Kirkja Ingibjargar Jónsdóttur að Holti í Fljótum Anno 1646

Ágúst 2013

Kirkja Ingibjargar Jónsdóttur að Holti í Fljótum Anno 1646

Kirkjureikningur Holtskirkju í Fljótum í Skagafirði 1646.
ÞÍ. Kirknaskjöl. K XXIV (Hegranesþing). Örk: Holt í Fljótum 1461-1646.

Ingibjörg Jónsdóttir (1615–1703) var dóttir Jóns eldra Magnússonar sýslumanns í Dalasýslu og Ástríðar Gísladóttur. Hún átti fyrst Gunnar son Arngríms lærða Jónssonar og Solveigar kvennablóma Gunnarsdóttur. Gunnar dó árið 1642 og munu þau aðeins hafa verið gift innan við ár. Dagsetningar liggja ekki ljósar fyrir en þann 11. janúar 1642 gaf Gunnar Ingibjörgu konu sinni löggjöf sína og var þá sjúkur í líkama en heill að viti. Þann 29. ágúst sama ár samþykkti Arngrímur lærði að Ingibjörg skyldi halda þeirri tilgjöf sem henni var heitin á brúðkaupsdegi sínum, þ.e. jörðinni Holti í Fljótum, og var Gunnar þá bersýnilega andaður. Ingibjörgu og Gunnari varð ekki barna auðið.

Næsti eiginmaður Ingibjargar var Jón Halldórsson Skálholtsráðsmaður og fór brúðkaup þeirra fram í Skálholti 1. desember 1644. Jón var sonur Halldórs Ólafssonar lögmanns og Halldóru eldri Jónsdóttur. Þau voru einungis saman í hjónabandi í um níu vikur því Jón féll í gegnum ís á Ölfusá og drukknaði 6. febrúar 1645 á leið heim úr Þorlákshöfn í þoku. Ingibjörg var hins vegar barni aukin og fæddi það eftir veturnætur, eða í kringum miðjan október, en það komst ekki á legg. Barnið erfði hins vegar föður sinn og Ingibjörg síðan barn sitt.

Liðu nú nokkur ár þangað til Ingibjörg giftist í þriðja og síðasta sinn en árið 1652 gekk hún að eiga Þorleif Kortsson. Þorleifur var sonur Korts Þormóðssonar klausturhaldara á Kirkjubæjarklaustri og Þórunnar Hákonardóttur. Eftir dauða föður síns ólst Þorleifur upp í Hamborg í Þýskalandi hjá föðurfrændum sínum og lærði þar klæðskeraiðn. Hann fluttist svo heim til Íslands og var lögsagnari Guðmundar Hákonarsonar sýslumanns í Húnavatnssýslu 1647–1652. Guðmundur var einnig klausturhaldari á Þingeyrum og hefur hann haldið brúðkaup þeirra Þorleifs og Ingibjargar en Seyluannáll segir að þar hafi verið „[...] margt stórmenni og heiðarlega veitt.“ Þorleifur fékk hálfa Ísafjarðarsýslu auk helmings konungsjarða þar árið 1652 og um svipað leyti hálfa Strandasýslu ásamt helmingi konungsjarða. Á þessum árum bjuggu þau hjónin á Prestbakka og síðan í Bæ í Hrútafirði. Hann var lögmaður 1662–1679, hélt Þingeyraklaustur 1663–1678 og bjuggu þau þá þar en hann sleppti Strandasýslu 1669 og Ísafjarðarsýslu ári síðar. Jón sonur Þorleifs fékk Þingeyraklaustur eftir föður sinn en foreldrar hans bjuggu þar áfram allt til ársins 1685 er þau fluttust aftur í Bæ. Ingibjörg og Þorleifur eignuðust fjögur börn; Jón klausturhaldara, Hannes konunglegan fornfræðing, Guðmund ríka í Brokey og Þórunni eiginkonu Lárusar Scheving sýslumanns. Þorleifur dó árið 1698 en Ingibjörg lifði bónda sinn í fimm ár og dó 88 ára gömul í Bæ eftir að manntalið hafði verið tekið árið 1703.

Óvíst er nákvæmlega hvenær Ingibjörg fluttist norður í Skagafjörð en hana má finna í Holti í Fljótum árið 1646 og stendur þá fyrir endurbyggingu á kirkjunni þar. Af kirkjureikningnum má sjá að Ingibjörg hefur notið liðsinnis bróður síns Eggerts Jónssonar lögréttumanns að Ökrum í Skagafirði við bygginguna en hann útvegaði henni hleðslumenn og kirkjuviði. Þá hafa þau Þorlákur Skúlason Hólabiskup einnig haft einhver skipti á viðum sín á milli. Hún hefur jafnframt greitt Magnúsi Bergssyni tvö hundruð í smíðakaup en hann hefur væntanlega verið yfirsmiður við kirkjubygginguna. Samkvæmt Búalögum skyldi höfuðsmiður, sem kynni að reisa kirkjur og önnur herbergi, fá eitt hundrað í laun á mánuði. Hann hefur því væntanlega unnið við kirkjuna í tvo mánuði. Ættir Magnúsar liggja ekki ljósar fyrir en hann kvæntist Ragnheiði dóttur Illuga Jónssonar Hólaráðsmanns og Halldóru Skúladóttur, systur Þorláks biskups. Þau hafa líkast til búið í Fljótunum en maður með sama nafni bjargaði konu og barni út úr rústum bæjarins á Reykjarhóli í Austurfljótum, sem gjöreyðilagðist í óveðri 27. október 1662, með því að saga þeim leið út. Í ættartölubók frá miðri 17. öld er Magnús sagður „mikill tinsmiður“ en í kirkjureikningnum er slíkra gripa ekki getið. Ljóst er þó af reikningnum að Ingibjörg endurbyggði ekki einungis kirkjuna heldur útvegaði henni einnig nýja gripi, t.d. altarisdúk, hökul og slopp.

