Reimleikar í Framnesi í Holtum veturinn 1767-1768

Maí 2017

Reimleikar í Framnesi í Holtum veturinn 1767-1768

Bps. A. IV, 53a. Bréf til Skálholtsbiskups úr Rangárþingi 1758-1793.

Veturinn 1767-1768 tók að bera á reimleikum í Framnesi í Holtum í Rangárvallasýslu. Húsráðendum varð ekki um sel og svo virðist sem þeir hafi gert yfirvöldum viðvart og teknir hafi verið vitnisburðir vegna málsins. Því miður hefur dóma- og þingbók Rangárvallasýslu frá þessum tíma ekki varðveist þar sem helst væri að vænta upplýsinga. Þorsteinn Magnússon sýslumaður á Móeiðarhvoli rannsakaði þó vissulega málið og upplýsti það eins og skýrsla hans greinir frá. Hún er dagsett 20. febrúar 1768 og stíluð á Brynjólf Sigurðsson sýslumann í Árnessýslu og séra Sigurð Magnússon aðstoðarprest í Hraungerði en er varðveitt í biskupsskjalasafni.

Framnes var fremur lítilfjörleg hjáleiga kirkjunnar að Ási í Holtum en þar bjó Einar Jónsson sem verið hafði rektor Skálholtsskóla 1746-1753 og svo ráðsmaður á sama stað í þrjú ár eftir það. Í Framnesi bjuggu Þorleifur Hannesson og Halldóra Pálsdóttir en börn þeirra voru: Elín (1749-líklega 8. júní 1778), Jón (skírður 8. september 1753-5. september 1830), Snæbjörn (1754-5. janúar 1839), Ólöf (1756-26. mars 1800), Guðrún (1763-17. ágúst 1834), Þuríður (1764-12. nóvember 1833) og Ingibjörg (1769-31. maí 1827). Þorleifur var sonur Hannesar Jónssonar bónda á Heiði í Holtum og seinni konu hans Steinunnar Jónsdóttur. Faðir Halldóru var Páll sem var sonur Hákonar Hannessonar sýslumanns í Rangárþingi og lögsagnari hans á árunum 1716-1724.

Þorsteinn sýslumaður kom að Framnesi kvöldið 27. janúar 1768 í rökkri til þess að reyna á eigin skinni umrædda reimleika. Húsráðendur sögðu honum þó að allt hafi verið í kyrrð og ró fyrir vondum öndum síðan Elín vék burt af heimilinu. Föðurnafns Elínar er ekki getið í skýrslunni en þar er væntanlega átt við elstu dóttur þeirra hjóna sem var 19 ára.

Sýslumaður beindi því næst sjónum að Jóni Þorleifssyni sem kallaður er Jón litli í skýrslunni en hann var 14 ára. Yfirheyrslan byrjaði þannig:

Qvæstio 1° Hver Hellte Nidur Vatns KierHalldenu? Svar: Hun Elen giórde þad. 2° Spurn: Hvør liet þad uppa kistuna afftur? Svar: Jeg giórde þad.

Er hér var komið sögu dreif að Jón Filippusson sem vildi tala við drenginn og hindraði "Svartaskóla Catechisation" sýslumanns. Sýslumaður hvarf því frá yfirheyrslunni sem hann kennir við þann skóla sem Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133) á að hafa numið við og í þjóðsögum varð að galdraskóla þar sem sjálfur djöfulinn var skólameistari. Umræddur Jón Filippusson (1748-1819) mun líkast til vera sonur séra Filippusar Gunnarssonar í Kálfholti 1718-1760. Hann bjó á Efri-Hömrum 1771-1774, á Brekkum 1786-1816 og var síðar hreppstjóri í Holtamannahreppi.

Sýslumaður var svo boðaður í skemmu eða smiðju á hlaðinu en í sama vetfangi bar að Jón Bjarnason. Þar mun líkast til átt við Jón Bjarnason (f. 1710) sem bjó í Hellatúni 1744-1762. Hann var kvæntur Margréti föðursystur Jóns Þorleifssonar enda kallar sýslumaður hann náunga Jóns litla. Þá mun Jón litli hafa leyst frá skjóðunni og sagt:

[…] alla Historiuna um diófla besettnïnguna J Frammness farda koppumm og kläfumm, […] Synde Hvernig fared var ad glamra og gióra Skróllt Med Sauma lärunum. Effter þad komumm vid J badstofu, Dreingurenn Puckade diarflega Mot Mödurenne Eg Sagde Þier Þad Mödur Myn, Hun Elen Være ad þessu athæfe og Hun Hefur komed ockur Olufu til þess med Sier, þvÿ Hun Hefur Vered ad Ryda Hier fiösenu, Husunumm J Nockur Är etc. Framar Syndu þaug Systkenenn Jon og Oluf Hvernig fared Hefde vered ad billta Kistle a Pallenumm Milli Rumanna, og Hvórsu dreingurenn Jon Hefde Þreifad a Hende Elenar þa þaug Kistlenumm billtu J Mirkre um Nöttena. Framar: ad Elen Hefde Seilst med Handlegg Synumm, afftur ur Rumgable framm yfer Golfed, og glamrad med Lyklumm: Brennesteins Likt hefde Eitt sinn med Henne komed J badstofuna framann ur gaungunumm og Sama lykt fundest i giegnum gót og Rifur A badstofu Hurdenne.

Eftir yfirheyrsluna, sem var tvítekin frammi fyrir vottum í skemmunni og baðstofunni, gengu þeir Jón litli og Jón Bjarnason heim að Ási. Hinir, sem fóru ríðandi, náðu þeim á miðri leið en þá kallaði Jón Bjarnason til sýslumanns og sagði:

[…] Hann Jon Litle Seiger mier Hun Elen Hafe brukad tunnustaf til ad glamra, Picka, bänka eda dunka Med, J vegge, bita, Pall edur Pallstock etc: A Nöttenne.

