Heilsuhælið á Vífilsstöðum

Júní 2017

Heilsuhælið á Vífilsstöðum

ÞÍ. Teikningasafn 15/5.

Á annan í hvítasunnu 31. maí árið 1909 var mikill fjöldi fólks saman komin að Vífilsstöðum til að fagna því að hornsteinn var lagður að heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Þá hafði aðeins verið lagður grunnur að þeirri miklu byggingu sem átti eftir að rísa og var tekin í notkun í byrjun september 1910.

Ýmsir mektarmenn og -konur höfðu talað fyrir því að byggt yrði sérstakt heilsuhæli fyrir berklasjúklinga og aðrar þjóðir höfðu orðið fyrri til Íslendingum. Oddfellowreglan á Íslandi tók málið upp á sína arma og stofnaði félag árið 1906 til að vinna málinu framgang. Áhugi allra landsmanna á þessu stóra framfaramáli var mikill. Í ræðu, sem landlæknir flutti þegar hornsteinn var lagður að byggingunni, var þess getið að alls væru 114 deildir í heilsuhælisfélaginu og félagsmenn væru ríflega 6000 um allt land. Fyrir tilstyrk þessa fólks, stjórnvalda og annarra félagasamtaka tókst að tryggja fjármagn til verksins. Það þarf engan að undra að áhugi fólks var mikill á að byggja hæli fyrir berklasjúklinga. „Hvíti dauðinn“ eins og berklaveikin var nefnd snerti alla Íslendinga. Áætlað var að berklar legðu að velli allt að sjöunda hvern mann og oftar en ekki varð ungt fólk sjúkdómnum að bráð.

Þegar heilsuhælið á Vífilsstöðum var reist, var ljóst að þar væri risin ein glæsilegasta bygging landsins. Í upphafi var ráðgert að ekki yrði byggt til einnar nætur. Rögnvaldur Ólafsson var arkitekt hússins. Hann og Guðmundur Björnsson landlæknir ákváðu staðsetningu hælisins en Vífilsstaðir þóttu hentugir fyrir margra hluta sakir. Þeir voru ekki of langt frá Reykjavík og samgöngur tiltölulega þægilegar. Miklu réði að jörðin Vífilsstaðir var í eigu Garðakirkju og bændur á jörðinni voru tilbúnir til að gefa ábúðarrétt jarðarinnar eftir.

Rögnvaldur hófst handa við teikningu aðalhússins í marsmánuði 1908 og í ágúst sama ár lágu fyrir teikningar og útreikningar á efnismagni sem þurfti til framkvæmdanna. Á Vífilsstaðahælinu var rými fyrir 80 sjúklinga og starfsfólk og alls voru 105 herbergi í húsinu. Hælisbyggingin sjálf var ekki eina byggingin sem reis heldur voru þar byggðar allmargar byggingar á næstu árum. Rögnvaldur hannaði viðbótarbyggingarnar meðan hans naut við, þar á meðal glæsilega fjósbyggingu sem reis árið 1916. Fjósið á Vífilsstöðum var líklega síðasta höfundarverk Rögnvaldar Ólafssonar, en þegar það var teiknað var Rögnvaldur fjársjúkur af berklum og hann lést á Vífilsstaðahæli sama ár aðeins 42 ára.

Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt margvísleg gögn varðandi Vífilsstaði og starf Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts. Hér eru birt nokkur sýnishorn af byggingarteikningum Rögnvaldar. Þar á meðal eru uppköst að byggingunni og endanleg gerð hennar.

Unnar Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Björn G. Björnsson. Fyrsti arkitektinn. Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans. Reykjavík, 2016.
  • Lögrétta 2. júní 1909.
  • Steinar J. Lúðvíksson. Traustir hlekkir. 60 ára saga Styrktar og líknarsjóðs Oddfellowa og líknarverkefni Reglunnar á fyrri tíð. Reykjavík, 2015.
  • ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I Db. 5, nr. 81.
  • ÞÍ. Húsameistari ríkisins B/148-1.
  • ÞÍ. Teikningasafn 15/5.
Teikning Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts af heilsuhælinu á Vífilsstöðum
Teikning Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts af heilsuhælinu á Vífilsstöðum
Teikning Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts af heilsuhælinu á Vífilsstöðum
Teikning Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts af heilsuhælinu á Vífilsstöðum
Teikning Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts af heilsuhælinu á Vífilsstöðum