Teikningar Guðjóns Samúelssonar að Háskóla Íslands 1915

Júlí 2019

Teikningar Guðjóns Samúelssonar að Háskóla Íslands 1915

ÞÍ. Skjalasafn Húsameistara ríkisins.

Nú nýverið bárust til Þjóðskjalasafns merkilegar byggingarteikningar af húsi fyrir Háskóla Íslands sem voru gerðar árið 1915 af Guðjóni Samúelssyni sem síðar varð húsameistari ríkisins. Teikningarnar bárust Þjóðskjalasafni frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri, en alls er óvíst hvenær eða hvernig þessar teikningar rötuðu norður á Akureyri. En í öllu falli er gott að þær séu nú komnar til varðveislu í Þjóðskjalasafn.

Teikningarnar bera þess merki að vera námsverkefni Guðjóns. Skólinn er teiknaður í klassískum stíl sem hefur ekki sama yfirbragð og það sem hann fékk síðar í teikningum Guðjóns, en sú aðalbygging Háskóla Íslands sem Guðjón teiknaði var ekki byggð fyrr en á árunum 1936-1940.

Hugmyndin var að byggingin sem Guðjón teiknaði árið 1915 ætti að rísa við suðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík. Ýmsar hugmyndir um háskólabyggingu voru á sveimi á þeim árum. Þannig lagði Rögnvaldur Ólafsson fram hugmynd að háskóla í burstabæjarstíl við Arnarhól árið 1913 og rúmum 10 árum síðar lagði Guðjón Samúelsson fram hugmyndir um Háborg íslenskrar menningar sem rísa átti á Skólavörðuholti. Ísland var ekki ríkt af opinberum byggingum, en þrátt fyrir vilja til að byggja myndarlegt húsnæði yfir helstu stofnanir landsins, skorti fé til framkvæmda og því voru teikningarnar oftast einungis hugmyndir á blaði.

Guðjón hóf nám við tæknilegan forskóla listaakademíunnar í Kaupmannhöfn árið 1909 og lauk áfangaprófi árið 1911. Eftir það hóf hann hið eiginlega nám í arkitektúr sem skiptist í 3 áfanga. Í síðasta áfanganum áttu nemendur að teikna stærri opinbera byggingu í sögulegum byggingarstíl með sérþjóðlegar rætur og eru þessar teikningar Guðjóns einmitt unnar þá.

Guðjón var fyrstur Íslendinga á 20. öld til að ljúka háskólanámi í arkitektúr og skólaverkefni hans frá árunum 1912-1915 eru þau elstu sem varðveist hafa af hendi íslensks námsmanns í arkitektúr og því einstæð gögn. Fundur frumrita þessara háskólateikninga er því merkur og mun auka þekkingu okkar á byggingarsögu landsins.

Þær teikningar sem hér um ræðir eru þó langt því frá einu byggingarteikningarnar sem Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir og eru með hendi Guðjóns Samúelssonar. Skjalasafn Húsameistara ríkisins er varðveitt í Þjóðskjalasafni og er þar að finna þúsundir byggingateikninga, þar á meðal margar teikningar með hendi Guðjóns sem og annarra frumkvöðla í íslenskri hönnunarsögu.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson. Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011. Rvk. 2011.
  • Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940 I. Rvk. 2000.
  • Upplýsingar frá Pétri H. Ármannssyni arkitekt og sviðssstjóra hjá Minjastofnun Íslands.
  • ÞÍ. Skjalasafn Húsameistara ríkisins.
Teikningar Guðjóns Samúelssonar frá 1915 að Háskóla Íslands.
Teikningar Guðjóns Samúelssonar frá 1915 að Háskóla Íslands.
Teikningar Guðjóns Samúelssonar frá 1915 að Háskóla Íslands.
Teikningar Guðjóns Samúelssonar frá 1915 að Háskóla Íslands.