Nær fullnuma seglmakarasveinn skrifar heim undir lok 18. aldar

Apríl 2018

Nær fullnuma seglmakarasveinn skrifar heim undir lok 18. aldar

ÞÍ. Steinklefaskjöl. Varia V, örk 23.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt skjalasafn sem hlotið hefur nafnið Varia. Það er samansafn skjala, oft af ókunnum uppruna sem menn virðast á sínum tíma ekki hafa vitað nákvæmlega hvar skipa ætti niður innan safnsins. Er sem slík skjöl hafi verið sett inn í Steinklefann, sem var skjalageymsla í Safnahúsinu við Hverfisgötu, þar sem þau söfnuðust upp og döguðu svo uppi. Allt er á huldu um upphaf Variunnar en til er vélrituð skrá, Skrá um skjöl í Steinklefa, sem er ekki síður dularfull. Hún er án inngangs, ártals og nokkurra skýringa um tilurð sína eða þess tilbúna skjalaflokks, sem hún lýsir. Skráin hefur þó verið tekin saman skömmu eftir 1975, því að yngsta skjalið í henni er frá því ári. Skjölum í Variunni er raðað í tímaröð í átta öskjur en tímabilið, sem þau spanna, er frá 1280 til 1975. Elstu skjölin í þessum skjalaflokki eru hins vegar ekki frumrit heldur tiltölulega ung afrit.

Hér verður eitt skjal úr þessari skjaladyngju birt og innihald þess gert að umfjöllunarefni. Það er bréf, sem íslenskur lærlingur í seglagerðariðn í Kaupmannahöfn skrifaði heim til móður sinnar á seinni hluta 18. aldar. Bréfið er 20,5 cm á breidd en 28,2 cm á hæð og hefur verið gert við það eftir að það barst safninu. Því miður er það talsvert illa farið og upphaf þess vantar þar sem ávarpskveðjan hefur verið. Það vantar ekkert á neðri hluta blaðsins þannig að það hefur augljóslega verið lengra og hefur seinna blaðið í örkinni, með niðurlagi þess og jafnvel utanáskrift, glatast. Þetta veldur því að nöfn bréfritarans og viðtakandans eru óþekkt en einnig vantar dagsetningu og ártal á bréfið. Í skránni er það hins vegar talið frá ca. 1786. Það er sjálfsagt byggt á því að bréfritari kallar Pál Hjálmarsson væntanlegan skólameistara. Páll var skipaður rektor að Hólum 1. september 1786 en tók ekki við embættinu fyrr en að afloknu guðfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla 5. maí 1789.

Af efni bréfins má ráða að ritarinn á dóttur, sem hann hefur skilið eftir á Íslandi. Hann hefur kynnst danskri stúlku, sem að hans sögn er hvorki falleg né ljót en góð að náttúru. Það vantar línur í bréfið þar sem hann kynnir hana fyrst til sögunnar en hann segist ekkert skorta eftir að hafa kynnst henni. Af þessum orsökum er einnig óljóst hvort þau eru trúlofuð eða þegar gengin í hjónaband. Hann biður móður sína þó um að senda sér fiður í sæng, sem virðist vera ætluð þeim báðum, þ.e.a.s. í hjónasæng þeirra.

Svo óvenju vel vill til að færðar hafa verið inn í skrána upplýsingar um hvaðan skjalið barst Þjóðskjalasafni. Þar segir: „ca. 1786. Bréf frá óþekktum íslenskum seglmakarapilti í Kaupmannahöfn til móður sinnar. Lá með skjölum, sem komu frá Staðarbakkakirkju“. Þegar afhendingarskrár safnsins eru skoðaðar má sjá að séra Eyjólfur Kolbeins, sem þá var staddur í Reykjavík, afhenti Jóni Þorkelssyni landsskjalaverði skjalasafn Staðarbakkakirkju 25. júní 1902. Eyjólfi var veittur Staðarbakki í Miðfirði 22. september 1890 en hann þjónaði jafnframt Melstaðarprestakalli 1906–1907 er prestaköllin voru sameinuð. Skráin, sem er með hendi Jóns, er í 16 liðum og er talsvert þar af tiltölulega fornum skjalabókum, sem hefjast á síðasta aldarfjórðungi 18. aldar. Þar má t.d. nefna bæði prestsþjónustubækur og sálnaregistur, auk kópíubóka sem spanna árin 1733–1786 og 1786–1815 en ekkert bréfasafn hefur fylgt afhendingunni. Það er því spurning hvort umrætt bréf hafi fylgt þessum bókum, eða það sem líklegra er vegna ástands þess, að það sé komið úr bandi einhverra þessara skjalabóka Staðarbakkakirkju.

