Starfsíþróttir

Mars 2013

Starfsíþróttir

ÞÍ. Ungmennafélag Íslands

Á 8. Landsmóti UMFÍ á Eiðum, sem haldið var 5. - 6. júlí 1952, var í fyrsta skipti keppt í starfsíþróttum. Þennan bækling skrifaði Stefán Ólafur Jónsson árið 1953. Taldi hann það vera mikinn ávinning fyrir íslenskan landbúnað og starf ungmennafélaganna hérlendis að koma á keppni í starfsíþróttum. Í bæklingnum er umfjöllun um keppnisgreinarnar þrjár en þær voru að strjúka skyrtu, búa til hnappagat og festa hnapp og smyrja brauð. Þá var útskýrt hvernig keppnin ætti að fara fram og hvað dómari ætti að taka tillit til í stigagjöf sinni.

Stefán Ólafur Jónsson var mikill talsmaður starfsíþrótta hérlendis. Dvaldi hann meðal annars í mánuð í Noregi sumarið 1951 til að kynna sér starfsemi Norges Bygdeungdomsslag. Um upplifun sína skrifaði hann í Skinfaxa og lýsir því að aðalviðfangsefni félagsskapsins sé „að kenna ungu fólki hagnýta vinnu og vinnuaðferðir og vekja áhuga fyrir vinnunni.“ Meðal þeirra keppnisgreina sem flokkuðust undir starfsíþróttir hjá Norges Bygdeumgdomsslag voru handmjöltun, vélmjöltun, plæging með hestum eða dráttarvél, mat á búpeningi, trjáplöntun og svo mætti áfram telja. Segir Stefán að slíkar keppnisgreinar séu vel til þess fallnar fyrir fólk að kynnast mismunandi aðferðum og sjá hvað hentar þeim sjálfum. Taldi hann að nauðsynlegt að hefja góð afköst á verklegum sviðum til vegs og virðingar og þar gætu ungmennafélög lagt hönd á plóg með því að taka upp starfsíþróttir sem keppnisgrein.

Þessi fyrsta keppni í starfsíþróttum á Landsmótinu 1952 þótti heppnast vel og lýsti Bjarni Andrésson upplifun sinni í Skinfaxa 1953: „Keppni í starfsíþróttum var sögulegasti þáttur Eiðamótsins. Það var unaðslegt að horfa á stúlkur keppast við að leggja á borð. Það var nýstrárleg keppni, sem sumir íþróttagarparnir litu háðskum augum í fyrstu, en eftir því, sem á keppnina leið, fylgdust menn með henni af stakri eftirtekt og fundu, að hér var á ferðinni íþrótt, sem að vísu lét ekki mikið yfir sér, en var í nánu sambandi við lífið sjálft.“

Helga Jóna Eiríksdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Stefán Ól. Jónsson. „Starfsemi Norges Bygdeungdomsslag“. Skinfaxi. 43. árg., 3.tbl. 1952.
  • Bjarni Andrésson. „Ræktun“. Skinfaxi. 44. árg., 1.tbl. 1953.

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

 

Forsíða bæklings Stefáns Ólafs Jónssonar um starfsíþróttir
Bæklingur Stefáns Ólafs Jónssonar um starfsíþróttir, síða 2
Bæklingur Stefáns Ólafs Jónssonar um starfsíþróttir, síða 3
Bæklingur Stefáns Ólafs Jónssonar um starfsíþróttir, síða 4