiðarlýsing Eiríks Hafliðasonar.