Segist eigi vita hvaða freistni hafi komið yfir sig

Október 2018

Segist eigi vita hvaða freistni hafi komið yfir sig

ÞÍ. Sýsl. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. GA/10. Dóma- og þingbók (1877-1882).
ÞÍ. Sýsl. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. GA/9-2. Aukadómabók (1870-1884).

Upphaf byggðar í Borgarnesi má rekja til loka áttunda áratugar 19. aldar þegar Jón Jónsson kaupmaður frá Ökrum á Mýrum stofnaði þar verslun í sínu nafni. Jón, sem kallaður var Akra-Jón, lét reisa verslunarhús og íbúðarhús á árunum 1877-1878 undir Suðurnesklettum við Brákarsund, neðst í Borgarnesi, ásamt bryggjusporði sem lá út í sundið. Sá sem annaðist smíði þessara mannvirkja var norskur maður að nafni Ole Johan Haldorsen. Hann er því talinn fyrsti íbúinn í Borgarnesi. Ole var mörgum eftirminnilegur í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Honum var lýst sem lágvöxnum manni og kýttum í herðum eftir slys á yngri árum. Hann þótti duglegur og ágætur smiður og, ef marka má dómabækur, fús til að sækja rétt sinn frammi fyrir réttvísinni ef á honum var brotið. Hann var kallaður Óli norski af Borgfirðingum.

Í dómabókum Mýra- og Borgarfjarðarsýslu eru hægt að lesa um nokkur mál sem Óli norski átti aðild að. Það fyrsta varðaði þjófnað sem framinn var vorið 1878 er Óli vann við smíði verslunarhúsanna undir Suðurnesklettum.

Þriðjudaginn 21. maí 1878 þurfti Andrés Fjeldsted bóndi á Hvítárvöllum og menn hans að leita sér skjóls í Borgarnesi, en þeir voru á leið með timbur á báti inn að Hvítárvöllum. Norðan vindur var þennan dag í Borgarfirði sem torveldaði siglingu inn fjörðinn. Andrés knúði því dyra hjá Óla og bað um næturgistingu fyrir sig og menn sína. Það var auðsótt og gisti hópurinn á lofti verslunarhússins. Norðangarrinn var slíkur að næturnar urðu tvær.

Meðal manna Andrésar var Sólmundur Símonarson bóndi á Hvítárósi í Andakíl. Sólmundur hafði verið einn á ferð á bát sínum frá Reykjavík og lent í Borgarnesi vegna veðurs þennan sama dag og hitt þar fyrir Andrés sem bað hann um að aðstoða sig með timbrið. Daginn eftir fyrstu nóttina var Óli við smíðar í verslunarhúsinu þegar grunsamlegir skruðningar heyrðust ofan af loftinu. Óli hélt upp til að athuga málið og mætti Sólmundi í stiganum. Þegar upp var komið sá hann að trefill hafði horfið úr lokuðum kassa sem þar var. Grunaði hann Sólmund strax um þjófnaðinn, gekk á hann og fékk játningu og trefilinn tilbaka. Neitaði Sólmundur að hafa tekið fleiri hluti, en ráða má af skýrslutöku í málinu að Óla hafi grunað að fleiri hlutir hafi verið teknir ófrjálsri hendi.

Óli var ekki sáttur og virðist hafa þjófkennt menn Andrésar, en af málsgögnum má ráða að þeir hafi verið utan dyra þegar Sólmundur var gripinn með trefilinn. Þetta leiddi til þess að þeir skoruðu á Andrés að rannsaka farangur Sólmundar, sem var með koffort með sér, ólíkt öðrum í hópnum. Andrés gekk hreint til verks og rannsakaði koffortið að viðstöddum Óla og Sólmundi. Það eina grunsamlega sem hann fann var sokkur með nöglum í sem Sólmundur kvaðst hafa keypt í Fischer verslun í Reykjavík. Óli taldi naglana og sokkinn vera sína eign og eftir nokkur orðaskipti játaði Sólmundur að hafa stolið þessu. Í kjölfarið leysti Sólmundur frá skjóðunni og játaði að hafa einnig stolið brýni og nokkrum litlum nöglum úr skál.

Óli taldi rétt að Sólmundur fengi makleg málagjöld fyrir athæfið og kærði hann með bréfi til Eggerts Theodórs Jónassens sýslumanns Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 23. maí. Í lögreglurétti (pólitírétti) sem fram fór á Hvítárvöllum 6. júní sama ár játaði Sólmundur brot sín og sagðist „eigi vita hvaða freistni hafi komið yfir sig,“ eins og segir í dómabókinni. Í aukarétti í Hjarðarholti í Stafholtstungum 18. ágúst var hann dæmdur í fimm daga fangelsi við vatn og brauð.

Óli norski ílentist á Íslandi eftir að hafa lokið framkvæmdum fyrir Akra-Jón í Borgarnesi. Hann hélt upp í Norðtungu í Þverárhlíð og annaðist þar byggingu kirkju á árunum 1878-1879. Síðar fluttist kona hans til landsins og settust þau að í Reykjavík þar sem Óli fékkst við smíðar til dánardags. Um Sólmund Símonarson er það að segja að hann flutti til Vesturheims tíu árum eftir dóminn og endaði ævi sína þar.

Heiðar Lind Hansson ritaði kynningartexta og skrifaði upp dómana.

Heimildir

  • ÞÍ. Sýsl. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. GA/10. Dóma- og þingbók (1877-1882).
  • ÞÍ. Sýsl. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. GA/9-2. Aukadómabók (1870-1884).
  • ÞÍ. Hestþing - prestakall 0000 BC/4-1. Sóknarmannatal. Húsvitjunarbók Hestþinga (1866-1883).
  • Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson, Byggðin við Brákarpoll. Saga Borgarness I. Borgarbyggð: 2017.
  • Morgunblaðið C 23. apríl 2002, bls. 44-45.

Smelltu á tenglana hér að neðan til að sækja uppskriftir dómanna.

 

Ole Johan Halldorsen smiður. Myndin er í vörslu Hérðasskjalasafns Borgarfjarðar.
ÞÍ. Sýsl. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. GA/10. Dóma- og þingbók (1877-1882).
ÞÍ. Sýsl. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. GA/10. Dóma- og þingbók (1877-1882).
ÞÍ. Sýsl. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. GA/10. Dóma- og þingbók (1877-1882).
ÞÍ. Sýsl. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. GA/9-2. Aukadómabók (1870-1884).
ÞÍ. Sýsl. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. GA/9-2. Aukadómabók (1870-1884).
ÞÍ. Sýsl. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. GA/9-2. Aukadómabók (1870-1884).