Listaskrifarinn séra Lárus Halldórsson á Breiðabólsstað á Skógarströnd

Ágúst 2016

Listaskrifarinn séra Lárus Halldórsson á Breiðabólsstað á Skógarströnd

ÞÍ. Breiðabólsstaður á Skógarströnd. BA/7. Prestsþjónustubók 1868-1918, bls. 316-317.

Listaskrifarar hafa margir verið á Íslandi í gegnum aldirnar. Einn þeirra var séra Lárus Halldórsson á Breiðabólsstað á Skógarströnd (19. ágúst 1875-17. nóvember 1918). Lárus var ættaður af Snæfellsnesi, sonur hjónanna Halldórs Guðmundssonar og Elínar Bárðardóttur að Miðhrauni í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu. Hann stundaði nám við Lærða skólann í Reykjavík 1894-1900, fór svo eftir útskrift í Prestaskólann og lauk prófi þaðan árið 1903. Lárus fékk veitingu fyrir Breiðabólsstað 7. september 1903 og vígðist 20. sama mánaðar. Hann kvæntist Arnbjörgu, dóttur Einars Árnasonar og Sigríðar Halldórsdóttur í Garðbæ á Miðnesi, 7. apríl 1901. Börn þeirra voru: Bárður, Rósa, Sigurbjörg, Einar og Svanur. Lárus þjáðist af brjóstveiki en í Bjarma 15. maí 1916 er þess getið að hann hafi nýlega haldið heim að Breiðabólsstað eftir ársdvöl á Vífilsstaðahælinu. Sú dvöl virðist ekki hafa borið tilætlaðan árangur því að séra Lárus fékk lausn frá embætti vegna vanheilsu 29. desember 1917 og flutti til Reykjavíkur í fardögum 1918. Hann lést svo í lok þess árs og hafa veikindi hans væntanlega gert hann berskjaldaðri en ella þegar spænska veikin tók að herja á Reykvíkinga.

Lárus hefur strax á námsárunum tekið að sér að skrautrita fyrir fólk og leitaði m.a. Alþingi til hans þegar skrautrita þurfti ávörp til konungs eftir að Benedikt Gröndal skáld hætti að veita slíka þjónustu. Hann sá m.a. um að skrautrita ávarp til norska skáldsins Björnstjerne Björnson haustið 1902 sem Jón Ólafsson ritstjóri og þýðandi Björnsons gekkst fyrir. Ávarpinu fylgdu undirskriftir um 300 bæjarbúa, kvæði eftir Þorstein Erlingsson og drápa sem Bjarni Jónsson frá Vogi orti í nafni Stúdentafélagsins og Lárus ritaði með „skinnbókaletri“.

Þá vann Lárus við afskriftir fyrir Landsskjalasafnið en það má t.d. sjá af bréfi frá Einari Þorkelssyni, frá 1. júní 1904, til Jóns bróður síns og landsskjalavarðar. Þar spyr hann hvort Jón vilji ekki nota sig við afskriftir fyrir safnið þar sem að Lárus sé orðinn prestur. Þá fékk Jón séra Lárus einnig til þess að fylla eyður í íslensku fornprenti sem engin von var til að fá heil eintök af. Hann hafði milligöngu um þetta fyrir Landsbókasafnið og svo nýtti hann sér krafta séra Lárusar í eigin þágu því að Jón var sjálfur mikill bókasafnari. Þetta fór þannig fram að Jón útvegaði ljósmyndir af því sem vantaði í bækurnar, gjarnan frá erlendum bókasöfnum, og séra Lárus stældi fyrirmyndina svo nákvæmlega að erfitt var að sjá skilin þar sem uppskrift hans lauk og frumritið tók við. Í bréfum frá árinu 1906 má sjá að þá var hann t.d. að skrifa upp blöð í Grallarann frá 1679 og þremur árum síðar var hann að afrita blöð í Reisupostillu, sem er líklega Ný hús- og reisupostilla sem kom fyrst út árið 1690. Hann fór líka suður og skrifaði fyrir Landsbókasafnið en í bréfi til Jóns, frá 9. nóvember 1911, spyr hann hvort Landsskjalasafnið þurfi að láta gera einhverjar afskriftir fyrir sig. En til standi að hann komi til Reykjavíkur í byrjun næsta árs því hann eigi að vinna 100 stundir fyrir Landsbókasafnið.