Af þessu leiðir að athuga þarf þá presta, sem þjónuðu Staðarbakkakirkju á þessum tíma. Þar er einn prestur, sem virðist álitlegri en aðrir til þess að rekja málið áfram. Eiríkur Bjarnason (1766–1843) var sonur Bjarna Eiríkssonar í Djúpadal í Blönduhlíð og konu hans Sigríðar, sem var dóttir séra Jóns Sigfússonar (1691–1776) í Saurbæ í Eyjafirði. Eiríkur útskrifaðist úr Hólaskóla 1785, var 1786–1788 kennari á Víðivöllum í Blönduhlíð hjá Vigfúsi Scheving sýslumanni en vígðist ekki fyrr en 1794. Hann varð þá aðstoðarprestur séra Bjarna Jónssonar að Mælifelli og sótti fast að hann gæfi upp prestakallið við sig. Jörundur hundadagakonungur var á ferð um Skagafjörð sumarið 1809 og þá lofaði hann séra Eiríki prestakallinu. Þegar Mælifellsprestur dó svo skömmu síðar var gengið fram hjá aðstoðarprestinum við veitinguna því stjórninni gramdist hversu auðsveipur hann hafði verið Jörundi. Eiríkur sat því embættislaus til ársins 1826 þegar hann fékk Staðarbakka og þar var hann allt til dauðadags.

Bjarni í Djúpadal og Sigríður kona hans áttu fjögur börn; fyrrnefndan Eirík, séra Hannes á Ríp í Hegranesi, sem orti rímur, m.a. í félagi við Gísla Konráðsson sagnaritara, Jón og Þuríði. En áður en Sigríður giftist Bjarna hafði hún átt tvö börn utan hjónabands, með alþýðumanni að sögn, sem hét Ólafur Jónsson frá Rauðhúsum í Saurbæjarhreppi. Þau hétu Benedikt (f. 25. febrúar 1761) og Salóme (f. 26. október 1762). Ólafur hafði viljað eiga Sigríði en foreldrar hennar voru honum mjög gröm yfir barneigninni og svo, þegar seinna barnið bættist við, þá sagðist prestur aldrei mundi gefa honum dóttur sína. Sigfús, bróðir Sigríðar, kom því svo í kring að Bjarni bað hennar og fékk. Benedikt ólst upp í Djúpadal, var næmur og hagorður en orti gjarnan háð- eða níðvísur. Móðir hans vildi koma honum í skóla og því fór hann að Hjaltastöðum í Blönduhlíð til séra Jóns prófasts Jónssonar í Hofsstaðaþingum sem átti að búa hann undir skóla. Benedikt virðist hafa kippt í kynið því að hann barnaði Sigríði dóttur prestsins. Dóttir þeirra, sem fæddist 16. september 1780, var Evfemía eiginkona Gísla Konráðssonar og móðir Konráðs málfræðings og Fjölnismanns. Prestur reiddist Benedikt mjög og rak hann burt úr náminu. Hálfdan Einarsson skólameistari að Hólum bauðst til þess að taka Benedikt í skólann svo að hann gæti síðar gengið að eiga Sigríði. Prestur vildi ekki heyra á það minnst og á að hafa sagt „Ekkert annað en stúlkuna jafngóða!“ Reiðin sefaðist þó er frá leið og hann virtist ætla að gangast inn á áætlun Hálfdanar en þá hafði Benedikt misst hvort tveggja áhugann á náminu og stúlkunni og á í ofanálag að hafa kveðið háðvísur um prest.

