Móðir skrifar syni sínum járnsmíðasveini í Kaupmannahöfn 1744

Október 2017

Móðir skrifar syni sínum járnsmíðasveini í Kaupmannahöfn 1744

ÞÍ. Einkaskjalasöfn. E.288, örk 7.

Þann 1. ágúst 1744 skrifaði Margrét Erasmusdóttir, á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi á Ströndum, Benedikt Magnússyni (1711–1763) syni sínum í Kaupmannahöfn. Hún þakkar fyrir bréf frá árinu 1740 með sálugum kaupmanni Zahn. Þar á hún við Hans Mauritzen Zahn kaupmann í Reykjarfirði og Skagaströnd en þessar Húnaflóahafnir voru gjarnan leigðar saman. Margrét væntir komu Benedikts að ári en segist hírast ásamt dætrum sínum á koti þeirra Bassastöðum við bágindi og efnaleysi. Hún segir að kotið hafi verið í grunn komið og niður fallið og allt, sem þær voru vanþurfta um, hafi þær orðið að kaupa fyrir peninga. Þá segist hún hafa tekið fimm ríkisdala lán til þess að festa kaup á báti svo að hægt væri að róa til fiskjar á Steingrímsfirði en hingað til hafi hún mátt sjá menn hafa nóg af fiski úti á firðinum án þess að hafa nokkurt gagn af því sjálf. Því hafi hún ráðið tvo pilta um tvítugt til þess að róa og telur að það eigi að geta gengið undir umsjón dætra sinna.

Margrét sendir með bréfinu hárkollu og biður son sinn um að koma henni til Björns Jónssonar. Óvíst er hver það var en hann hefur þá dvalið í Kaupmannahöfn en ekki við háskólanám. Þá segir hún af mannslátum og brauðaskiptum presta. Hún getur þess að annar Björn Jónsson, sem verið hafði í Brokey í Hvammsfirði, hafi dáið í fyrra. Foreldrar hans voru Jón Jörundsson (1630–d.f. 1703) og Herdís Björnsdóttir. Skilgetinn bróðir Herdísar, Magnús Björnsson, var afi Benedikts. Arfurinn hafi hinsvegar komið í hlut séra Hannesar Sigurðssonar (1708–1752) á Þingeyraklaustri sem var systursonur Björns. Við skiptin hafi enginn minnst á Benedikt sem var svo langt í burtu. Margrét segir þó að hann eigi að fá arfinn þar sem hann sé skyldur Birni í karllegg. Þá sé arfurinn vel þess virði að bera sig eftir honum því í dánarbúinu séu 24 hundruð í jörðinni Hólmlátri í Skógarstrandarhreppi á Snæfellsnesi og annað eins í peningum og lausafé. Því hvetur hún hann til þess að koma til Íslands og gera tilkall til arfsins. Loks biður hún Benedikt um að kaupa fyrir sig blátt steinkorn hafi hann tök á því. Þar á hún við blástein, þ.e. indíalit eða indígó til fatalitunar.

Með þessu bréfi, sem er að finna meðal einkaskjala í Þjóðskjalasafni (E. 288, örk 7), liggja þrír vitnisburðir, tveir, dagsettir 11. og 13. nóvember 1744, um að Benedikt hafi unnið í hálft ár hjá tveimur járnsmiðum á Kristjánshöfn, þeim Daniel Bocksen kleinsmed og Jochum Lund akkerasmið. En með kleinsmed, sem íslenskað hefur verið sem klénsmiður, er átt við járnsmið sem smíðar fínni hluti en þeir, sem smíðuðu stærri hluti, voru kallaðir grófsmiðir. Þessi starfsheiti eru beinar þýðingar úr dönsku en slík sérhæfing hefur ekki tíðkast á Íslandi og því aðeins talað um járnsmiði. Þá er þar einnig að finna vitnisburð G. Terchelsen prests við Nikulásarkirkju í Kaupmannahöfn, dagsettan 21. nóvember 1744, þess efnis að Benedikt hafi sótt kirkju þar undanfarið ár og hagað sér á kristilegan hátt.

