Húsaskipan á bæ Jóns Hreggviðssonar 1713/1714

September 2014

Húsaskipan á bæ Jóns Hreggviðssonar 1713/1714

ÞÍ. Reykholt. AB/1. Úttektabók 1658-1753, án blaðsíðutals.

Eins og flestum mun kunnugt býr raunveruleg fyrirmynd að baki sakamanninum Jóni Hreggviðssyni sem nóbelskáldið Halldór Kiljan Laxness dró upp svo eftirminnilega mynd af í Íslandsklukkunni. Það eru því í raun til tveir Jónar Hreggviðssynir og lýtur annar lögmálum skáldskaparins en hinn lögmálum sagnfræðinnar. Hér verður athyglinni beint að hinum síðarnefnda.

Jón Hreggviðsson (f. 1650) bjó árið 1683 á Fellsöxl í Skilmannahreppi, en 1703 á Efri Reyni í Akraneshreppi og var á sama stað þegar jarðabók var tekin í Borgarfjarðarsýslu 1706. Við vitum hvernig hann leit út því Guðmundur Jónsson sýslumaður, sem var honum kunnugur, lýsti Jóni með eftirfarandi hætti á alþingi 1684: „Í lægra lagi en að meðalvexti, réttvaxinn, þrekvaxinn, fótagildur, með litla hönd, koldökkur á hárslit, lítið hærður, skeggstæði mikið, enn nú afklippt, þá síðast sást, móeygður, gráfölur í andliti, snarlegur og harðlegur í fasi.“ Laxness hagnýtir sér þessa sakamannslýsingu og sömuleiðis vitnisburð jarðabókarinnar til að lýsa bæjarstæðinu á Reyni sem skáldið lætur heita Rein.

Jón bjó á Efri Reyni, eins og fyrr segir, en einhvern tíma eftir 1706 hefur hann flutt sig yfir á Neðri Reyni og búið þar til um 1713 eða 1714. Fyrrum var þetta ein jörð sem skipt hafði verið upp þannig að hver hluti fyrir sig var 20 hundruð, sem samsvaraði meðaljörð, að dýrleika. Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup, sem hafði nýlega orðið fyrir áfalli í einkalífinu, gaf jörðina Reyni til guðsþakka með gjafabréfi dagsettu 26. júní 1662. Þar kemur fram að ærleg ekkja, í suðurhluta Borgarfjarðarsýslu, með þrjú eða fleiri skilgetin börn í ómegð skyldi njóta eftirgjalds af jörðinni. Í gjafabréfinu var ennfremur kveðið á um að jörðina skyldi byggja „skilvísum rækslumanni“ sem bæði haldi henni í rækt og láti ekkert undan henni ganga. Prófasti í Þverárþingi sunnan Hvítár var falin umsjón með Reynisgjöfinni og þess vegna má finna úttekt Neðri Reynis, í Garðakirkjusókn, meðal úttekta kirkjujarða Reykholts í úttektabók staðarins. Þeir feðgar séra Halldór Jónsson eldri og séra Hannes Halldórsson höfðu staðarforráð í Reykholti 1657-1731 og gegndu jafnframt embætti prófasts í Borgarfjarðarsýslu árin 1663-1731. Úttektin er óársett en næsta skjal fyrir framan hana er frá árinu 1713 og næsta skjal fyrir aftan frá 1714, þannig að hún er líkast til frá öðru hvoru árinu. Helgi Sigmundsson sem tók við jörðinni af Jóni bjó á Hóli í Hvalfjarðarstrandarhreppi 1703 og var þar enn árið 1706.

Samkvæmt úttektinni var húsaskipan á Neðri Reyni með eftirfarandi hætti. Baðstofan var tvö stafgólf en það var bilið milli stoða eða stafa í grindinni og markaði jafnframt rúmlengdina og því hefur þar verið pláss fyrir fjögur rúm. Veggir baðstofunnar eru sagðir slæmir og á henni er hurð á járnum, þ.e. á hjörum. Því næst kemur eldhúsið, svo stofan með slæmum veggjum og skálinn einnig með slæmum veggjum en að auki er húsið sagt mjög tilgengið. Skálabúrið er vænt að viðum og nokkuð tilgengið en öndin, eða anddyrið, stæðilegt. Þá er hús á hlaðinu sem gæti verið skemma eða smiðja og loks fjósið. Að endingu eru leigukúgildin, sem fylgdu jörðinni, talin upp en þau voru þrjú eins og einnig má sjá í jarðabókinni. Þau samanstóðu af tveimur kúm, einni sjö vetra svarthúfóttri, þ.e. með svörtum haus, og annarri svartri sem var sex vetra. Þá voru sex ær með lömbum sem samsvöruðu einu kúgildi.

Laxness lýsir aldrei húsakynnum Jóns Hreggviðssonar af neinni nákvæmni en vera má að heimsókn Arnasar Arnæus og fylgdarliðs hans í hið „skelfilega hús“ Reinarbóndans hafi litið öðruvísi út hefði nóbelskáldið vitað af þessari lýsingu á heimili hans. En ljóst er að Laxness hefur ekki átt sambærilegan hauk í horni á Þjóðskjalasafni og hann átti innan við múrvegginn í Árnasafni.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp skjalið.

Heimildir

  • Alþingisbækur Íslands VI, 1640-1662. Reykjavík 1933-1940, bls. 710-713, bein tilvitnun af bls. 711-712.
  • Alþingisbækur Íslands VIII, 1684-1696. Reykjavík 1949-1955, bls. 33-35, bein tilvitnum af bls. 35.
  • Annálar 1400-1800 I. Reykjavík 1922-1927, bls. 395-396 (Vallaannáll).
  • Eiríkur Jónsson, Rætur Íslandsklukkunnar. Reykjavík 1981, bls. 17, 56-63, 82-84.
  • Halldór Laxness, Íslandsklukkan. 5. útgáfa, 2. prentun. Reykjavík 1993, bls. 14-15, 23-25, 28, 30-31, 35, bein tilvitnum í orð Snæfríðar Íslandssólar um hið skelfilega hús á bls. 28.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949, bls. 259-260, 313.
  • Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 4. Kaupmannahöfn 1925 og 1927, bls. 29-30, 71-73.
  • Jóhann Gunnar Ólafsson, „Óbótamál Jóns Hreggviðssonar á Rein. Aldarfarslýsing“, Helgafell 2 (1943), bls. 284-296.
  • „Lífssaga heiðurlegs og göfugs ungmennis virðulegs herra biskupsins M. Brynjólfs Sveinssonar að Skálholti dóttursonar Þórðar Daðasonar, hver eð kristilega og vel burtkallaðist af þessari veröldu á 11. ári síns aldurs Anno 1673, 14. Julii“, Blanda. Fróðleikur gamall og nýr 2. Sögurit XVII. Reykjavík 1921-1923, bls. 1-8.
  • Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924-1947, bls. 44, 50.

Hér að neðan er uppskrift af skjalinu.

Opna úr úttektabók 1658-1753 sem sýnir úttekt á Neðri Reyni 1713/1714
Eiginhandarundirskrift Jóns Hreggviðssonar