Þegar heim að Ási var komið var öll yfirheyrslan endurtekinn í þriðja sinn í kirkjunni með sömu vottum auk Einars í Ási. Sýslumaður kom þessum upplýsingum svo áleiðis til sýslumanns Árnesinga og aðstoðarprests í Hraungerðiskalli því að Elín hefur verið komin í Árnessýslu og sóknir séra Sigurðar. Hann fól þeim því að koma henni til sannrar iðrunar eftir embættisskyldu þeirra og fá hana til þess að viðurkenna það sem yfirheyrslan hafði leitt í ljós. Í framhaldi af því skyldi hún taka út verðskuldaðar skriftir og refsingu.

Ekki er ljóst hver örlög Elínar urðu en hún er talin dáin 8. júní 1778. Það er byggt á prestsþjónustubók Odda á Rangárvöllum en þar segir að hin ógifta Elín Þorleifsdóttir frá Helluvaði á Rangárvöllum hafi látist 28 ára gömul. Þá bjó á Helluvaði Árni Jónsson en kona hans var Kristín Jónsdóttir. Ólöf varð húsfreyja að Ósi í Skilmannahreppi en samkvæmt skýrslu sýslumanns aðstoðuðu þau Jón litli Elínu við reimleikana. Jón litli er sagður í skýrslunni: "[…] Sialfur vaxenn med geitur ofann i bryr […]", þ.e.a.s. að hann hafi verið með sveppasýkingu í höfði sem lýsir sér í gulri skorpu sem stækkar og þykknar ef ekkert er aðhafst og veldur hárlosi. Svo virðist sem í tilviki Jóns litla hafi allt höfuðið verið þakið geitum ofan í augnabrýr. Það var útbreidd skoðun að geitur kæmu aðeins af óþrifnaði og sóðaskap og þótti mikil skömm að. Því leyndu menn sjúkdómnum og forðuðust að taka af sér höfuðfatið svo mjög að þeir hættu jafnvel að mæta til kirkju.

Óljóst er hvað varð um Jón litla og ártöl ganga ekki alls kostar upp en hann er líkast til sami maður og er færður til bókar í manntalið 1801 sem 55 ára vinnumaður í Hruna í Hrunamannahreppi. Í manntalinu 1816 er hann sagður 73 ára próventumaður hjá séra Steingrími Jónssyni (1769-1845) í Odda á Rangárvöllum. Jón litli hefur því gefið séra Steingrími í Odda próventu sína, þ.e. fengið honum eignir sínar gegn því að hann sæi fyrir sér í ellinni. Óvíst er hvaða eigur Jón litli hefur átt en bróðir hans, Snæbjörn í Gíslholti, var auðugur bóndi og e.t.v. hafa Skaftáreldar, móðuharðindi og mannfall í kjölfar þeirra þjappað ættarauðnum saman á færri hendur. Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður segir að Jón litli hafi aldrei kvænst og dáið í Laugarnesi sem vinnumaður hjá séra Steingrími sem varð biskup árið 1824. Í prestsþjónustubók Dómkirkjunnar segir um andlát hans árið 1830: "[…] örvasa gamalmenni, í braudi Hra biskupsins á Laugarnesi, ættadr ad austan." Jón er þar sagður 85 ára og hafi látist 8. september en verið grafinn 12. september og dánarorsökin er sögð aldursdómslasleiki. Biskup getur svo andlátsins í bréfi til fornvinar síns Bjarna Þorsteinssonar amtmanns, dagsettu 13. september 1830, en þar segir: "Jon gamli Þorleifsson hiá mér dó fyrra Sunnud. var grafinn í giær."

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta skýrslunnar.

Heimildir

 • ÞÍ. Dómkirkjan í Reykjavík. BA/7. Prestsþjónustubók 1816-1838, bls. 252.
 • ÞÍ. Oddi á Rangárvöllum. BA/1. Prestsþjónustubók 1747-1784, bls. 8, 112.
 • Lbs 340 fol. A. Bréfasafn Bjarna Þorsteinssonar amtmanns. Steingrímur Jónsson til Bjarna Þorsteinssonar, 13. september 1830.
 • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir IV. Með skýringum og viðaukum eptir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1909-1915, bls. 479-481.
 • Holtamannabók II. Ásahreppur. Höfundur að frumdrögum: Valgeir Sigurðsson. Viðbætur unnu: Ragnar Böðvarsson, Þorgils Jónasson. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Hella 2007, bls. 108, 118, 181, 231.
 • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Safnað hefur Jón Árnason. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954, bls. 469-470.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I-V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948-1952.
 • J. Jónassen, Lækningabók handa alþýðu á Íslandi. Reykjavík 1884, bls. 155-158.
 • Manntal á Íslandi 1801. Suðuramt. Reykjavík 1978, bls. 256.
 • Manntal á Íslandi 1816 I. Akureyri 1947, bls. 229.
 • S[veinn] P[álsson], "Registr yfir Islenzk Siúkdóma nøfn." Rit þess konúnglega Islenzka Lærdóms-Lista Félags 9 (1789), bls. 214.
 • Valgeir Sigurðsson, Rangvellingabók. Saga jarða og ábúðar í Rangárvallahreppi I. Hella 1982, bls. 172.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja/skoða uppskriftina.

Skýrsla Þorsteins Magnússonar sýslumanns, dagsett 20. febrúar 1768, um meinta reimleika á Framnesi í Holtum 1767-1768
Skýrsla Þorsteins Magnússonar sýslumanns, dagsett 20. febrúar 1768, um meinta reimleika á Framnesi í Holtum 1767-1768