Persónulegt trúnaðarmál – njósnir á Íslandi

Nóvember 2020

Persónulegt trúnaðarmál – njósnir á Íslandi

ÞÍ. Utanríkisráðuneyti Ísland 1994/55. A/1-5.

„Bréf þetta er um njósnir. Bið ég þig um að lesa það í einrúmi, og segja engum frá efni þess, nema þeim, sem þú trúir fullkomlega, bæði um þagmælsku og gætni. Vélritara þessa bréf má treysta og uppkast og afrit af bréfinu verður geymt á öruggum stað, sem enginn veit um nema Krabbe og ég.“

Svo hefst bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar. Bréfið var ritað 2. mars 1939, þegar ófriðarblikur voru að hrannast upp í Evrópu. En hvaða mikla leyndarmál var Sveinn að upplýsa forsætisráðherra Íslands um?

Í bréfinu greinir Sveinn frá því að hann hafi hitt yfirmann leyniþjónustunnar í Danmörku í miðdegisboði og þá hafi honum verið sagt frá njósnamáli sem hafði komið upp fyrr á árinu. Málið var kennt við Pflugk-Hartung, en hann var þýskur herforingi sem hafði búið í Danmörku undir því yfirskyni að vera blaðamaður. Hann hafði hins vegar skipulagt njósnahring. Hann hafi komið upp senditækjum víðs vegar um landið og haft tugi manna í sinni þjónustu sem komu leynilegum upplýsingum til Þýskalands.

Við rannsókn málsins kom í ljós að þessi njósnahringur teygði anga sína til Íslands. Danir voru, að sögn Sveins, sannfærðir um að á Íslandi væri leynilegir radíósendar og þeir reiknuðu með þeim möguleika „að leynilegar olíubirgðir væru hér fyrir flugvélar og kafbáta, annað hvort í skipum, togurum sem veiði stunda, eða öðrum skipum, eða jafnvel á landi, grafið í jörðu á afskekktum stöðum.“

En voru raunverulega stundaðar njósnir á Íslandi á þessum tíma og voru hér á landi leynilegar olíubirgðir til nota fyrir þýska herinn? Vissulega rannsökuðu íslensk stjórnvöld þetta mál og fundu vísbendingar um að Þjóðverjar höfðu reynt að nálgast Íslendinga og um svipað leyti kom til landsins nýr ræðismaður þýska ríkisins, Werner Gerlach. Hann var annarar gerðar en þeir þýsku sendifulltrúar sem áður höfðu verið á Íslandi. „Þeir sendu hingað hermann“ sagði Gunnar Gunnarsson skáld. Gerlach hafði það hlutverk að fylgjast náið með íslenskum málefnum og koma í veg fyrir að Íslendingar yrðu of háðir Bretum og Bandaríkjunum. Þór Whitehead segir í bók sinni Ófriður í aðsigi að hlutverk hans hafi verið að draga Íslendinga inn á áhrifasvæði Þjóðverja og beita til þess ýmsum leiðum, þar á meðal beinum áróðri. Eins og gefur að skilja var honum nauðsynlegt að byggja upp net fólks sem gat veitt honum mikilvægar upplýsingar í því skyni, en hvort um beinar njósnir var að ræða má deila. Hins vegar fundust ekki nein líkindi þess að á Íslandi hafi verið olíubirgðir ætlaðar þýska hernum.

Nú hefur þetta bréf, auk annara gagna um sama efni, verið birt á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Sagnfræðinemarnir Atli Björn Jóhannesson og Daníel Godsk Rögnvaldsson unnu síðastliðið sumar að ítarskráningu skjala sem bárust Þjóðskjalasafni úr skjalasafni utanríkis­ráðu­neytis­ins og skönnun hluta þeirra skjala. Á næstu misserum og árum munu fleiri skjöl birtast á vef safnsins er varða aðdraganda síðari heimsstyrjaldar og hernámsins. Þessi tilteknu skjöl, sem varða njósnir á Íslandi, eru varðveitt í afhendingu utanríkis­ráðuneytisins sem bárust til Þjóðskjalasafns árið 1994. Hægt er að skoða myndir af skjölunum.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Þór Whitehead. Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld. Reykjavík 1980.
  • ÞÍ. Utanríkisráðuneyti Ísland 1994/55. A/1-5.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.
Bréf Sveins Björnssonar sendiherra í Kaupmannahöfn til Hermanns Jónassonar forsætisráðherra.