Margrét var dóttir Erasmusar Arngrímssonar og Halldóru Bjarnadóttur. Þau bjuggu á Þverfelli í Lundarreykjadal í Borgarfjarðarsýslu. Þegar manntal var tekið árið 1703 bjó Erasmus þar enn, 78 ára að aldri (f. um 1625), ásamt tveimur dætrum sínum. Margrét var þá, 26 ára (f. um 1677), vinnukona að Árnesi í Trékyllisvík á Ströndum hjá séra Guðmundi Bjarnasyni og konu hans Guðrúnu Arngrímsdóttur en þau voru móðurbróðir og föðursystir hennar. Margrét var tvígift en fyrri maður hennar var Jón Jónsson á Kambi í Víkursveit á Ströndum. Magnús, faðir Benedikts, var 17 ára þegar manntalið var tekið árið 1703 (f. um 1686) og þá til heimilis á Bassastöðum hjá foreldrum sínum, Magnúsi Björnssyni og Guðrúnu Jónsdóttur, auk tvítugrar systur sinnar Þórunnar. Magnús, afi Benedikts, var sonur Björns Jónssonar og konu hans Ingunnar Benediktsdóttur sem bjuggu síðast í Kalmanstungu í Hvítársíðu í Borgarfirði. Hann var fæddur um 1638 og enn á lífi 20.–25. september 1706 þegar jarðabók var tekin í Kaldrananeshreppi. Magnús var lögréttumaður úr Þorskafjarðarþingi 1696–1704 og lögsagnari að sögn Árna Magnússonar handritasafnara. Hann keypti Bassastaði, 12 hundruð að dýrleika, 17. júlí 1680 af Þórði Hannessyni og gaf í staðinn Valdasteinsstaði í Hrútafirði.

Nokkur handrit í safni Árna Magnússonar eru komnin úr fórum Magnúsar. Í fyrsta lagi AM 610a 4to og AM 615a 4to sem innihalda Egils rímur Skallagrímssonar eftir Jón Guðmundsson í Rauðseyjum og Rímur af Sigurði fót en þessu handriti, sem Árni hefur vafalaust skipt upp, fylgdi einnig rímnaflokkurinn Geiplur. Egils rímur munu skrifaðar af Þórði Jónssyni á Strandseljum. Árni fékk handritið frá Gísla Jónssyni í Mávahlíð árið 1709 sem hafði fengið það frá Magnúsi í maí 1705. Loks er það AM 63 8vo sem er skjalabók Ólafs Jónssonar í Núpufelli í Eyjafirði, skrifuð fyrir og um 1632. Svo virðist eiga að skilja að Árni hafi fengið hana úr arfi eftir Magnús son Magnúsar Björnssonar lögréttumanns á Bassastöðum en því hlýtur að vera öfugt farið.

Óljóst er hvort Magnús hafi tekið við búskapnum á Bassastöðum eftir föður sinn og sömuleiðis hvenær þau Margrét giftust sem hefur þó líkast til verið fyrir 1711 er Benedikt fæddist. Magnús var leiguliði í Dalasýslu, fyrst í Saurbæ á Fremri-Brekku 1729, svo líkast til í Fjósakoti en árin 1733–1736 á Heinabergi á Skarðsströnd. Talið er að Magnús og Margrét hafi skilið en það er ekki víst. Af ofangreindu bréfi Margrétar virðist mega ráða að hún hafi tiltölulega nýlega flutt ásamt dætrum sínum á Bassastaði, föðurleifð Magnúsar, sem þá virðast hafa verið í eyði, a.m.k. þurfti að endurnýja allan húsakost frá grunni. Ætla má að þá hafi Magnús verið látinn enda ætti hann að standa nær arfinum en sonur hans.

