Lögfesta Sveinbjörns Þorleifssonar

Janúar 2013

Lögfesta Sveinbjörns Þorleifssonar

ÞÍ. Einkaskjalasafn. E. 288. 119

Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á. (Úr tíunda boðorði Móse).

Konur hafa löngum verið réttlitlar. Í hjónabandi voru þær fyrrum háðar vilja eiginmannsins (nema þær væru því viljasterkari og eiginmaðurinn meinlaus eða góðviljaður). Yfirleitt beygðu þær sig undir orð Páls postula í bréfi hans til Efesusmanna að karlmaðurinn væri höfuð konunnar.

Hér er þó eitt dæmi, þar sem kona hefur ekki beygt sig undir vald eiginmannsins og hann leitað aðstoðar sýslumanns og að auki lögfest konuna. Lögfesta er yfirlýsing lesin á hreppsþingi en með lögfestu vildu menn tryggja sér eignar- eða umráðarétt, fyrst og fremst á bújörðum og landi eða ítökum.

Hérmeð festi og lögfesti undirskrifaðr Sveinbiörn Þorleifsson eiginkonu mína Hilldi Pálsdóttur og fyrirbýð í kröptugasta máta, eptir laga leyfi, sovel prestinum s(é)ra Magnúsi Einarssyni á Butru, sem sérhverium öðrum að hýsa hana eðr heimila, frá mér burttæla eðr lokka mót guðs og manna lögum og boðorðum, eðr í nokkurn máta at brúka hana sér til þénustu ólöglega, svosem eg lýsi hana mína eign og e<i>ginkonu at öllu leiti ef eg má óræntr vera, og tilbýð henni samvist og sambúð á beggia okkar bólfestu Snotru í Landeyum, í öllum christilegum kærleika, svo sem ber og hæfir; Óska eg sveitar menn í Fliótshlíð stirki mig til þess at flytia og færa hana til mín og með mér eptir sem tilsett var á Kyrkiulækiar manntals þíngi. Til staðfestu mitt nafn

    Snotru í Landeyum, d. 2 Junii, 1770     Sveinbiörn Þorleifsson

Upplesið prestinum s(é)r(a) Magnúsi Einarssyni á Butru áheyrandi um kvelldið þess 2r<s> dags í hvítasunnu p(ro)p(ria)
      Sigurðr Indriðason     Brandr Brandsson
  Upplesit við Breiðabólstaðar kyrkiu þann 2 dag hvítasunnu vitna
      Hans Bergsteinsson     Sigurðr Guðnason
  Upplesit við Eyvindarmúla k(ir)kiu eptir h(eilaga) þiónustugiörð 3ðia dag hvítasunnu 1770
      Ólafr Gíslason     Jörundr Sigvalldason

  Conforme við originalen test(ere)r G Ketilsson
  Rigtig copies copie test(ere)r Þ Sigurðarson

/VJónsson

Einkaskjalasafn. E. 288. 119.

Í Æfum lærðra manna segir Hannes Þorsteinsson um Magnús Einarsson prest:

„Sveinbjörn hét maður Þorleifsson frá Oddgeirshólahöfða í Flóa Þórðarsonar. Hann bjó í Hallskoti í Fljótshlíð, sóknarmaður séra Magnúsar. Kona hans hét Hildur Pálsdóttur, og er svo að sjá, sem séra Magnús hafi verið eitthvað orðaður af henni eða hún af honum. Flutti svo Sveinbjörn suður að Snotru í Landeyjum, og 2. júní 1770 lögfestir hann þar Hildi konu sína, því að hún sé sín eign og bannar bæði prestinum séra Magnúsi Einarssyni í Butru og öðrum „í nokkurn máta að brúka hana sér til þénustu ólöglega“ etc. (Hún hefur víst ekki farið með manni sínum suður í Landeyjar). ...

Af bréfabók Finns biskups sést að Sveinbjörn hefur kært séra Magnús fyrir biskupi sumarið 1770, en biskup vísað þeirri kæru til aðgerða prófasts (séra Sig(urðar). í Holti), en ekki sést, hvernig kærunni hefur varið verið(líklega eitthvað út af Hildi m.fl.). En í marz 1771 kom prófastur sættum á milli prests og Sveinbjarnar, og varð prestur að greiða honum allmikla peninga(í sárabætur)(en sést ekki, hve upphæðin hefur verið há). En biskup fyrir sitt leyti samþykkti sættina, með því að séra Magnús hefði í viðskiptum sínum við Sveinbjörn ekki gert sig sekan í neinu, er varðaði embættis afsetning, en 4 rd. skuli hann gjalda til fátækra prestekkna, og geti það varla verið minna, úr því að útlátin til Sveinbjarnar hafi verið svo mikil, svo að eitthvað hefur klerkur staðið höllum fæti í þessu. (Sjá um þetta br(éfa)b(ók) F(inns) J(ónssonar) 1771, bls. 262–263, 312–313).“

Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 41. bindi, bl. 107r–v.

Hildur hefur horfið aftur til manns síns. Árið 1782 bjuggu þau hjón á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hjá þeim voru börnin Guðrún 13 ára og Þorleifur 9 ára. Sveinbjörn var sagður 41 árs, frómur í hegðun og breytni, en Hildur sögð 51 árs „er s(éra) Magnús E(inars)s(on) átti í máli um.“

(Þá var Magnús Einarsson hættur prestsskap, en eftirmaður hans skráði þetta í sóknarmannatalið).

Kirknasafn. Fljótshlíðarþing BC/1.

Björk Ingimundardóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir

  • Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 41. bindi.
  • Kirknasafn. Fljótshlíðarþing BC/1.

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Hér að neðan er hægt að sækja uppskrift af lögfestu Sveinbjörns Þorleifssonar:

Lögfesta Sveinbjörns Þorleifssonar