„Mannhundur kvelur líf úr barni með hor og pyndingum“

Ágúst 2018

„Mannhundur kvelur líf úr barni með hor og pyndingum“

ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. B/24-10. Dómsskjöl 1903; GA/2-3. Dóma- og þingbók 1897–1906.

Hinn 26. mars 1903 lést Páll Júlíus Pálsson, 10 ára gamall sveitarómagi á bænum Skaftárdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Andlát hans bar að nokkuð skyndilega og án nokkurra undangenginna veikinda svo vitað væri. Þar sem orðrómur var á kreiki um að húsbændur drengsins, þau Oddur Stígsson bóndi á nefndum bæ og Margrét Eyjólfsdóttir kona hans, hefðu farið illa með drenginn sá sýslumaður, Guðlaugur Guðmundsson á Kirkjubæjarklaustri, sig knúinn til þess að kanna málið frekar. Hann fyrirskipaði skoðun á líki drengsins og kallaði til þess héraðslæknanna Bjarna Jensson á Breiðabólsstað á Síðu og Þorgrím Þórðarson á Hornafirði sem þá var einnig staddur á Breiðabólsstað.

Samkvæmt skoðunargerð læknanna, dags. 1. apríl 1903, var líkið kinnfiskasogið og mjög magurt „og það svo að telja má í því rifbeinin í 23 feta fjarlægð“. Á efri vör, hægra gagnauga og bak við bæði eyru voru fleiður og sár, auk töluverðs blóðriss á baki og lendum. Kolbrandur eða drep var í báðum „stórutáargómum inn að beini og liggja naglirnar lausar. Minni kolbrandssár á hinum tánum.“ Dánarorsök drengsins var frekast talin vera skortur á viðurværi og vanhirðing á kolbrandssárum en áverkar á bak við eyru og á baki líksins virtust bera vott um misþyrmingu. Í framhaldi voru Oddur Stígsson og Margrét Eyjólfsdóttir ákærð fyrir illa meðferð á drengnum.

Strax á fyrstu dögum rannsóknarinnar var lagt fram í réttinum vottorð frá séra Sveini Eiríkssyni sóknarpresti í Ásum í Skaftártungum sem hann hafði ritað um þremur og hálfum mánuði áður, 12. desember 1902, vegna orðróms um slæma meðferð þeirra hjóna á sveitardrengnum í Skaftárdal. Samkvæmt vottorðinu var ekki annað að sjá en að þá hafi allt verið í góðu lagi í Skaftárdal.

Séra Sveinn segist hafa „yfirheyrt ungmennið Pál Júlíus Pálsson á Skaftárdal og reyndist hann sérlega vel að sér eftir því er hann var báglega undirbúinn í vor er hann kom að téðum bæ. Lítt stafandi þá en nú sæmilega lesandi.“ Hann segir að drengnum líði ágætlega og „vilji ómögulega héðan fara ef húsbændur hans vilja lofa sér að vera.“ Hann segist hafa skoðað útlit og hold drengsins sem var í ágætu lagi og „sérstakt gleðibragð á honum. Enda virðist mér nú að drengurinn sé hér mjög vel kominn og jafnvel betur en mjög víða annars staðar.“

Eftir að hreppstjóri Kirkjubæjarhrepps fékk þetta vottorð í hendur í desember 1902 ákvað hann að aðhafast ekkert frekar vegna þessa orðróms. Drengurinn skyldi dvelja áfram að Skaftárdal fram að næstu fardögum. Við réttarhöldin var sannleiksgildi vottorðsins hins vegar dregið í efa.

Við réttarhald 6. júní 1903, þegar rannsókn málsins var komin á lokastig, lagði sýslumaður fram eintak af blaðinu Reykjavík frá 30. apríl sama ár. Á baksíðu blaðsins var birt lítil grein sem hafði yfirskriftina: „Mannhundur kvelur líf úr barni með hor og pyndingum. – Sóknarpresturinn hilmar meðferðina með honum. – Afskiptaleysi oddvita, prófasts og sýslumanns.“ Greinin var rituð af Páli Hanssyni, föður Páls Júlíusar litla sem hafði látist með svo voveiflegum hætti í Skaftárdal. Í greininni er farið, sem von er, mjög ófögrum orðum um alla málsaðila, ekki síst Odd Stígsson en líka hreppstjóra Kirkjubæjarhrepps og séra Svein Eiríksson í Ásum. Segir þar meðal annars að „presti hafi verið mútað með brennivíni af Oddi Stígssyni“ þegar hann ritaði umrætt vottorð. Við nánari yfirheyrslur hjá sýslumanni vegna þessa komst Páll Hansson svo að orði um vottorð prestsins: „Hvað komið hefir prestinum til að gefa rangt vottorð um líðan drengsins veit ég ekki nema ef vera kynni brennivínsást á Oddi.“ Séra Sveinn játaði svo að hafa fengið tvo kaffibolla hjá Oddi og þegið „sem svaraði einu staupi af brennivíni“ út í hvorn þeirra.