Hvað Benedikt varðar þá vitum við að hann lauk námi sínu og varð sveinn fyrir langaföstu sem hófst á öskudag 2. mars 1740 og lauk með páskum en þriðji páskadagur var 19. apríl 1740. Þessar upplýsingar koma fram í almanaki Jóns Ólafssonar úr Grunnavík þar sem hann hefur fært inn ýmsar minnisgreinar. Hann segist hafa lánað Benedikt 4 rd. 11. janúar 1740 „[...] sem betalast ä innan fóstu. Hann ätte þann dag ad verda Sveinn i sinu handverke.“ Jón hafði einnig lánað Benedikt heila krónu sem jafngilti 4 mk. og 4 sk. nokkrum dögum áður. Benedikt borgaði honum til baka 2 mk. þann 6. mars, 3. apríl borgaði hann 3 mk. auk lykils sem hann hafði smíðað og 29. maí borgaði Benedikt svo 1 mk. og 4 sk. Þegar Jón tekur saman hvað hann hafði lánað mönnum af peningum frá nýári til 24. júlí 1740 þá kemur fram að enn skuldi Benedikt 3 rd., 4 mk. og 4 sk. Upp í þá upphæð hafði hann hins vegar smíðað þrjá lykla. Einn til bókasafnsins, annan til Sívalaturns og þann þriðja til bókaskápanna. Þar að auki hafði hann smíðað tvo tálguhnífa og segir Jón þetta bíða uppgjörs í reikningum þeirra.

Nám í klénsmíði tók ekki skemur en þrjú ár þannig að e.t.v. hefur Benedikt komið til Kaupmannahafnar með haustskipum 1737. Það að móðir hans hafði ekki heyrt frá honum síðan 1740, en þá hefur hún væntanlega fengið bréf með vorskipum, kann að skýrast af því að þegar lærlingur (handverksdrengur) var orðinn sveinn skyldi hann leggja land undir fót og ferðast um til þess að læra meira í iðn sinni. Þetta var kallað „að valsa“ og ferðuðust menn þá um Danmörku eða Evrópu, oftast þó Þýskaland, í nokkur ár. Þó er einnig annar möguleiki í stöðunni en í fréttaskrifum Grunnavíkur-Jóns til Íslands árið 1761 segir m.a. af Íslandsför Benedikts og fjölskyldu. Þar segir að hann sé járnsmiður og hafi verið í Austurindíum, þ.e. í nýlendum Dana á Indlandi. Ekki fylgir þó sögunni hvenær hann hafi verið þar austur frá. Hvort tveggja kann að vera það sem móðir hans á við í bréfinu þegar hún segir að hann hafi verið „í fjarska“ þegar skiptin á arfinum fóru fram.

Óljóst er hvort Benedikt hafi komið heim árið 1745 eins og móðir hans vænti. Enda virðist umrætt arfstilkall reist á veikum grunni. Björn í Brokey var móðurbróðir séra Hannesar og fellur sá skyldleiki undir 5. erfð í erfðatali Jónsbókar. Björn var hins vegar sonur afasystur Benedikts, sem er skyldleiki að öðrum og þriðja, og var hann því fjarskyldari þrátt fyrir karllegginn. Benedikt virðist enda ekkert hafa borið sig eftir arfinum því að séra Hannes seldi Þorsteini Ásvaldssyni þessi 24 hundruð í Hólmlátri með bréfi gerðu 19. september 1747 og fékk 155 ríkisdali fyrir.

