Nóta Sæmundar Sveinssonar

Janúar 2017

Nóta Sæmundar Sveinssonar

ÞÍ. Einkaskjalasafn Geirs Zoëga.

Geir Zoëga (1830-1917) setti mikinn svip á sögu Reykjavíkur á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu og stóð í margvíslegum umsvifum. Hann rak búskap, útgerð og verslanir, auk þess að vera frumkvöðull í ferðaþjónustu sem skipulagði ferðir erlendra ferðamanna um Ísland og útvegaði þeim hesta, vistir og leiðsögn.

Geir var sonur hjónanna Jóhannesar Zoëga (1796-1852) glerskera í Reykjavík og Ingigerðar Ingimundardóttur (1798-1882). Hann fór að stunda sjóinn um fermingaraldur og varð umsvifamikill formaður og síðar útgerðarmaður. Hann lærði ensku af Sigurði Sívertsen, syni Bjarna riddara í Hafnarfirði, og átti sú kunnátta eftir að gagnast honum vel þegar hann fór að umgangast erlenda ferðamenn.

Geir hóf ræktunarframkvæmdir í Götuhúsum, hjáleigu frá landnámsjörðinni Reykjavík, sem heppnuðust svo vel að hann fékk verðlaun Húss- og bústjórnarfélags Suðuramtsins árið 1866. Túnið sem hann ræktaði hlaut nafnið Geirstún og var lengi fegursta og grasgefnasta tún í Reykjavíkurbæ. Geirstún var þar sem nú eru austurhlutar Öldugötu, Bárugötu og Ránargötu. Bærinn Götuhús var mitt á milli Landakots og Grjóta og stóð nokkurn veginn þar sem nú er Túngata 20.

Geir var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Sveinsdóttir (1830-1889) og áttu þau eina dóttur, Kristjönu. Seinni kona Geirs var Helga Jónsdóttir (1859-1946) og áttu þau 5 börn og komust 4 þeirra til fullorðinsára.

Um miðbik 19. aldar jukust ferðir erlendra manna til Íslands. Einkum var um vísinda- og fræðimenn að ræða, en einnig fór auðugt hefðarfólk að venja komur sínar hingað til lands. Flestir þessara ferðamanna þurftu fylgdarmenn og fararskjóta. Stór hluti erlendra ferðamanna á þessum tíma voru Englendingar. Geir hafði lært ensku, eins og áður segir, og var hvattur til að taka að sér fylgd ferðamanna. Það fór ekki illa saman við sjómennskuna sem nokkurt hlé varð á um hásumarið. Ekki leið á löngu þar til Geir var orðin umsvifamikill á þessu sviði og var útlendum ferðamönnum yfirleitt vísað á hann. Ferðamennskan fórst honum vel úr hendi og luku viðskiptavinir hans lofsorði á þjónustu hans.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er nú unnið að frágangi og skráningu á einkaskjalasafni Geirs Zoëga. Þar í er nóta frá árinu 1887 þar sem skráð eru margvísleg störf Sæmundar Sveinssonar fyrir Geir á því ári. Þar má nefna lifrarbræðslu, heyburð, haugmokstur, uppskipun, útskipun og bryggjuvinnu. Einnig hefur Sæmundur slátrað hestum, leitt kýr undir naut, rakað selskinn og húðir, elt skinn, borið út mó, mokað húsdýraáburð á tún og farið í sendiferðir. Á nótunni kemur m.a. fram að fyrir sunnudagsvinnu hafi Sæmundi verið greiddir 25 aurar á tímann. Þetta sama ár var hægt að kaupa hveitibrauð á 22 aura hjá Gránufélagsversluninni á Oddeyri á Akureyri. Þar fékkst einnig hvítur sykur á 32 aura, export kaffi á 45 aura og rjól á 1,50 krónur, öll verð miðuð við 1 pund.