Það var því brugðið á það ráð að senda Benedikt utan. Áður en hann sigldi sá hann dóttur sína misserisgamla í vöggu og gaf henni krónu en það voru víst einu afskipti hans af henni. Hann fór út til Kaupmannahafnar og í eina för til Indlands en gerðist síðar gestgjafi í Kaupmannahöfn. Hér vantar þó inn í frásögn Gísla Konráðssonar því að Benedikt fór í seglmakaranám og það er hann, sem skrifar Sigríði móður sinni umrætt bréf. Það ætti því að tilheyra einkaskjalasafni hennar en hefur komist í fórur séra Eiríks, sonar hennar, og endað svo í bandi skjalabókar Staðarbakkakirkju sem hann þjónaði. Hvað aldur bréfsins varðar þá er ekki vitað hvenær Benedikt lauk námi en hann er fyrir víst sagður seglagerðarsveinn 30. júní 1791 og er þá útskrifaður. Það er því spurning hvort ekki eigi að skilja orð Benedikts þannig að móðir hans skuli senda bréf hans til Páls rektors á Hólum og hann eigi að koma þeim í skip til Kaupmannahafnar, þ.e. að Páll sé á heimleið þegar bréfið er skrifað, væntanlega um vorið 1789. Ef það er rétt þá hefur Benedikt útskrifast vorið 1790 og því hafið seglmakaranám árið 1785. Hvað hann hefur haft fyrir stafni frá árinu 1781, er hann á að hafa farið utan og þangað til hann hóf iðnnám liggur ekki fyrir. Hann hefur e.t.v. á þessu tímabili siglt til Indlands en túrinn þangað tók tæp tvö ár að meðaltali.

Í manntalinu 1787, sem tekið var 1. júlí, er Benedikt færður til bókar sem Benedikt Holm, 20 ára, ókvæntur seglagerðardrengur. Hann býr þá á heimili Thomas Andr. Bang seglagerðarmeistara við Ny Børs 88 ásamt fjölskyldu hans og þremur öðrum seglagerðardrengjum og einum útskrifuðum seglagerðarsveini. Talsvert munar á uppgefnum og raunverulegum aldri Benedikts hér og má vera að hann hafi aðeins þurft að hagræða sannleikanum til þess að komast að í seglmakaralæri, þ.e. að segjast vera yngri en hann í raun var. Stúlkan, sem Benedikt segist í bréfinu til móður sinnar hafa kynnst, hét Kirsten Jørgensdatter Meyer. Hún er í manntalinu 1787 sögð 24 ára gömul (f. 1763) þjónustustúlka til heimilis hjá David Hundewadt og fjölskyldu hans við Ny Børs 82. Það voru því aðeins fáein hús milli þeirra en umrædd húsalengja, sem stóð við hlið kauphallarinnar, var rifin árið 1900. Þann 9. júlí 1790 trúlofa þau Benedikt Olavsen og Kirsten sig og síðar í sama mánuði, eða 30. júlí, ganga þau í hjónaband. Í manntalinu 1801, sem tekið var 1. febrúar, er Benedikt sagður 42 ára seglagerðarsveinn og kona hans Kirstine Jørgensdatter 40 ára gömul. Þau búa í Pistolstræde, nú nr. 3, í Kaupmakarahverfinu ásamt fjórum börnum sínum; Mathias 10 ára (f. 1791), Johan Henrich 5 ára (f. 1796), Kirstine Dorothea 7 ára (f. 1794) og Anne Maria 2 ára (f. 1799). Johanne Sophie fæddist 1804 og dó þriggja mánaða gömul.

Hvað nafnið Holm varðar þá má geta þess að við trúlofun Benedikts var svaramaður hans Sivert Holm kaupmaður í St. Anne gade 147 á Kristjánshöfn. Í manntalinu 1787 er hann sagður 48 ára (f. 1739) skipasmiður og kvæntur Tone sem er 10 árum eldri en hann. Sivert þessi hét réttu nafni Sigurður Þorleifsson og var sonur Þorleifs Ormssonar og Þuríðar Gísladóttur á Svínhóli í Miðdölum. Hann fór utan, lærði skipasmíði og starfaði við hana framan af. Sigurður leigði Íslendingum herbergi í húsi sínu eins og fram kemur í bréfum Ragnheiðar Böðvarsdóttur, vorið 1789, til yfirvalda en hún hafði farið utan til þess að læra vefnað og spuna. Árið 1789 mun hann hins vegar hafa verið farinn að stunda kaupmennsku. Johann Hansen Tofte skipstjóri kom á fót verslun í Reykjavík ásamt Sigurði og Þorkeli Guðmundssyni Bergmann. Þeir áttu meðalstórt skip og keyptu eitt af húsum Innréttinganna árið 1791. Leiðir þeirra og Tofte skildu fljótlega en Sigurður hélt áfram samstarfi sínu við Þorkel fram að aldamótum. Í bréfi Sigurðar til rentukammers, frá 17. ágúst 1796, kemur fram að hann átti skip í förum (Jomfrue Christiana) sem hann bauð stjórninni til póstsiglinga. Sigurður er sagður hafi verið auðugur borgari í Kaupmannahöfn. Hann virðist enn vera á lífi 28. október 1803 en þá er hann nefndur á nafn í bréfi til rentukammers. Ekki hefur tekist að finna neinn skyldleika milli Benedikts og Sigurðar. Hann hefur þó væntanlega verið Benedikt innan handar við komuna til Kaupmannahafnar, útvegað honum húsnæði fyrst um sinn og jafnvel hjálpað honum að komast í seglmakaralæri og Holm-nafnið þannig festst við hann.

