Sýslubókasafn Strandasýslu og lestrarfélög

Janúar 2015

Sýslubókasafn Strandasýslu og lestrarfélög

ÞÍ. Skjalasafn sýslumanns Strandasýslu. PD/2/5 og PE/6/3.

Meðal þeirra gagna sem eru varðveitt í Skjalasafni sýslumanns Strandasýslu, í Þjóðskjalasafni Íslands eru gögn um bókasöfn og lestrarfélög í Strandasýslu á 20. öld. Þessar heimildir eru bréf, aðfangabók, reikningur og útlánaskráning. Bréfin eru frá árunum 1904 og 1905 og varða tvö lestrarfélög í Strandasýslu, Lestrarfélag Tungusveitar og Lestrarfélag Bæjarhrepps. Í bréfunum kemur fram óskir um leyfi til að halda tombólu til ágóða fyrir bókakaup þessara lestrarfélaga. Efni bréfs frá 1904 er opinber styrkur til sýslubókasafns Strandasýslu. Um heimildir sem er að finna í aðfangabók, á reikningi og í útlánaskráningu er nánar fjallað hér að neðan.

Bókaeign og innkaup

Í safni sýslumanns er bók sem er merkt Aðfangabók Lestrarfélags Strandamanna en þar eru líka skráningar merktar Bókasafni Strandasýslu og Sýslubókasafni Strandasýslu, skráningarnar ná yfir árin 1904-1942. Í bókina eru skráðar bækur safnsins og innkaup. Elsta skráningin í bókina er frá 1904 og þá er fjöldi bóka og útgefinna rita 76 eintök. Eina íslenska efnið sem er á skrá þetta ár eru Ný félagsrit, en á hverju ári bættist við safnkostinn og árið 1936 var bók nr. 387 skráð en áfram var nær allur safnkosturinn á dönsku og/eða norðurlandamálum. Þetta breyttist og það sést á innkaupum til Sýslubókasafnsins árin 1942-1944 að nær öll innkaup eru á efni sem er á íslensku bæði skrifuðu á íslensku og þýddu. Það er til ódagsettur bókalisti yfir bækur sem voru sendar til Hólmavíkur frá Bókasafni Strandasýslu. Á þessum lista eru 169 bækur, nafn bókar, höfundur hennar og númer bókarinnar er skráð og af þeim fjölda finnast ekki eða er óvissa um 33 bækur. Allar bækurnar eru á dönsku eða norðurlandamálum með þeirri undantekningu þó að á íslensku eru Sögur herlæknisins, Ættgengi og kinbætur, Andvari 13.-24. árgangur (ekki samfellt) og Skírnir 79. árgangur. Það útgáfuár segir okkur að þessi listi er frá 1905 eða síðar. Þessar bækur eru af ýmsum toga, fræðirit, skáldsögur og ritsöfn norrænna höfunda. Það er til reikningur sem var sendur til Bókasafns Strandasýslu frá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Reykjavík þann 25. febrúar 1927, vegna bókakaupa og þar eru heiti bókanna skráð og fjöldi eintaka.

Skráning útlána

Það eru til upplýsingar um útlán og skil bóka frá árunum 1941 og 1943. Á handskrifuðu blaði frá 1941 sést að Haraldur Jóhannesson fékk fimm bækur að láni í júní 1941 og skilaði þeim ekki aftur fyrr en 7. apríl á næsta ári en lánstími annarra bóka sem Haraldur fékk á þessum árum var ekki jafn langur, hann fékk fjórar bækur að láni 9. febrúar 1942 og skilaði sama dag og lánsbókunum frá fyrra ári. Vélritaður útlánamiði er til frá Sýslubókasafni Strandasýslu. Útlánamiðinn er dagsettur 3. mars 1943 og þar eru skráð útlán bóka til Þórðar Guðmundssonar, þann dag fékk Þórður að láni bækur nr. 417 og 418 sem voru bækurnar Tess eftir Thomas Hardy. Þórður kvittaði fyrir móttöku bókanna og skilaði bókunum tveim vikum seinna og þá er skráð á útlánamiðann að árgjald ársins 1942 sé greitt. Sá sem kvittar þegar bókum er skilað og stimplar útlánabréfið og útlánamiðann með embættisstimpli sýslumanns var Friðjón Sigurðsson settur sýslumaður Strandasýslu. Engar upplýsingar eru í þessum gögnum um hve lengi menn máttu hafa bækur að láni eða hvort þeir voru sektaðir ef skil drógust lengi.

Þórunn Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.

Á fyrstu opnunni í Aðfangabók Lestrarfélags Strandamanna eru skráðar bækur af ýmsu tagi bæði fagurbókmenntir og fræðibækur
Á þessum reikningi frá bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar frá árinu 1924 eru innkaup Bókasafns Strandamanna
Skráð útlán og skil lánþegans Haraldar Jóhannessonar á árinu 1942