Kveðja konungs, Kristjáns X, til Íslendinga við lýðveldisstofnun 17. júní 1944

Júní 2014

Kveðja konungs, Kristjáns X, til Íslendinga við lýðveldisstofnun 17. júní 1944

Dönsk-íslensk sambandslög öðluðust gildi 1. desember 1918. Í þeim var ákvæði um að eftir árslok 1940 gætu ríkisþing Dana og Alþingi hvort um sig, hvenær sem væri, krafist þess að byrjað yrði á samningum um endurskoðun sambandslaganna. Yrði nýr samningur ekki gerður innan þriggja ára frá því að krafan kom fram, gæti ríkisþingið danska eða Alþingi hvort fyrir sig samþykkt að samningurinn væri fallinn úr gildi.

Danmörk var hernumin af Þjóðverjum 9. apríl 1940 og og við það rofnaði samband Íslands og Danmerkur. Alþingi lýsti því yfir árið 1941 að það teldi Ísland hafa öðlast fullan rétt til sambandsslita þar sem Ísland hefði orðið að taka í sínar hendur meðferð allra sinna mála. Ekki yrði um að ræða endurnýjun sambandslagasáttmálans við Danmörku. Þótti þó ekki tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins en frestur aðeins til styrjaldarloka.

Undirbúningur að sambandsslitum hófst árið 1942 en Bandaríkjastjórn skarst í leikinn og fyrir áhrif hennar dróst stofnun lýðveldisins til ársins 1944. Raunar reis upp hópur manna sem kallaði sig "lögskilnaðarmenn" og vildu ekki slíta sambandinu fyrr en að loknum samningum Íslendinga og Dana. Töluverður ágreiningur varð milli "lögskilnaðarmanna" og "hraðskilnaðarmanna" og barst hann inn á Alþingi. Lauk honum með því að Alþingi kaus tvær nefndir, aðra til þess að fjalla um skilnaðarmálið og hina vegna stjórnarskrár hins nýja lýðveldis. Voru gerðir Alþingis lagðar í dóm þjóðarinnar með almennum kosningum 20.-23. maí 1944.

Í kosningunum vorið 1944 greiddu atkvæði 72.640 manns, 97,86% kosningabærra manna. Niðurfellingu sambandslaganna samþykktu 70.725 eða 97,36%, á móti voru 370 eða 0,51%. Auðir og ógildir seðlar voru 1.545 eða 2,13%. Lýðveldisstjórnarskrána staðfestu 69.048 manns eða 95,06% atkvæðisbærra manna, á móti voru 1.042 eða 1,43%. Auðir seðlar og ógildir voru 2.550 eða 3,51% atkvæða.

Alþingisfundur 16. júní 1944 samþykkti annars vegar yfirlýsingu um að niður væri fallinn dansk-íslenski sambandslagasamningurinn frá 1918 og hins vegar að stjórnarskrá lýðveldisins gengi í gildi á þingfundi daginn eftir, 17. júní. Lýsti forseti sameinaðs Alþingis yfir gildistöku stjórnarskrárinnar á þingfundi á Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944.

Danir, bæði konungsfjölskyldan og stjórnmálamenn, virðast lengi ekki hafa gert sér grein fyrir vilja Íslendinga til sambandsslita og vænst þess að þeir kysu að halda sambandinu við Danmörku óbreyttu. Á stríðsárunum reyndu dönsku forsætisráðherrarnir að fá Íslendinga til þess að doka við, árangurslaust. Kristján X, konungur Íslands og Danmerkur, lagðist gegn sambandsslitunum, síðast með símskeyti 2. maí 1944 þar sem hann sagðist ekki, meðan þáverandi ástand varði, geta viðurkennt stjórnarfarsbreytinguna sem Alþingi og ríkisstjórn Íslands hefðu ákveðið án samráðs við hann. Síðar var því í kyrrþey komið á framfæri við konung að heppilegast yrði fyrir vinsældir hans og virðingu ef hann sæi sér fært að þýðast þjóðarviljann sem komið hefði fram í kosningunni í maí 1944.

Þegar fyrsta ríkisráðsfundi lýðveldisins lauk á Þingvöllum 17. júní 1944 barst forsætisráðherra skeyti með kveðju- og heillaóskum Kristjáns konungs X. Það skeyti er heimild júnímánaðar 2014 á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Forsætisráðherra flutti kveðjuna þegar á Þingvöllum þar sem mikill mannfjöldi fagnaði henni.

Frumgerð skeytisins hefur ekki komið fram. Þetta eintak er staðfest af Birni Þórðarsyni sem var forsætisráðherra við lýðveldisstofnunina 1944.

 

Kveðja konungs hljóðar svo á íslensku:

„Þótt mér þyki leitt að skilnaðurinn milli mín og íslensku þjóðarinnar hefur verið framkvæmdur á meðan svo stendur á sem nú er, vil ég láta í ljós bestu óskir mínar um framtíð íslensku þjóðarinnar og von um að þau bönd, sem tengja Ísland við hin norrænu lönd, megi styrkjast.“

Björk Ingimundardóttir ritaði kynningartexta.

 

Heimildir

  • ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989-B/235. Lýðveldisstofnunin 1940-1969.
  • Björn Þórðarson, Alþingi og frelsisbaráttan 1874-1944, Saga Alþingis III. Reykjavík 1956, bls. 444-639.
  • Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Íslands saga til okkar daga. Reykjavík 1991, bls. 409-419.

 

Afrit af símskeyti Kristjáns konungs X. með skýringum Björns Þórðarsonar forsætisráðherra