Íslandsmót í körfuknattleik endurtekið

September 2019

Íslandsmót í körfuknattleik endurtekið

ÍSÍ 2004/40 AB/8-3

Það myndi heyra til tíðinda í dag ef heilt Íslandsmót í íþróttagrein yrði dæmt ógilt og úrskurðað að það yrði endurtekið. Sú var raunin árið 1956 þegar fjórða Íslandsmótið í körfuknattleik var haldið. Fyrst var blásið til leiks á vormánuðum og úr varð æsispennandi mót þar sem þrjú lið enduðu jöfn að loknum öllum leikjum en Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR), Íþróttafélag stúdenta (ÍS) og Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar (ÍKF) unnu fjóra leiki af fimm og voru því með átta stig að móti loknu. Auk þeirra léku í mótinu Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA), Gosi og Ármann.

Þar sem þrjú lið voru jöfn þá hafði Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), sem hafði verið falin framkvæmd mótsins af ÍSÍ, ákveðið að leika skyldi úrslitaleiki milli liðanna til að skera úr um sigurvegara Íslandsmótsins fyrir árið 1956.[1]

Stúdentar voru ekki alls kostar sáttir við það fyrirkomulag en í þremur fyrstu Íslandsmótunum hafði stigamunur skorið úr um sigurvegara ef lið enduðu jöfn að stigum í lok mótsins. Úr varð að ÍS kærði framkvæmd mótsins til ÍSÍ sem tók kæruna fyrir á fundi í maí. ÍSÍ féllst á kæruna þar sem ÍBR hafði ekki tilkynnt fyrirfram um breytingu á mótafyrirkomulaginu og að sögn stúdenta hefðu þeir hagað leikaðferð sinni öðruvísi ef þeir hefðu vitað um hið nýja fyrirkomulag. ÍSÍ úrskurðaði því að mótið yrði dæmt ógilt og að það skyldi fara fram aftur.[2]

Til að allt færi vel og rétt fram skipaði ÍSÍ nefnd um framkvæmd mótsins og er heimild mánaðarins fundarbók mótanefndar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956. Tilnefndir í nefndina voru leikmenn úr liðunum sem ætluðu að vera með í mótinu um haustið, en Akureyringar treystu sér ekki til að koma suður aftur til að taka þátt í endurteknu móti.[3] Nefndarmenn voru þeir Grettir Ásmundsson úr Gosa, Sverrir Georgsson úr ÍS, Helgi V. Jónsson úr ÍR, Bogi Þorsteinsson úr ÍKF og Benedikt Sveinsson úr Ármanni. Auk þessara liða tók KR þátt í mótinu, en það var í fyrsta sinn sem þeir voru með á Íslandsmóti í körfubolta.

Á fundum mótanefndar var rætt var um allt það sem viðkom mótinu frá auglýsingum um mótið yfir í dómaramálin. Til að gera langa sögu stutta urðu úrslit á endurteknu Íslandsmóti þau að ÍKF varð hlutskarpast með fullt hús stiga og varð Íslandsmeistarar í þriðja sinn. Í öðru sæti voru ríkjandi meistarar ÍR og ÍS endaði í þriðja sæti. Það er tekið fram í lok fundargerðar sjöunda fundar að mótið hafi farið „vel fram í hvívetna og komu engar kærur viðkomandi mótinu“.[4]

Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÍSÍ 2004/40 AA/5-1.
  • ÍSÍ 2004/40 AB/8-3.
  • Skapti Hallgrímsson. Leikni framar líkamsburðum - saga körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld. Reykjavík: Körfuknattleikssamband Íslands, 2001.

__________________

  1. Skapti Hallgrímsson. Leikni framar líkamsburðum, bls. 53.
  2. ÍSÍ 2004/40 AA/5-1 24. fundur, 24. maí 1956.
  3. Skapti Hallgrímsson. Leikni framar líkamsburðum, bls. 53.
  4. ÍSÍ 2004/40 AB/8-3 7. fundur, 16. desember 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.
Fundargerðabók mótanefdar Íslandsmeistaramótsins í körfuknattleik árið 1956.