Þegar íslenska körfuboltalandsliðið fór næstum því á fund Bandaríkjaforseta

Mars 2019

Þegar íslenska körfuboltalandsliðið fór næstum því á fund Bandaríkjaforseta

ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 2011 B/54-2.

Í árslok 1964 hélt íslenska karlalandsliðið í körfubolta til Bandaríkjanna og Kanada í keppnisferð. Körfubolti var ung íþrótt á Íslandi á þessum tíma og voru tólf ár liðin frá því að Íslandsmótið hóf göngu sína. Þá voru einungis þrjú ár síðan Körfuknattleikssamband Íslands var stofnað.

Það voru People to People (PtP) samtökin í Bandaríkjunum sem buðu landsliðinu vestur um haf og sáu um skipulagningu ferðarinnar. PtP var komið á fót af stjórn Dwight D. Eisenhower forseta Bandaríkjanna árið 1956 en markmið samtakanna var að efla tengsl Bandaríkjanna við vinaþjóðir sínar í heiminum í gegnum menningarsamskipti, m.a. íþróttir. Fyrstu árin var PtP hluti af Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna (United States Information Agency) sem gegndi veigamiklu hlutverki á tímum kalda stríðsins. Eftir 1961 var PtP breytt í frjáls félagasamtök þó með náin tengsl við valdastéttina í Bandaríkjunum og varð Eisenhower stjórnarformaður samtakanna og verndari eftir forsetatíð sína, svo dæmi sé tekið.

Í skjalasafni Sendiráðs Íslands í Washington sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni er að finna bréf sem send voru í aðdraganda komu íslenska liðsins til Bandaríkjanna. Meðal þeirra er bréf Frank A. Walsh, formanns körfuboltanefndar PtP, frá 25. október 1964 til Thor Thors sendiherra þar sem hann óskar eftir fyrirgreiðslu sendiráðsins.

Í bréfinu ræðir Walsh m.a. um dagskrá liðsins en samkvæmt henni var áformað að dvelja í Bandaríkjunum og Kanada í þrjár vikur, frá 27. desember til 17. janúar, og leika tíu æfingaleiki við hin ýmsu körfuboltalið, félagslið, skólalið og körfuboltalið Bolling flugherstöðvarinnar í Washington. Walsh gerði ráð fyrir að íslenski hópurinn gisti á hverjum keppnisstað sem veitti því tækifæri til að kynnast betur bandarískum „vinum sínum“ eins og hann komst að orði í bréfi sínu.

Einnig gerði hann ráð fyrir því að landsliðið kæmi fram í þættinum: Ed Sullivan Show, sem þá var einn vinsælasti sjónvarpsþáttur Bandaríkjanna og færi á leik Boston Celtics og Baltimore Bullets í NBA deildinni í körfubolta. Boston liðið var þá ríkjandi NBA meistarar og án nokkurs vafa sterkasta körfuboltalið heims. Þá óskaði Walsh eftir því að sendiráðið myndi halda hádegisverðarfund fyrir nokkra forráðamenn liðanna sem kepptu við íslenska liðið og að sendiráðið héldi móttöku fyrir íslenska liðið. Einna fróðlegast í bréfi Walsh er þó ósk hans um að sendiráðið hafi milligöngu um að landsliðið fari á fund Lyndon B. Johnson forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu.

Af skjölum í safni sendiráðsins má ráða að Thor Thors sendiherra og hans fólk í sendiráðinu var allt af vilja gert til að mæta óskum Walsh. Fram kemur í svarbréfi Thors, frá 9. nóvember 1964, að hann muni taka á móti forráðamönnum liðanna og þá muni hann og eiginkona hans, Jóhanna Ágústa Ingólfsdóttir, halda móttöku fyrir íslenska hópinn. Varðandi heimsóknina í Hvíta húsið þá var Thor ekki vongóður enda Johnson forseti um þetta leyti að undirbúa ávarp sitt til Bandaríkjaþings og embættistöku, en hann hafði verið kjörinn forseti í nóvember 1964. Engu að síður var erindi þess efnis sent til Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Neikvætt svar barst þaðan 30. nóvember og því varð ekkert af forsetafundi íslenskra körfuboltamanna í það skipti.

Landsliðið fór utan sunnudaginn 27. janúar 1964. Dagskrá ferðarinnar breyttist nokkuð frá því sem Walsh kynnti í bréfinu til sendiráðsins og var tveimur leikjum bætt við dagskrána. Liðið kom fram í Ed Sullivan Show og sá tvo NBA leiki hjá Baltimore Bullets, annars vegar gegn Boston Celtics og hins vegar gegn San Francisco Warriors. Á gamlársdag dvaldi liðið í Washington og notaði tækifærið og skoðaði helstu kennileiti borgarinnar. Sama dag héldu sendiherrahjónin móttöku fyrir Íslendingana sem vakti mikla ánægju. Heimsóknin reyndist vera með síðustu embættisverkum Thor Thors sendiherra, því rúmum hálfum mánuði síðar varð hann bráðkvaddur á heimili sínu 61 árs að aldri.

Skemmst frá því að segja að Íslendingar töpuðu öllum tólf leikjum sínum. Haft var eftir Boga Þorsteinssyni formanni KKÍ og fararstjóra liðsins í Vísi eftir heimkomuna að Íslendingarnir hafi fengið sterkari lið en búist var við. „Móttökur alls staðar voru stórglæsilegar og liðið var mjög vinsælt í blöðum, útvarpi og sjónvarpi,“ sagði Bogi við Vísi. Hann var bjartsýnn á framtíð íslensks körfubolta. „Við komum heim með mikla reynslu og nú veit ég að við erum á réttri leið í körfuknattleik.“[1]

Heiðar Lind Hansson og Árni Jóhannsson rituðu kynningartexta. Heiðar Lind skrifaði upp texta bréfs Frank Walsh.

__________________

  1. Vísir 21. janúar 1965, bls. 6 og 10.

Heimildir

  • ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 2011 B/54-2. Íþróttir á Íslandi. Frank A. Walsh til Thor Thors sendiherra, dags. 25. nóv. 1964.
  • ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 2011 B/54-2. Íþróttir á Íslandi. Thor Thors sendiherra til Frank A. Walsh (afrit), dags. 9. nóv. 1964.
  • ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 2011 B/54-2. Íþróttir á Íslandi. Frank A. Walsh til Thor Thors, dags. 17. nóv. 1964.
  • ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 2011 B/54-2. Íþróttir á Íslandi. Angier Biddle Duke til Thor Thors sendiherra, dags. 30. nóv. 1964.
  • Skapti Hallgrímsson, Leikni framar líkamsburðum. Saga körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld. Reykjavík, 2001, bls. 98-99.
  • Tíminn 24. desember 1964, bls. 12.
  • Vísir 12. janúar 1965, bls. 2.
  • Alþýðublaðið 12. janúar 1965, bls. 1.
  • Þjóðviljinn 19. janúar 1965, bls. 5.
  • Vísir 21. janúar 1965, bls. 10.
  • Vefsíða. People to People International. History & Vision, sótt 26. febrúar 2019.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift bréfsins.

 

Landslið Íslands sem hélt til Norður-Ameríku áramótin 1964-1965
Skrá um liðsmenn íslenska körfuboltalandsliðsins
Bréf Frank Walsh til Thor Thors
Bréf Frank Walsh til Thor Thors
Bréf Frank Walsh til Thor Thors
Bréf Frank Walsh til Thor Thors
Bréf Thor Thors til Frank Walsh
Bréf Thor Thors til Frank Walsh
Svarbréf Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna