Skjalageymslur á Dómkirkjulofti

Apríl 2012

Skjalageymslur á Dómkirkjulofti

ÞÍ. Landshöfðingjasafn 1885, nr. 636

Þegar alþingishúsið var tekið í notkun sumarið 1881 var Landsbókasafni og Forngripasafni ætlað rými þar. Fram að því höfðu þessi söfn verið til húsa á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík. Þar var því til reiðu ónotað pláss og kom upp sú hugmynd að nýta það undir „skjöl landsins.“ Sjálfsagt hafa menn rætt þetta sín á milli, enda fjarlægðir ekki miklar í Reykjavík þá fremur en nú, en 7. mars 1881 rituðu fjórir embættismenn landshöfðingja, æðsta innlenda valdsmanni landsins, formlegt bréf, þar sem bent er á þetta ónotaða húsnæði, enda telja þeir „ýmsum annmörkum bundið fyrir oss, að hafa skjalasöfn vor í íbúðarhúsum vorum.“ Þeir fara þess því á leit við landshöfðingja að hann láti útbúa skjalageymslur á Dómkirkjuloftinu á opinberan kostnað.

Þessir heiðursmenn voru Bergur Thorberg sem þá var amtmaður sunnan og vestan en varð einmitt landshöfðingi árið eftir. Hann lést langt um aldur fram árið 1886, var raunar tengdasonur biskupsins. Pétur Pétursson biskup var kominn á efri ár en var einn virðulegasti embættismaður landsins. Árni Thorsteinsson landfógeti var síðasti maðurinn sem gegndi því embætti, sem samsvaraði fjármálaráðherraembættinu að nokkru leyti; það var lagt niður árið 1904. Árni var mikill reglumaður í embætti og sinnti einnig fræðistörfum. Fjórði embættismaðurinn var Indriði Einarsson, sem þá var nýkominn heim frá hagfræðinámi og vann í hinni Umboðslegu endurskoðun, en hún telst forveri Ríkisendurskoðunar. Í Endurskoðunarskjölunum eru varðveittir reikningar opinberra stofnana og gefa þeir margvíslegar upplýsingar um þjóðfélagið. Þess skal getið að Indriði var frumkvöðull í leikstarfsemi Íslendinga og afkastamikið leikskáld og þýðandi, leikrit hans Nýársnóttin var sýnt við vígslu Þjóðleikhússins árið 1950.

Landshöfðingi hafði ekki heimild til að taka ákvörðun um stofnun skjalageymslunnar og ritaði því til Íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn um málið sem samþykkti fyrirkomulagið með bréfi 30. júní 1881. Þá var líka þegar hafist handa og innréttuð sjö geymsluherbergi á Dómkirkjuloftinu sem var skipt þannig að eitt var fyrir skjalasafn landshöfðingja, annað fyrir stiftsyfirvöld, þriðja fyrir amtmann sunnan- og vestanlands, fjórða fyrir biskup, fimmta fyrir landfógeta, sjötta fyrir umboðslegan endurskoðanda og sjöunda herbergið fyrir skjöl frá ýmsum embættum út um land. Hér eru upp talin allar „æðstu“ stofnanir landsins á þessum tíma nema amtmannsembættið norðan og austan. Þar var hins vegar lítið að geyma því skjalasafnið gjöreyðilagðist þegar Friðriksgáfa á Möðruvöllum í Hörgárdal brann árið 1874. Kann að vera að sá bruni hafi ýtt við mönnum að koma skjalageymslumálunum í betra horf.

Fyrirkomulagið á geymslunum var þannig að forstöðumönnum viðkomandi embætta var afhentur lykill, hverjum að sinni geymslu. Þeir sáu um að raða skjölum síns embættis upp í hillur og báru síðan ábyrgð á þeim. Landshöfðingjaritari bar hins vegar ábyrgð á sjöunda herberginu og má því kannski segja að hann hafi verið fyrsti „starfsmaður“ hins verðandi Þjóðskjalasafns.

Reglur um umgengi og öryggi voru þrjár. Sú fyrsta að læsa jafnan dyrum að dómkirkjuloftinu á eftir sér, önnur að setja stiga, sem embættismennirnir höfðu sameiginlega afnot af, jafnan á sinn rétta stað að notkun lokinni, en sú þriðja laut að því að fara varlega með eldfæri og ljós og klykkt út með: „Að reykja tóbak á dómkirkjuloftinu er með öllu bannað.“

Þjóðskjalasafnið fékk ekki launaðan starfsmann fyrr en um aldamótin, þegar Jón Þorkelsson forni var skipaður landskjalavörður frá 1. janúar 1900. Fyrsta verk hans var að flytja safnið yfir í næsta hús, í Alþingishúsið.*

Jón Torfason ritaði kynningartexta.

Heimildir:

* Byggt á bók eftir Sigfús Hauk Andrésson: Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess og yfirlit um heimildasöfn þar. Reykjavík 1982.

Bréf fjögurra embættismanna um skjalageymslu