Rannsókn málsins stóð yfir með hléum frá 31. mars til 9. júní 1903. Oddur og Margrét voru fyrirheyrð ítarlega um allt sem sneri að heimilishaldi hjá þeim, atlæti og fæðinu sem Páll Júlíus fékk hjá þeim, auk þess sem fjölmargrir aðrir sveitungar þeirra voru yfirheyrðir og töldust geta varpað einhverju ljósi á málið. Allt of langt mál væri að rekja það hér. Dómabækur sýslumanna og margs konar dómsskjöl sem fylgja og varðveitt eru í Þjóðskjalasafni úr öllum landshlutum einkum frá 18. og 19. öld eru mikill heimildabrunnur um samfélagsgerð fyrri alda. Þar segir fólk frá lífi sínu og störfum með beinum og óbeinum hætti við rannsóknir alls kyns dómsmála sem komu til kasta yfirvalda.

Við yfirheyrslur játaði Oddur Stígsson að hafa að kvöldi hins 21. mars hýtt Pál Júlíus með hrísvendi svo á honum sá, sár og blóðris, fyrir að stela „leyfum eftir skírnarveislu, keti og köku, úr ólæstri kistu.“ Daginn eftir lá Páll Júlíus mest allan daginn í rúminu. Um kvöldið, eftir að Páll hafði neitað að fara niður í fjós að sópa upp fyrir kúnum, reiddist Oddur og viðurkennir að hafa „rifið hann upp á eyrnarsneplunum“ og „farið hart með hann ofan stigann og haldið í eyrun á honum ofan stigann“, og svo fleygt honum niður í fjós. Um nóttina stal Páll Júlíus sér „kæfu úr ólæstu lofti“ og morgunin eftir hýddi Oddur hann aftur með sama hrísvendi. Nú fyrir að stela „mat í annað skiptið að nóttu til smálka (kæfu) úr ólæstu lofti. ... Hann barði ofan í eldri sárin” og „hann sá blæða úr þeim“ eftir hýðinguna. Þremur dögum síðar lést Páll Júlíus.

Dómur var kveðinn upp 15. júní 1903. Bæði Oddur og Margrét voru dæmd fyrir vanrækslu og misþyrmingu með ofbeldisverkum. Hún í 30 daga einfalt fangelsi en hann í 12 mánaða betrunarhússvinnu.

Málinu var áfrýjað til Landsyfirréttar sem felldi sinn dóm 18. janúar 1904 og breytti dómnum þannig að Margrét var sýknuð, en dómur yfir Oddi staðfestur, 12 mánaða betrunarhússvinna. Landyfirréttur taldi þannig að hin „grimdarfulla misþyrming á barninu, sármögru og veikluðu“ hafi verið helsta dánarorsök þess.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift á skoðunargerð.

Heimildir

  • ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. GA/2-3. Dóma- og þingbók 1897–1906.
  • ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. EA1.2/2-4. Aukadómsmálabók 1897–1903.
  • ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. B/24-10. Dómsskjöl 1903 (Réttvísin gegn Oddi Stígssyni og Margréti Eyjólfsdóttur).
  • Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum. VII. bindi 1904–1907. Reykjavík 1909.
  • Sverrir Kristjánsson, „Köld eru ómagans kjör.“ Horfin tíð. Íslenzkir örlagaþættir. Útg. Sverrir Kristjánsson og Tómas Guðmundsson. Reykjavík 1967, bls. 41–83.

Smelltu hér að neðan til að sækja uppskrift á líkskoðun ásamt skýringum.

Skoðunargerð héraðslæknanna í Skaftafellssýslum 1. apríl 1903 vegna andláts Páls Júlíusar Pálssonar í Skaftárdal.
Skoðunargerð héraðslæknanna í Skaftafellssýslum 1. apríl 1903 vegna andláts Páls Júlíusar Pálssonar í Skaftárdal.
Vottorð séra Sveins Eiríkssonar í Ásum um líðan Páls Júlíusar Pálssonar í Skaftárdal, dags. 12. desember 1902.
Áritun sýslumanns aftan á vottorð séra Sveins Eiríkssonar í Ásum þegar það var lagt fram í rétti 31. mars 1903.
Blaðið Reykjavík 4. árg. 22. tbl. 30.4.1903. Lagt fram í lögreglurétti Skaftafellssýslu 6. júní 1903.
Undirskriftir Odds Stígssonar og Margrétar Eyjólfsdóttur í dómabók sýslumanns Vestur-Skaftafellssýslu þegar mál þeirra var tekið undir dóm.