Sæmundur Sveinsson fæddist 8. apríl 1841 í Bergholtskoti í Staðarsveit, Snæfellsnessýslu, sonur hjónanna Sveins Ólafssonar (1811-1886) og Steinunnar Ólafsdóttur (1815-1866). Árið eftir var hann skráður tökubarn í Lágubúð í Staðarsveit hjá Magnúsi Sigurðssyni (1801-1852) og konu hans Elísabetu Guðmundsdóttur (1798-1858) og hafði þar heimili þar til Magnús lést árið 1852. Þá fór Sæmundur að Hóli (Neðrihóli) í sömu sveit til Kristjáns bónda Sigurðssonar (1805-1871) og konu hans Sesselju Salómonsdóttur (1796-1866) og var þar allt til ársins 1875 og hafði þá tekið við búsforráðum á Hóli þremur árum fyrr. Eftir þetta bjó Sæmundur á Neðri-Bláfeldi í eitt ár og svo í Ytri-Tungu (1876-1882), en fluttist þá til Reykjavíkur.

Í Reykjavík bjó Sæmundur fyrst í Ánanaustum, en byggði bæ við Selslóð árið 1883. Tuttugu árum síðar byggði hann timburhús á lóðinni sem enn stendur, nokkuð breytt. Sagan segir að þegar Sæmundur byggði hús sitt kom Hallgrímur Sveinsson (1841-1909) biskup þar að á kvöldgöngu sinni og spurði Sæmund hvað húsið ætti að heita. "Ætli það verði ekki Sæmundarkot," svaraði húsbyggjandinn af alkunnu lítillæti. "Sæmundarhlíð skal það heita," sagði biskup. Það varð því nafn hússins á meðan afkomendur Sæmundar Sveinssonar áttu heima í húsinu allt til ársins 1990.

Holtsgata 10 og nágrenni

Skjáskot af ja.is sem sýnir Holtsgötu 10 og nágrenni. Rauður hringur er dreginn um Holtsgötu 10 (Sæmundarhlíð).

Selslóð mun vera kennd við jörðina Sel í vesturbæ Reykjavíkur. Seinna var gatan kennd við Bráðræðisholt og nefnd Holtsgata og fékk Sæmundarhlíð húsnúmerið 8 við þá götu. Árið 1927 var fyrsta heildarskipulag fyrir Reykjavík samþykkt af bæjarstjórn. Þá var sá hluti Holtsgötu sem beygði til suðvesturs gerður að sérstakri götu, Vesturvallagötu. Við þá breytingu varð Sæmundarhlíð að Holtsgötu 10 og er svo enn.

Sæmundur kvæntist Guðrúnu Þorsteinsdóttur (1842-1872) 10. september 1870 en missti hana tveimur árum síðar úr barnsfararsótt. Þau áttu saman soninn Kristján (1871-1955). Sæmundur kvæntist öðru sinni 14. október 1877 Guðrúnu Jónsdóttur (1841-1927) og áttu þau börnin Guðrúnu Elísabetu, sem dó fárra daga gömul, og Jón Sveinbjörn (1884-1965), sem varð kunnur fylgdarmaður ferðamanna, m.a. á vegum Geirs Zoëga, og danskra landmælingamanna á ferðum þeirra um Ísland. Harvard-háskóli heiðraði Sveinbjörn fyrir leiðsögu sem hann veitti vísindamönnum er hingað komu á vegum skólans.

Sæmundur Sveinsson lést 14. janúar 1922.

Benedikt Jónsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Drífa Kristín Þrastardóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Húsakönnun. Vesturvallagata - Sólvallagata - Framnesvegur - Holtsgata. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 154. Reykjavík, 2010.
  • Freyja Jónsdóttir. „Húsin í bænum. Holtsgata 10 (Sæmundarhlíð)“. Tíminn 2. ágúst 1996, bls. 6.
  • Gils Guðmundsson. Íslenskir athafnamenn I. Geir Zoëga kaupmaður og útgerðarmaður. Akranesútgáfan 1946.
  • Guðjón Fririksson. „Alfræði Reykjavíkur“.
  • Fróði, 8. árg., 1. tbl. 1887, bls. 8, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2135106. Skoðað 29. des. 2016.
  • Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands.
  • ÞÍ. Einkaskjalasafn Geirs Zoëga.
  • ÞÍ. Staðastaður í Staðarsveit, sóknarmannatal 1860-1875.
  • ÞÍ. Staðastaður í Staðarsveit, sóknarmannatal 1875-1880.
  • ÞÍ. Staðastaður í Staðarsveit, sóknarmannatal 1880-1892.
Nóta Sæmundar Sveinssonar, framhlið
Nóta Sæmundar Sveinssonar, bakhlið