Mannsþrekkur og önnur meðöl gegn fjárkláðanum fyrri

Apríl 2014

Mannsþrekkur og önnur meðöl gegn fjárkláðanum fyrri

Fullvíst er talið að fjárkláðinn fyrri hafi borist hingað til lands með sjö enskum kynbótahrútum sem Hastfer barón flutti inn sumarið 1761 á fjárbúið við Elliðavatn. Fjárpestin, en svo var kláðinn gjarnan nefndur, breiddist mjög hratt út næstu árin. Um 1769 var svo komið að pestin hafði breiðst út um allt Suðurland, allt austur að Jökulsá á Sólheimasandi, um allt Vesturland og vestanvert Norðurland, allt norður í Eyjafjörð en Vestfirðir og Austurland sluppu hins vegar alveg við pestina.

Landsnefndinni fyrri, sem var hér á landi á vegum konungs frá 1770 – 1771, var m.a. falið að kanna hvernig hægt væri að útrýma fjárpestinni. Tvær leiðir komu helst til greina, lækning með meðalagjöf eða niðurskurður alls fjárs á sýktum svæðum. Engin lækning við pestinni var þekkt þá en Landsnefndarmenn brugðu á það ráð að spyrja landlækni, Bjarna Pálsson, hvaða meðöl hann teldi að gætu helst komið að notum.

Af því tilefni ritaði Bjarni ýtarlegt bréf til nefndarinnar, dags. 14. mars 1771, þar sem hann lýsir ágætlega nokkrum gerðum lyfja sem hann taldi vænlegast að reyna. Kennir þar ýmissa grasa sem ekki myndi allt teljast til lyfja í dag, s.s. sterkt hland, gömul forarleðja og „nýr mannsþrekkur,“ þ.e. nýr mannaskítur. Bjarni tekur jafnframt fram að enginn ætti að þurfa að kippa sér upp við notkun síns eigin skíts á þennan hátt, því að „langt betur siðaðar og lærðari þjóðir“ en Íslendingar hafi gert slíkt. Bjarni nefnir einnig margs konar önnur smyrsl, s.s. brennistein, tjöru og kvikasilfur, ýmist blandað í lýsi eða gömlu, súru smjöri. Auk þessa telur hann að reyna mætti blóðtöku á fénu.

Líklega hefur ekki mikið reynt á þessar lyfjameðferðir Bjarna því mönnum var þá þegar orðið ljóst að niðurskurður væri öruggasta leiðin til að útrýma kláðanum og var hafist handa við niðurskurð og fjárskipti haustið 1771 sama ár og Bjarni ritaði bréfið.

Bréfið skrifaði Bjarni á íslensku og hefur því væntanlega upphaflega ætlað Íslendingum það til leiðbeininga gegn kláðanum. Eyjólfur Jónsson ritari Landsnefndarinnar fyrri sneri því síðan yfir á dönsku fyrir nefndina. Bæði eintök bréfsins eru nú varðveitt í bréfasafni Rentukammers.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift bréfanna.

Heimildir

  • ÞÍ. Skjalasafn Rentukammers. D3/1 örk 3. (Bréfabók Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771. Lit. B. N° 27. Bréf til Bjarna Pálssonar landlæknis 07.12.1770).
  • Jónas Jónsson, Landbúnaðarsaga Íslands. 3. bindi. Hefðbundin kvikfjárrækt. Rvk 2013, bls. 25-29.
  • Lovsamling for Island. 3. bindi. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson sáu um útgáfu, Khöfn 1854, bls. 671. (Instruction for den islandske Landcommission, 22. Mai 1770).
  • Lýður Björnsson, „18. öldin.“ Saga Íslands VIII. Ritstj. Sigurður Líndal, Rvk 2006, bls. 152-153.

 

Sækja uppskrift af bréfunum (2014-04_medol-gegn-fjarpestinni.pdf, 81 KB):

Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri dagsett 14. mars 1771, síða 1
Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri dagsett 14. mars 1771, síða 2
Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri dagsett 14. mars 1771, síða 3
Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri dagsett 14. mars 1771, síða 4
Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri dagsett 14. mars 1771, síða 5
Dönsk þýðing Eyjólfs Jónssonar á bréfi Bjarna Pálssonar landlæknis, síða 1
Dönsk þýðing Eyjólfs Jónssonar á bréfi Bjarna Pálssonar landlæknis, síða 2
Dönsk þýðing Eyjólfs Jónssonar á bréfi Bjarna Pálssonar landlæknis, síða 3
Dönsk þýðing Eyjólfs Jónssonar á bréfi Bjarna Pálssonar landlæknis, síða 4