Íslenskt lýðveldi 75 ára

Júní 2019

Íslenskt lýðveldi 75 ára

ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/235. / ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 1990 B/9.

Heimsstyrjöldin síðari mótaði leið Íslendinga að sjálfstæði

Nú eru 75 ár síðan Ísland varð lýðveldi við hátíðlega athöfn á Þingvöllum. Barátta Íslendinga fyrir sjálfstæði hafði verið löng og ströng. Árið 1904 fengu Íslendingar heimastjórn, árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki og þá að flestu leyti sjálfstætt ríki. Hins vegar höfðu Íslendingar enn danskan kóng og að minnsta kosti að forminu til sáu dönsk stjórnvöld um utanríkismál og landhelgisgæslu. Í sambandslögunum árið 1918 var endurskoðunarákvæði, þar sem sagði að eftir 25 ár, þ.e. árið 1943 mætti endurskoða samninginn. Það ákvæði hugðust íslensk stjórnvöld nýta sér til fulls sjálfstæðis.

Óvæntir og heimssögulegir atburðir urðu hins vegar 1. september 1939, þegar Þýskaland gerði innrás í Pólland og á skömmum tíma soguðust flest ríki heimsins inn í síðari heimsstyrjöldina. Þann 9. apríl 1940 var Danmörk hernumin af Þjóðverjum. Í kjölfarið samþykkti Alþingi einróma að fela ríkisstjórn Íslands konungsvald og að Íslendingar tækju í sínar hendur meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu.

Fljótlega komu fram raddir um að Íslendingar hefðu öðlast rétt til að segja upp sambandslögunum einhliða og fella niður konungsdæmið vegna „ósjálfráðra vanefnda“ Dana á sambandssamningnum frá 1918. Þeir sem voru þessarar skoðunar vildu stofna þegar í stað lýðveldi á Íslandi og voru kallaðir hraðskilnaðarmenn. Slíkri uppsögn var hins vegar mótmælt af Kristjáni X. Danakonungi og dönskum ráðamönnum.

Íslenskir stjórnmálamenn lögðu mikið kapp á að fá staðfestingu þeirra stórvelda, sem stóðu þeim nærri, Breta og Bandaríkjamanna. Í febrúar 1941 átti Ólafur Thors samtal við Howard Smith, þáverandi sendiherra Breta á Íslandi, og spurðist fyrir um skoðanir Breta á væntanlegri lýðveldisstofnun. Fékk Ólafur þau skilaboð á fundinum að breska ríkisstjórnin legðist gegn lýðveldisstofnun eins og málum væri háttað, þar sem Danmörk væri hersetin af óvinaríki og að Bretar hefðu hernumið Ísland: „Because we happen to be here“ voru orð sendiherrans.

Bretar voru vissulega áhrifamikil þjóð, en úrslit styrjaldarinnar voru alls ekki ljós þó margir hafi verið þess fullvissir að eftir að Bandaríkjamenn urðu fullir þátttakendur í styrjöldinni myndu bandamenn fara með sigur af hólmi. Þann 9. september 1942 ritaði Ólafur bróður sínum Thor Thors bréf og óskaði eftir því að hann leitaði upplýsinga um skoðun stjórnvalda í Bandaríkjunum á sjálfstæði Íslands. Í bréfinu gaf Ólafur tvo möguleika. Í fyrsta lagi spurði hann hvort Bandaríkin gætu sætt sig við stofnun lýðveldis og forsetakjör þegar í stað og þjóðaratkvæðagreiðsla yrði síðan framkvæmd í kjölfarið eða að Alþingi samþykkti stofnun lýðveldis, en hún gengi ekki í gildi fyrr en eftir 1. janúar 1944 og þá sennilega 17. maí 1944 eða t.d. 17. júní „vegna helgi dagsins“.

Thor Thors fór að vilja bróður síns. Ræddi hann meðal annars við Cordell Hull, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hull hafði vissulega efasemdir um að Íslendingar myndu stíga þetta skref, en viðurkenndi þó að þetta væri mál Íslendinga fyrst og fremst. Hann taldi að eftir næstu kosningar, samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðaratkvæðagreiðslu, myndu Bandaríkin styðja það að Ísland yrði sjálfstætt ríki.

Heimild júnímánaðar eru minnispunktar ritaðir eftir fund utanríkismálanefndar 6. október 1942, þar sem nefndarmenn fóru yfir stöðu málsins, ásamt Thor Thors, sendimanni Íslands í Bandaríkjunum og bréf Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, til formanns stjórnarskrárnefndar dagsett 8. febrúar 1943. Þar lýsir Ólafur þeim fundum og samskiptum sem hann átti með ráðamönnum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þeir fundir auk fjölmargra annarra samtala íslenskra embættis- og stjórnmálamanna leiddu eins og áður sagði til þess að ákveðið var að fresta lýðveldistofnun til 17. júní 1944.

Á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 voru fulltrúar fjölmargra ríkja og önnur sendu kveðju sína til hins nýstofnaða lýðveldis. Engum kveðjum var þó fagnað meira og betur en skeyti frá Kristjáni X., konungi Danmerkur, sem óskaði íslensku þjóðinni alls hins besta á komandi árum.

Gögn varðandi lýðveldisstofnun eru varðveitt all víða í ólíkum skjalasöfnum. Stærstur hluti gagnanna eru í safni utanríkis- og forsætisráðuneytis en einnig eru veigamikil gögn í skjalasöfnum sendiráðanna í London, Washington, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Þá eru í einkaskjalasöfnum margvísleg gögn. Má þar sérstaklega nefna einkaskjalasafn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, síðar forsætisráðherra, en það ásamt öðrum skjalasöfnum sem hér eru nefnd eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Forsætisráðuneytið 1989 B/235.
  • ÞÍ. Sendiráð Íslands í Washington 1990 B/9.
  • Leiðin til lýðveldis. Rit Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins, Rvk. 1994.
Minnispunktar ritaðir eftir fund utanríkismálanefndar 6. október 1942.
Minnispunktar ritaðir eftir fund utanríkismálanefndar 6. október 1942.
Minnispunktar ritaðir eftir fund utanríkismálanefndar 6. október 1942.
Bréf Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, til formanns stjórnarskrárnefndar dagsett 8. febrúar 1943.
Bréf Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, til formanns stjórnarskrárnefndar dagsett 8. febrúar 1943.
Bréf Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, til formanns stjórnarskrárnefndar dagsett 8. febrúar 1943.