Mætti hann ekki verða eitthvað þessu líkur?

September 2021

Mætti hann ekki verða eitthvað þessu líkur?

Þessi orðsending er á baki olíumálaðri tillögu að fána fyrir Ísland, sem Jón Helgason biskup sendi til svokallaðrar Fánanefndar árið 1914, en hlutverk nefndarinnar var að gera tillögu að þjóðfána fyrir Ísland. Tillaga biskupsins var að vísu ekki samþykkt en er varðveitt ásamt 27 öðrum fánatillögum í skjalasafni Fánanefndarinnar 1914 sem er varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Tillaga Jóns Helgasonar biskups að fána fyrir Ísland Tillaga Jóns Helgasonar biskups að fána fyrir Ísland

Tillaga Jóns Helgasonar biskups að fána fyrir Ísland

Skipun Fánanefndarinnar átti sér nokkurn aðdraganda og krafa Íslendinga um sérfána fyrir landið var ekki ný af nálinni. Um skeið naut hugmynd Sigurðar Guðmundssonar málara um hvítan fálka á bláum grunni hylli en árið 1897 skrifaði Einar Benediktsson skáld grein í blað sitt Dagskrá þar sem hann lagði til að íslenski fáninn yrði hvítur kross á bláum feldi. Sú hugmynd naut mikils stuðnings og á næsta áratug var slíkur fáni óopinber fáni Íslands.

Málið var nefnilega alls ekki svo einfalt að Íslendingar gætu upp á sitt einsdæmi ákveðið hvaða fána þeir hefðu, eða hvort þeir fengju fána yfirleitt. Það vald var í höndum konungsins yfir Íslandi. Leið til ársins 1913, en þá hafði alþingi samþykkt að fara þess á leit við Kristján X. konung að Íslendingar fengju sérstakan fána sem þó væri einungis sérfáni sem mætti nota á Íslandi og í íslenskri landhelgi. Var því ekki um opinberan þjóðfána að ræða, Danebrog var enn aðalfáni ríkis Kristjáns X. Þegar konungur samþykkti þessa umleitan sagði hann að skilyrði væri að fáninn væri ekki of líkur fána annars lands og vísaði þar til þess að hinn blái og hvíti fáni væri ansi líkur gríska herfánanum, en það taldi hann ekki koma til greina.

Undir lok árs 1913 var Fánanefndin skipuð til að leggja fram tillögu að útliti fánans. Í nefndina voru skipaðir þeir: Guðmundur Björnsson landlæknir, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson Aðils dósent, Þórarinn B. Þorláksson listmálari og Matthías Þórðarsson þjóðminjavörður. Við vinnu sína var kallað eftir hugmyndum um útlit fánans og bárust allmargar tillögur, bæði frá Íslendingum en einnig erlendis frá. Flestar byggðu á hinum blá hvíta fána eða afbrigðum við hann. Aðrir, svo sem Jóhannes Kjarval listmálari, lögðu þó fram allt aðrar hugmyndir.

Jóhannes Kjarval var einn þeirra sem sendu inn tillögur að þjóðfána Jóhannes Kjarval var einn þeirra sem sendu inn tillögur að þjóðfána

Jóhannes Kjarval var einn þeirra sem sendu inn tillögur að þjóðfána

Þess ber að geta að einn nefndarmanna, Matthías Þórðarson, hafði þegar árið 1906 lagt fram tillögu að þeim fána sem við þekkjum í dag sem þjóðfána Íslands. Raunar barst Fánanefndinni teikning og ítarleg greinargerð um slíkan fána, sem gerð var af Samúel Eggertssyni. Má vera að þeir Samúel og Matthías hafi haft þarna samráð. Tillaga Samúels og greinargerð má sjá í myndunum hér til hliðar.

Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til tvær tillögur. Annars vegar að fáninn væri heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum og hins vegar um hvítan fána með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan með báðum. Hins vegar þrjóskaðist konungur við að samþykkja fánann þrátt fyrir vilyrði þar um. Þann 19. júní 1915 samþykkti konungur þó loks að fyrrnefndi fáninn yrði íslenskur sérfáni, en hann varð síðan opinbert tákn Íslands árið 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. Lög um íslenska fánann urðu síðan fyrstu lögin sem Sveinn Björnsson forseti Íslands staðfesti með undirritun sinni 17. júní 1944 þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi.

Þær tillögur sem bárust Fánanefndinni eru nú allar aðgengilegar á vef Þjóðskjalasafns. Kennir þar margra grasa og bárust tillögurnar frá einstaklingum víðs vegar á Íslandi en einnig erlendis frá.

Hægt er að skoða tillögurnar í heild hér.

Höfundur texta: Unnar Rafn Ingvarsson

íslenski fáninn
íslenski fáninn
íslenski fáninn
íslenski fáninn