Þessar endurgerðir gamalla bóka hafa verið mikið vandaverk enda segist séra Lárus, þegar hann var að vinna við Grallarann, að jafnaði geta marið af eitt blað á dag. Í landsmálablöðunum má sjá að mikið hefur þótt koma til hæfileika hans en á einum stað er hann kallaður skrautritunarsnillingur og á öðrum stað segir að hann sé „[...] hinn mesti listaskrifari, getur stælt hverja rithönd og alt letur, eins og sumar hermikrákur ná rödd hvers kvikindis.“ Snilli séra Lárusar kristallast þó líkast til einna best í eftirfarandi sögu úr riti Þorsteins Jósepssonar blaðamanns, Gamlar bækur og bókamenn:

Svo sem kunnugt er tók Sigurður Nordal að sér ritstjórn á ljósprentunarritsafni því sem E. Munksgaard gaf út í Khöfn á árunum 1933-1942 og kom út í 6 bindum undir heildarheitinu „Monumenta typographica Islandica“, en fyrsta ritið sem þar var tekið til meðferðar var Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, sem prentað var 1540 í Roskilde. Ljósprentunin sjálf var gerð í Leipzig í Þýzkalandi og í því skyni voru tvö eintök af frumútgáfunni send þangað. Annað þessara eintaka hafði verið í eigu Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar, en Jón hafði fengið síra Lárus Halldórsson, síðar prest að Breiðabólsstað á Skógarströnd, til að skrifa þau blöð sem vantaði í prentaða textann. En handbragð síra Lárusar var með þeim fádæmum að Þjóðverjarnir sáu ekki mun á handskrift hans í bókinni og hinu prentaða lesmáli og ljósprentuðu bókina þess vegna eftir eintaki Jóns. Þetta varð ekki uppgötvað fyrr en ljósprentuninni hafði verið lokið og hún send til Kaupmannahafnar. Var það þá eyðilagt nema 5 eintök, sem útgefandinn hélt eftir, og eitt þeirra gaf hann ritstjóranum Sigurði Nordal.

Vandvirkni og snilld séra Lárusar birtist ekki einungis í því sem hann skrifaði fyrir aðra heldur einnig í þeim bókum sem hann færði embættis síns vegna. Hér gefur að líta opnu úr prestsþjónustubók Breiðabólsstaðar sem sýnir skírnir árið 1908.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

 • Lbs 4197 4to. Bréfasafn Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar. Einar Þorkelsson til Jóns Þorkelssonar, 1. júní 1904.
 • Lbs 4204 4to. Bréfasafn Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar. Séra Lárus Halldórsson til Jóns Þorkelssonar, 29. maí 1906, 8. júní 1906, 5. desember 1906, 24. nóvember 1909, 9. nóvember 1911.
 • „Afmæli“, Þjóðólfur 54. árg., N° 46 (14. nóvember 1902), bls. 183.
 • „Ávarp samið af Jóni Ólafssyni [...]“, Fjallkonan, XIX. árg., Nr. 48 (9. desember 1902), bls. 3.
 • „Björnsons-ávarpið [...]“, Ísafold XXIX. árg., 76. blað (6. desember 1902), bls. 303.
 • Gunnlaugur Haraldsson, Guðfræðingatal 1847-2002 II. Reykjavík 2002, bls. 623-624.
 • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 387-388.
 • „Séra Lárus Halldórsson [...]“, Fréttir. Dagblað 2. árgangur, 30. blað (27. maí 1918), bls. 3.
 • „Séra Lárus Halldórsson [...]“, Tíminn II. ár, 22. blað (30. maí 1918), bls. 128.
 • „Séra Lárus Halldórsson [...]“, Þjóðólfur 65. árg., N° 11 (4. júní 1918), bls. 46.
 • „Sr. Lárus Halldórsson [...]“, Bjarmi. Kristilegt heimilisblað X. árg., 8. tbl. (15. maí 1916), bls. 64.
 • „Togdrápa [...]“, Þjóðólfur 54. árg., N° 50 (12. desember 1902), bls. 199.
 • Þorsteinn Jósepsson, „Blaðað í bókasafni dr. Sigurðar Nordals“, Gamlar bækur og bókamenn. Bútar úr bókfræði. Prentað sem handrit. Reykjavík 1963, bls. 77-82, (bein tilvitnun af bls. 80-81).
Titilsíða prestsþjónustubókar Breiðabólstaðarprestakalls á Skógarströnd 1868-1916
Opna úr prestsþjónustubók Breiðabólstaðarprestakalls á Skógarströnd 1868-1916