Skiptabækur og skiptaskjöl

Nóvember 2014

Skiptabækur og skiptaskjöl

ÞÍ. Sýslumaðurinn á Ísafirði. ED1/3, örk 1. Skiptabók 1855-1860.
ÞÍ. Sýslumaðurinn á Ísafirði. ED2/2, örk 19. Fylgiskjöl 1856.

Í skjalasöfnum sýslumanna sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni má finna fjölbreyttar heimildir sem nýtast til hinna ýmsu rannsókna ásamt því að geyma upplýsingar um réttindi borgaranna. Meðal þeirra heimilda sem liggja í skjalasöfnum sýslumanna eru skiptabækur og fylgiskjöl þeirra. Sýslumenn héldu skiptarétti þar sem tekin voru fyrir skipti á eignum, yfirleitt dánarbúum, en fyrir kom að skipti fóru fram vegna gjaldþrots. Skiptaréttir eru þekktir frá 18. öld en skiptabækurnar hafa yfirleitt aðeins varðveist í skjalasöfnum sýslumanna frá byrjun 19. aldar. Þó má í einstaka söfnum finna skiptabækur sem eru frá seinni hluta 18. aldar.

Skiptabækur eru gjörðabækur skiptaréttar þar sem framlögð skjöl eru bókfærð og gerð grein fyrir eignum og skuldum búsins ásamt kröfuhöfum í tilfelli þrotabúa eða erfingja í tilfelli dánarbúa. Í bókunum er því lýst hvernig skiptin fóru fram og hvað kom í hlut erfingja eða annarra kröfuhafa. Skiptabækur sýslumanna veita gríðarlega mikla innsýn inn í eignar- og skuldastöðu einstaklinga hvers tíma við andlát og veita ítarlegar upplýsingar um eigur þeirra og virði munanna. Bækurnar geta nýst við ýmsar rannsóknir á högum Íslendinga fyrr á öldum sem og verðlag og þróun þess.

Með skiptabókum eru ýmis fylgiskjöl sem eru þau málsskjöl sem lögð eru fram fyrir skiptarétt ásamt öðrum skjölum sem tengjast skiptunum. Á skjölin er oft ritað hvenær þau voru framlögð og merkt í hlaupandi töluröð, til að byrja með var notast við bókstafi til að númera þau en um miðja öldina fara sýslumenn að notast við tölustafi. Eins og skiptabækurnar eru fylgiskjölin mikilvægar heimildir um eignir einstaklinga á hverjum tíma og geta nýst til hinna ýmsu rannsókna á lífi fólks fyrr á öldum. Virðingargjörðir eru dæmi um fylgiskjöl en þar má finna ítarlega lista yfir hvern einasta smáhlut sem hinn látni átti ásamt virði þeirra.

Heimild mánaðarins að þessu sinni er því dæmi úr skiptabók Ísafjarðarsýslu 1855-1860, skipti á dánarbúi Ólafs Guðmundssonar 3. maí 1856, ásamt virðingargjörð sem lögð var með málinu sem fylgiskjal.

Helga Jóna Eiríksdóttir ritaði kynningartexta og skrifaði upp skjölin með skýringum.

Hér að neðan er uppskrift af skjölunum.

Skiptabók Ísafjarðarsýslu 1855-1860. Skipti á dánarbúi Ólafs Guðmundssonar 3. maí 1856
Uppskrift á dánarbúi Ólafs Guðmundssonar 7. janúar 1856