Ísland og fyrri heimsstyrjöldin

Júlí 2014

Ísland og fyrri heimsstyrjöldin

Þ.Í. Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa, Db. 4, nr. 297. Stríð í Norðurálfu 1914.

Þann 28. júlí næstkomandi verða 100 ár liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þó rekja megi ástæður þess að allt fór í bál og brand í Evrópu árið 1914 talsvert langt aftur í tímann, þá er auðvelt að benda á beina orsök styrjaldarinnar, en hún var morðið á hertogahjónum keisaradæmisins Austurríki-Ungverjaland í Sarajevó í Bosníu [1] þann 28. júní 1914. Sá atburður olli því að mánuði siðar lýsti keisaradæmið yfir stríði á Sebíu, en ráðamenn þess sökuðu þá um að hafa skipulagt morðið, og í framhaldinu lýstu Þjóðverjar sem voru bandalagsþjóð Austurríkis-Ungverjalands yfir stríði gegn Rússum og Frökkum. Stuttu síðar brutu Þjóðverjar hlutleysi Belgíu og við það drógust Bretar inní styrjöldina og þá má segja að heimsstyrjöld hafi verið skollin á þó að einn mikilvægur þátttakandi, Bandaríkin, hefði ekki blandað sér í átökin fyrr en árið 1917 [2].

Ísland, sem hluti af danska konungsríkinu, var hlutlaust í fyrri heimsstyrjöldinni. Hlutleysið var virt og því hafði styrjöldin ekki bein áhrif hér á landi. Óbein áhrif hennar voru hins vegar umtalsverð. Skipti þar mestu hafnbann Breta á Þýskaland sem olli mikilli röskun á inn- og útflutningi sem hafði áhrif á allan efnahag landsins. Í fyrstu nutu Íslendingar reyndar góðs af háu útflutningsverði en þegar leið á styrjöldina, sérstaklega eftir að Þjóðverjar hertu á kafbátahernaði sínum í febrúar 1917, fór að síga á ógæfuhliðina er útflutningur minnkaði og innflutningsverð hækkaði umtalsvert en við það jókst verðbólga til muna og atvinnuleysi varð tilfinnanlegt. Hafnbannið hafði einnig þau áhrif að mikið af utanríkisviðskiptum Íslendinga færðust til markaða í Bretlandi og Bandaríkjunum og einnig jókst hlutur ríkisins í þessum viðskiptum umtalsvert [3].

Nefna má ýmis önnur svið þjóðlífsins sem styrjöldin hafði áhrif á m.a. menntamál. Í Þjóðskjalasafni er til bréf frá Skúla Skúlasyni prófasti í Odda til I. skrifstofu Stjórnarráðs Íslands, dagsett 5. ágúst 1914, en þar spyr hann hvort ráðlegt sé fyrir stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla sem séu í sumarfríi hér á landi að fara aftur út um haustið þar eð ástand mála í álfunni sé mjög ótryggt. Uppkast að svarbréfi I. skrifstofu er einnig til en þar kemur fram að stjórnvöld í Kaupmannahöfn telji að það séu betri líkur á því en áður að Danmörk fái að halda hlutleysi sínu í styrjöldinni. Að því sögðu þá minnist bréfritari einnig á að þar sem átök geisi í Evrópu, muni Háskólinn líklega ekki taka hart á því þó stúdentar fresti komu sinni í skólann fram eftir haustinu svo þeir geti betur áttað sig á stöðu mála. Þetta bréf er dagsett 10. ágúst 1914. Mynd af báðum bréfunum má sjá hér til hægri og uppskriftir þeirra hér að neðan.

__________________

  1. Sem hafði verið innlimuð í keisaradæmið árið 1908.
  2. Hastings, Max. 2013. Catastrophe - Europe goes to war 1914. William Collins. London. Blaðsíður 41 - 102.
  3. Helgi Skúli Kjartansson. 2003. Ísland á 20. öld. Sögufélag. Reykjavík. Blaðsíður 55-59.

Kristinn Valdimarsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfanna.

 

Uppskrift bréfanna sem um er fjallað má sækja með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan (PDF, 37 KB).

Bréf Skúla Skúlasonar prófasts í Odda
Svar stjórnarráðsins við bréfi Skúla Skúlasonar prófasts