Samkvæmt prestsþjónustubók Kirkju lausnara vors á Kristjánshöfn (Vor frelsers kirke) þá trúlofaðist Benedikt Margarethe Jensdatter 27. september 1747. Giftingarmenn voru fyrir hönd brúðgumans Jochum Lund, sem Benedikt hafði unnið hjá í nokkra mánuði síðla árs 1744, en fyrir hönd brúðarinnar Hans Thomesen klénsmiður. Þau gengu svo í hjónaband 19. janúar 1748. Frumburðurinn, Birthe Maria, var skírður 15. nóvember sama ár en andaðist á öðru ári og var jarðaður 19. júlí 1749. Seinni dóttir þeirra var svo skírð Anna Margarethe þann 15. júlí 1750. Hún flutti með foreldrum sínum til Íslands en var jörðuð 27. júní 1768 í Bessastaðasókn. Í prestsþjónustubók er hún sögð 19 ára og frá Nesi á Seltjarnarnesi en hún var grafin í sama kirkjugarði og faðir hennar.

Í bréfi, sem Benedikt skrifaði stiftamtmanni, 13. mars 1761, frá Kaupmannaöfn, kemur fram að hann „[…] Haver i Nogen Aar staaet ved Fabriqvernes og byggningerne i Landet saa vidt Kleinsmeds arbeyde Haver været angaaende.“ Hann vann því í nokkur ár við Innréttingarnar í Reykjavík sem voru starfræktar á árunum 1751–1779. Til er reikningur, frá 25. nóvember 1754, vegna járnsmíðavinnu Benedikts við Viðeyjarstofu sem reist var á árunum 1752–1754. Þar sem hann, að eigin sögn, vann við Innréttingarnar í nokkur ár má ætla að hann hafi unnið við smíði Viðeyjarstofu en haldið svo á brott við fyrstu hentugleika. Óvíst er hvort fjölskyldan hafi fylgt honum til Íslands eða haldið kyrru fyrir í Kristjánshöfn á meðan.

Næst fáum við fregnir af Benedikt síðla árs 1759 í ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk. Hann var Árna innan handar þegar hann réði sig í siglingar hjá Austurlenska verslunarfélaginu (Asiatisk kompagni) og gerðist ábyrgðarmaður fyrir þeim 20 rd. sem Árni fékk til þess að útbúa sig til fararinnar. Margarethe, kona Benedikts, aðstoðaði svo Árna við innkaupin og hann bjó hjá þeim í húsi þeirra á Kristjánshöfn þar til Kínafarið lét úr höfn.

Bjarni Pálsson lauk prófi í lækningum við Kaupmannahafnarháskóla haustið 1759. Áður en hann fór heim sem nýskipaður landlæknir náði hann að sannfæra Margarethe um að fara í yfirsetukvennanám með það fyrir augum að gerast yfirsetukona á Íslandi og taka íslenskar konur í læri. Þann 13. maí 1761 tók hún próf og í bréfi Grunnavíkur-Jóns til Gísla Magnússonar biskups, frá 25. maí 1761, segir hann að Benedikt sé nú kominn af stað með Hólmsskipinu, sem sigldi á Hólmskaupstað í Reykjavík. Hann ætli að verða smiður á „Handverka Stadnum“ þar syðra eins og fyrri, þ.e. við Innréttingarnar. Kona hans sé útskrifuð yfirsetukona (obstetrix generalis) og eigi að verða lærimeistarainna allra yfirsetukvenna, hversu vel sem gömlu konunum muni líka það. Nokkrum mánuðum síðar, eða 30. júlí 1761, sór hún yfirsetukvennaeið á Íslandi og varð við það fyrsta lærða yfirsetukonan á landinu. Benedikt og fjölskylda bjuggu á Bessastöðum meðan Nesstofa var í byggingu árin 1761–1763.

