Trjárækt í Viðey 1776–1777

Júní 2012

Trjárækt í Viðey 1776–1777

ÞÍ. Rentukammer. 39,3. Isl. Journ. 4, nr. 21

Á síðari hluta 18. aldar reyndu stjórnvöld að koma á laggirnar dálítilli trjárækt hér á landi og sendu í því skyni nokkuð af trjáfræjum og ungum plöntum til landsins. Trjáræktartilraunirnar voru í mjög smáum stíl í fyrstu og einungis örfáir embættismenn sem reyndu fyrir sér með þær. Þar voru fremstir í flokki Lauritz A. Thodal (um 1718–1808) stiftamtmaður á Bessastöðum, Skúli Magnússon (1711–1794) landfógeti í Viðey, Magnús Ketilsson (1732–1803) sýslumaður Dalasýslu í Búðardal og Björn Halldórsson (1724–1794) prófastur í Sauðlauksdal. Tilgangur tilraunanna var að sýna fram á að margs konar tré gætu vaxið hér á landi líkt og annars staðar á Norðurlöndum og stóðu vonir til að trjárækt yrði almenn á Íslandi þegar fram liðu stundir.

Í ágústbyrjun árið 1777 var gerð úttekt á trjám sem gróðursett höfðu verið við heimili Skúla Magnússonar í Viðey vorin 1776 og 1777. Af úttektinni má sjá hvaða trjátegundir um ræðir, fjölda trjáa og ástand þeirra. Sumarið 1777 uxu t.d. í Viðey sjö kastaníurunnar, tveir þeirra gróðursettir þá um vorið og fimm vorið áður. Einnig átján askar, allir lifandi og í ágætu ástandi. Níu stikkilsberjarunnar, fjórir þeirra voru reyndar dauðir en fimm voru í fínu ástandi. Þá uxu þar einnig níu rifsberjarunnar, þar af einn með berjum, og nokkur ávaxtatré m.a. tvö perutré og voru þau „med nogenlunde blade, i temmelig stand.“ Undir úttektina kvittar Árni Þórarinsson (1741–1787) prestur á Lambastöðum á Seltjarnarnesi, síðar biskup á Hólum, en Skúli Magnússon staðfestir.

Trjáræktartilraunirnar á 18. öld báru hins vegar almennt lítinn árangur og talið er að flest trén í Viðey hafi drepist á árunum 1777–1780 sem öll voru óvanalega köld.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

 

Hér að neðan er hægt að sækja uppskrift af texta bréfsins (PDF, 13 Kb)

Úttekt á trjám gróðursettum við hús Skúla Magnússonar í Viðey
Úttekt á trjám gróðursettum við hús Skúla Magnússonar í Viðey