Þegar fyrsta barn Kirstenar og Benedikts fæddist, 30. júní 1791, er hann færður til bókar sem Benedikt Olsen Holm. Við fæðingu barna sinna 1796 og 1804 var hann titlaður sem arbejdsmand eða verkamaður. Óvíst er hvenær Benedikt dó en þegar Kirsten dó 21. júlí 1830 þá var hún sögð ekkja eftir Holm gestgjafa í Stormgade. Við skiptin eftir hana, sem fram fóru mánuði síðar, var hún sögð ekkja Holm kráareiganda. Benedikt hefur því farið frá því að vera verkamaður yfir í að vera kráareigandi. Gísli Konráðsson getur þess að Benedikt hafi skrifað séra Eiríki Bjarnasyni, hálfbróður sínum, og heimtað arf eftir að móðir þeirra lést. Það kann að skýra þessar breytingar á högum hans.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfsins.

Heimildir

  • ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands. Afhendingarskrár, prestar og prófastar, Húnavatnsprófastsdæmi-Norður-Þingeyjarprófastsdæmi. Örk: Húnavatnsprófastsdæmi. Örk: Melstaður, Staðarbakki.
  • ÞÍ. Skjalasafn rentukammers. B14/2, örk 8. Bréf Sigurðar Holm frá 17. ágúst 1796.
  • ÞÍ. Skjalasafn rentukammers. B14/28, örk 34. Bréf Rasmus Frydensberg landfógeta frá 28. október 1803.
  • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir III. Með skýringum og viðaukum eftir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1905–1908, bls. 273.
  • Dalamenn. Æviskrár 1703–1961 I. Tekið hefir saman Jón Guðnason. Reykjavík 1961, bls. 216.
  • Gøbel, Erik, „Asiatisk Kompagnis sejlads på Indien 1732–1772.“, Handels- og Søfartsmuseet paa Kronborg. Årbog 46 (1987), bls. 22–86, sbr. bls. 55.
  • Hólmgeir Þorsteinsson, „Rauðhúsa-Ólafur“ Tíminn. Sunnudagsblað. IV. árg., 21. tbl. (6. júní 1965), bls. 484–488, sbr. bls. 485–487.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948, bls. 399–400, 461.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949, bls. 304–305.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 183–184, 254.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 120.
  • Lýður Björnsson, „Eyfirskur iðnnemi í Danmörku á 18. öld.“ Gefið og þegið. Afmælisrit til heiðurs Brodda Jóhannessyni sjötugum. Reykjavík 1987, bls. 290–297.
  • Lýður Björnsson, „Við vefstól og rokk.“, Saga 35 (1997), bls. 179–221, sbr. bls. 207.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess og yfirlit um heimildasöfn þar. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 1. Reykjavík 1982, bls. 90–91.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Verzlunarsaga Íslands 1774–1807. Upphaf fríhöndlunar og almenna bænarskráin II. Reykjavík 1988, bls. 487.
  • Skrá um skjöl í steinklefa. Vélrituð skrá á lestrarsal Þjóðskjalasafns. Án ártals.
  • „Æfiágrip Gísla sagnfræðings Konráðssonar.“ Að mestu eftir Gísla sjálfan. Stytt og aukið af Sighvati Gr. Borgfirðingi. Tímarit hins íslenzka bókmentafjelags 18 (1897), bls. 30–58, sbr. bls. 35–36.
  • Æfisaga Gísla Konráðssonar ens fróða. Skrásett af sjálfum honum. Sögurit VIII. Reykjavík 1911–1914, bls. 17–20, bein tilvitnun af bls. 18.
  • Vef. http://dthlandskab.dk/BenOlaf/. Sótt 12. mars 2018.
  • Vef. http://ddd.dda.dk. Manntalsvefur danska ríkisskjalsafnsins.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að hlaða niður uppskrift af bréfi Benedikts Ólafssonar Holm.

 

Hluti úr bréfi Benedikts Ólafssonar Holm til Sigríðar móður sinnar
Hluti úr bréfi Benedikts Ólafssonar Holm til Sigríðar móður sinnar
Nye Børs eftir korti af Kaupmannahöfn frá árinu 1757