Í fyrrnefndu bréfi, frá 13. mars 1761, segir Benedikt að eiginkona sín hafi skuldbundið sig til þess að gerast yfirsetukona á Íslandi og því neyðist hann til að fylgja með. Hann óskar því eftir starfi við byggingu Bessastaðastofu sem var í smíðum á árunum 1761–1766. Í bréfi til Otto von Rantzau stiftamtmanns, 5. apríl 1761, segir Benedikt að kona sín, tilvonandi yfirsetukona á Íslandi, búist við 100 rd. í árslaun, ókeypis flutningi til Íslands og húsnæðis auk þess að vera laus undan sköttum og álögum. Hann segir að í krafti loforðs Bjarna landlæknis hafi þau selt hús sitt á Kristjánshöfn og hluta af húsgögnum með miklu tapi. Bréf með sama innihaldi sendi hann konungi, 13. maí 1761, eftir að stiftamtmaður hafði upplýst hann um að launakröfurnar væru of háar og bað þess í stað um 200 rd. fyrirframgreiðslu sem yrði tekin af 60 rd. árslaunum konu sinnar. Bjarni var í vandræðum með að efna loforð sitt um launagreiðslur til Margarethe en það hafðist í gegn með konunglegri tilskipun 10. maí 1762.

Í bréfi Bjarna til stiftamtmanns, frá 13. október 1761, kemur fram að Benedikt sé orðinn veikur. Hann hafi til að byrja með aðstoðað konu sína við yfirsetukvennastörf enda kunni hún enga íslensku. Bjarni segir í bréfi, 12. október 1761, til læriföður síns við Hafnarháskóla, Balthazar Johan de Buchwald, að Benedikt hafi lært mikið við að aðstoða konu sína við fæðingarhjálp og gæti e.t.v. orðið fæðingarlæknir. Benedikt hefur því þótt liðtækur aðstoðarmaður og getað gert meira en einungis túlka fyrir konu sína. Hans naut þó ekki lengi við eftir þetta, veikindin ágerðust og hann dó snemma árs 1763, 52 ára að aldri og var jarðsettur 13. janúar 1763 á Bessastöðum. Þar stóð smiðja Benedikts sem Bjarni landlæknir segir að hann hafi gefið sér er hann ræðir flutning hennar í smiðjuhús við Nesstofu í bréfi til Magnúsar Gíslasonar amtmanns 1. mars 1763.

Margarethe flutti í Nesstofu ásamt Önnu dóttur sinni sem lést svo sumarið 1768. Margarethe lifði bæði mann sinn, börn sín og Bjarna landlækni og tók á móti fjölda barna í Garða-, Bessastaða-, Reykjavíkur-, Nes- og Laugarnessóknum. Hún dó 19. júní 1805 af elliburðum og brjóstveiki og var jarðsett að Nesi fjórum dögum síðar. Í prestsþjónustubók er hún sögð vera 86 ára gömul og því fædd um 1719. Þar færir svo sóknarprestur hennar eftirfarandi orð til bókar: „[...] – göd og gudhrædd kona, hafdi dvalid her í landi yfir 40 ár – og staded vel í kalli sínu.“

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfs og vitnisburðar.