Kirkja Ingibjargar hefur hins vegar tiltölulega fljótt farið að láta á sjá enda mannanna verk líkt og mannslíf forgengileg. Þann 29. ágúst 1667 vísiteraði Gísli biskup Þorláksson kirkjuna og hafði eftirfarandi að segja um ástand hennar og fyrrnefndra kirkjugripa:

Kÿrkiann ad Hollte i Fliotum gómul, lasinn og füinn alluÿda i Riafre og rafftar Innslopner sumstadar, Kÿrkiustafer flestaller fanijter Vndannteknum 4. Sillurnar I sama Mäta fünar, sierdeiliz Su nordarj. Bitar 3 ä loffte i kor og kÿrkiu, og 2 Vid Biorþil, þrijr af þeim fänga lijtler og füner, þuij eirn er brotinn Vpp yfer alltare, enn tueir nochurneigenn Nÿtannleger. Þiliad ä mille korz og kÿrkiu Vnder skamsillur kordyr med dröttum. Stand Þil og biör Þil framan Vnder Kÿrkiunne Stædelegt, enn ä bak Vid korinn füid og laslegt. Þilgolf i Kornum, brostid i einu<m> Stad. Langbeckur i frammkÿrkiu kallmanna meiginn aukinn, og Þuerbechur, eirn Stoll kuennameiginn. Sta<n>d Þil eckert, huorke i kor nie kÿrkiu, hurd ä lósnum Järnum fyrer kÿrkiunne, Skräarlaus. [...] Alltariss dukar 1 annar af huijtu lereffte Slitinn og fanijtur, annar af blamerktu lereffte framan fyrer alltare - Richelyn Vænt oslitid, Hokull blär med krosse Sterkur og ospialladur, med Olmerdukz födrj, [...]

Það er ekkert einsdæmi að konur hafi staðið fyrir kirkjubyggingum á 17. öld og er frægasta dæmið Halldórukirkja sem Halldóra, dóttir Guðbrands biskups Þorlákssonar, lét byggja á Hólum í Hjaltadal eftir að kirkjan þar skemmdist í ofsaveðri árið 1624. Ingibjörg fetar í fótspor hennar einnig að öðru leyti því undirskrift Halldóru á bréfi dagsettu 29. ágúst 1625 (sem einnig er að finna í Þjóðskjalasafni) er talin með elstu eiginhandar undirskriftum kvenna sem varðveist hafa á Íslandi. En eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af kirkjureikningnum þá hefur Ingibjörg skrifað eigin hendi undir hann árið 1646.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir

  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn. B. III, 6. Vísitasíubók Gísla biskups Þorlákssonar 1659–1683, bls. 113–114.
  • Aðalheiður B. Ormsdóttir, „Konur á Hólastað. Systurnar Halldóra og Kristín Guðbrandsdætur“, Skagfirðingabók 20 (1991), bls. 119–163.
  • Annálar 1400–1800 I–II, IV. Reykjavík 1922–1932, 1940–1948. I, bls. 271 (Viðauki Skarðsárannáls), bls. 297 (Seyluannáll), bls. 360–361 (Vallholtsannáll); II, bls. 146 (Fitjaannáll); IV, bls. 275–276, 278 (Sjávarborgarannáll).
  • Búalög um verðlag og allskonar venjur í viðskiptum og búskap á Íslandi. Sögurit XIII. Reykjavík 1915–1933, bls. 100–103 (handrit frá miðri 17. öld).
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I–V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948–1952.
  • Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson bjó til prentunar. [Kaupmannahöfn] 1993, bls. 211–212.
  • Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi IV. Rithöfundar. Reykjavík 1926, bls. 9–10.
  • Sigfús H. Andrésson, „Þorleifur lögmaður Kortsson“, Skírnir 131 (1957), bls. 152–171.
  • Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I. Texti. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70. Reykjavík 2008, bls. 136, 150, 256–257, 312, 390.

 

Uppskrift af kirkjureikningi Holtskirkju í Fljótum má hlaða niður með því að smella á tengilinn hér að neðan.

Kirkjureikningur Holtskirkju í Fljótum í Skagafirði 1646
Kirkjureikningur Holtskirkju í Fljótum í Skagafirði 1646, bakhlið.