Kjarnorkuvá í Keflavík?

Nóvember 2017

Kjarnorkuvá í Keflavík?

ÞÍ. Keflavíkurkaupstaður 2016 DI/9-1.

Sjöundi áratugurinn var viðburðarríkur í Keflavík sem og annarsstaðar í heiminum. Tónlistin blómstraði og voru Hljómar frá Keflavík ein af vinsælustu hljómsveitum landsins, ef ekki sú vinsælasta[1]. Fótboltalið Keflavíkur gekk í gegnum gullöld þar sem liðið varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari árin 1964 og 1969[2]. Mikið umstang og efnahagslegur uppgangur var á þessum tíma í kring um herflugvöll Bandaríkjahers sem risið hafði fyrir ofan bæinn á Miðnesheiði en árið 1951 sneru hermenn aftur á völlinn eftir að Ísland hafði verið herlaust land frá 1946[3].

Það fylgdi því hinsvegar hætta að hafa herstöð í bakgarðinum og á tímum kalda stríðsins er líklegt að herstöðin á Miðnesheiði hafi verið skotmark Sovétmanna ef allt hefði farið til fjandans og stórveldin hefðu hleypt af kjarnavopnunum sínum. Það var álit yfirhershöfðingja bandaríska herráðisins, Lawton J. Collins, og yfirmanns bandaríska varnarliðsins á Íslandi, Ralph Brownfield. Collins sagði Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra meira að segja að það ætti að einbeita sér að því að verja flugstöðina í Keflavík þar sem það yrði líklegast aðalskotmark Sovétmanna og að Reykjavík mætti þess vegna vera óvarin[4].

Heimild mánaðarins að þessu sinni fjallar um hvernig áætlað var að verja íbúa Keflavíkur ef kjarnorkusprengju yrði varpað á herstöðina á Miðnesheiði, en árið 1967 var framkvæmd svokölluð skýlakönnun í Keflavík af Skrifstofu almannavarna og Keflavíkurkaupstað. Markmiðið með könnuninni var að finna fjölda skýlisrýma í Keflavík sem vörðu þá sem inni í skýlunum voru gegn utanaðkomandi geislun. Verndarstuðullinn á skýlunum sem leitað var eftir átti að vera 100 eða meira en það var talið lágmarks verndarstuðull á Reykjanesinu og Reykjavíkursvæðinu ef allt færi á versta veg. Reikningsaðferðinni á stuðlinum er lýst í könnuninni og nánar verður ekki farið út í það hér, en aðferðin var þróuð af bandarísku stofnununum National Bureau of Standards og Department of Defense.

Könnunin var framkvæmd þannig að ekið var um Keflavík og húsin sem líkleg þóttu til að uppfylla kröfurnar voru valin og því næst voru teikningarnar af húsunum skoðaðar og nánar skorið úr um skýlingarhæfni þeirra. Að auki voru teikningar fengnar af húsum sem voru talin líklega hæf til að vera skýli og þær skoðaðar, en Helgi S. Jónsson slökkviliðsstjóri í Keflavík var Almannavörnum innan handar við þessa skoðun.

Það kom á daginn að 1159 skýlisrými voru til staðar í Keflavík sem voru nothæf án endurbóta. Gert var ráð fyrir að könnunin gæfi niðurstöðu um fjölda rýma með um 10% nákvæmni. Það var talið að líklega væri hægt að fá rými fyrir um 1200 manns í Keflavík sem dugði ekki fyrir nema um 23% íbúanna, sem voru á þessum tíma 5400. Í lok skýrslunnar er listi yfir byggingarnar sem taldar voru góðar sem skýlisrými án endurbóta og sem talin voru geta orðið skýli eftir endurbætur og er listanum skipt niður í byggingar sem teikningar fengust af og byggingar sem engar teikningar fengust af.

Myndir af greinargerð um könnunina má finna hérna til hliðar.

Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta.

__________________

  1. Vikan, 18. tbl. 3.5.1967.
  2. Sigmundur Ó. Steinarsson. 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu, síðara bindi, Reykjavík 2011, bls. 486.
  3. Jón Viðar Sigurðsson. Keflavíkurflugvöllur 1947-1951, Reykjavík 1984, bls. 7.
  4. Guðni Th. Jóhannesson. „„Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar“. Loftvarnir og almannavarnir á Íslandi, 1951“, í Saga XLV:2 2007, bls. 12.
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967 Teikning af Nýja bíói í Keflavík
Greinargerð um skýlakönnun í Keflavík 1967. Teikning af byggingu fógetaembættisins í Keflavík