Heimildir

 • ÞÍ. Garðar á Álftanesi/Hafnarfjörður BA/1. Prestþjónustubók 1747–1782, bls. 67, 99.
 • ÞÍ. Seltjarnarnesþing/Dómkirkjan í Reykjavík BA/5. Prestþjónustubók 1797–1816, bls. 202.
 • ÞÍ. Rentukammer B27/12, örk 11.
 • ÞÍ. Rentukammer B2/11, örk 23.
 • ÞÍ. Stiftamtmaður III, nr. 195, örk 44.
 • ÞÍ. Amtmaður II, nr. 41A. Örk: Bréf landlæknis til amtmanns 1763.
 • ÞÍ. Landfógeti VI A og B, 16. Jarðabókarsjóðsreikningur 1754 ásamt fylgiskjölum.
 • SA. København, Vor frelsers sogn. Enesteministerialbog 1747 FVD–1760 FVD, bls. 5, 52, 109, 124, 198. (Myndir má nálgast á vefsíðu Statens arkiver, þ.e. Ríkisskjalasafni Dana.)
 • AM 273 8vo. Almanak Jóns Ólafssonar úr Grunnavík með minnis- og reikningsfærslum 1739–1743, bl. 42r, 45v, 46r, 48r, 49r, 50v, 55r.
 • AM 994 4to I. Fréttir Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá Danmörku til Íslands 1752–1778, bl. 93v, sömu upplýsingar koma fram á bl. 92v.
 • AM 996 4to II. Útdrættir og uppköst Jóns Ólafssonar úr Grunnavík að sendibréfum til Íslands 1728–1742, 1755–1778, bl. 266r.
 • Alþingisbækur Íslands X og XIII. Reykjavík 1967 og 1973, X, bls. 546; XIII, bls. 283, 405.
 • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir II. Með skýringum og viðaukum eptir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1889–1904, bls. 646.
 • Borgfirzkar æviskrár I–II. Safnað hafa og skráð: Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason, Guðmundur Illugason. Akranes 1969–1971, I, bls. 428; II, bls. 244.
 • Dalamenn. Æviskrár 1703–1961 II. Tekið hefir saman Jón Guðnason. Reykjavík 1961, bls. 340.
 • Degn, Ole og Dübeck, Inger, Håndværkets kulturhistorie II. Håndværket i fremgang. Perioden 1550–1700. København 1983, bls. 70, 73.
 • Diplomatarium Islandicum XIV. Reykjavík 1944–1949, bls. 152 neðanmáls.
 • Einar Bjarnason, Lögréttumannatal. Sögurit XXVI. Reykjavík 1952–1955, bls. 362.
 • Erla Dóris Halldórsdóttir, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760–1880. Reykjavík 2016, bls. 124–128.
 • Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753–1797. Samin af honum sjálfum. Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar. Reykjavík 1945, bls. 73, 189–191.
 • „Ferðasaga Ásgeirs snikkara Sigurðssonar frá 17. öld“, Blanda V (1932–1935), bls. 2.
 • „Fyrsta ljósmóðir Íslands“, Fréttabréf um heilbrigðismál 17:3 (1969), bls. 11–12.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I–II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948–1949, I, bls. 224; II, bls. 129, 316–317.
 • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns V, VII og XIII. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1931–1933, 1940 og 1990, V, bls. 360–361, VII, bls. 352, 379–381; XIII, bls. 319.
 • Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn 1993, bls. 187.
 • Jón J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787. Reykjavík 1919, bls. 287.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík 2004, bls. 130.
 • Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling II. København 1894, bls. 14, 24, 368–369.
 • Ljósmæður á Íslandi I. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Reykjavík 1984, bls. 449–450.
 • Lýður Björnsson, Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til iðnsögu Íslendinga XI. Ritstjóri Ásgeir Ásgeirsson. Reykjavík 1998, bls. 80–81.
 • Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 59, 235–236.
 • „Nýar Uppgøtvanir og Uppáfinníngar“, Klaustur-pósturinn 7:6 (1824), bls. 92.
 • Strandamenn. Æviskrár 1703–1953. Tekið hefir saman Jón Guðnason. Reykjavík 1955, bls. 356–357, 448.
 • Stefán Karlsson, „Gömul hljóðdvöl í ungum rímum“, Íslenzk tunga 5 (1964), bls. 7.
 • Sveinn Pálsson, Æfisaga Bjarna Pálssonar. Akureyri 1944, bls. 56.
 • Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I. Texti. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Reykjavík 2008, bls. 288, 318.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að hlaða niður uppskrift af bréfi Margrétar og sveinsbréfi Benedikts Magnússonar.

Bréf Margrétar Erasmusdóttur til sonar síns, Benedikts Magnússonar.
Bréf Margrétar Erasmusdóttur til sonar síns, Benedikts Magnússonar.
Utanáskrift á bréf Margrétar til Benedikts.
Vitnisburður tvegjja járnsmiða og prests Sankti Nikuláskirkju um Benedikt Magnússon.