Hallar- og borgarbrunarnir í Kaupmannahöfn 1794-1795

Nóvember 2016

Hallar- og borgarbrunarnir í Kaupmannahöfn 1794-1795

ÞÍ. Sýslumaður Blönduósi. PA/13, örk 1.

Síðdegis þann 26. febrúar 1794 kom upp eldur í hinni mikilfenglegu Kristjánsborgarhöll (Kristjánshöll) á Hallarhólmanum í Kaupmannahöfn. Á einum sólarhring brann hún til grunna ásamt hallarkirkjunni, hæstarétti og hesthúsbyggingunum sem stóðu meðfram síkinu gegnt Gömluströnd. Það var vindáttinni að þakka að kansellí, kauphöll, bókasafn, listasafn, vista- og vopnabúr konungs sluppu. Það var aðeins óæðri endi hallarsvæðisins sem logarnir náðu ekki að teygja sig í, þ.e. skeiðvöllurinn og mannvirkin sem umlykja hann á þrjár hliðar.

Ástæðan fyrir eldsvoðanum má segja að hafi verið sparnaður. Höllin var kynnt með flóknu kerfi 400 ofna og gengu ofnrörin í gegnum gólf og veggi hallarinnar. Kostnaðurinn við að hreinsa og viðhalda ofnakerfinu þótti of mikill og því var verkið boðið út. Þeir sem buðu lægst voru ókunnugir kerfinu, sinntu ekki nógu vel um að hreinsa það og því fór sem fór. Talsvert af innbúinu bjargaðist fyrir tilstilli fórnfúsra sjálfboðaliða en u.þ.b. 100 menn köfnuðu í reyknum þegar þeir fundu ekki útgönguleiðir úr höllinni. Á meðal þess sem brann var stærstur hluti skjalasafns hæstaréttar og þar með íslensk mál sem höfðu komið fyrir réttinn fram að þeim tíma. (Hvað íslensk mál eftir þann tíma varðar, sjá skrá yfir íslensk mál fyrir hæstarétti Danmerkur 1802-1921.)

Ungur drengur, sem átti eftir að lenda í miklum ævintýrum síðar á lífsleiðinni, hreifst af stórkostlegum eldsvoðanum og naut þess, að eigin sögn, að horfa á eyðilegginguna. Jørgen Jørgensen (1780-1841), betur þekktur sem Jörundur hundadagakonungur, segir m.a. svo frá þessari lífsreynslu sinni:

Ég hafði gott útsýni og sá þess vegna eyðileggingu stóra riddarasalarins, þar sem málverk af dönsku konungunum í fullri líkamsstærð hengu á veggjunum og þegar léreftin urðu eldinum að bráð, var eins og myndirnar lifnuðu og væru loks lausar úr langri fangavist á veggjunum.

Konungsfjölskylduna sakaði ekki og henni var komið fyrir í húsnæði sem hæfði stöðu hennar næstu daga en skömmu eftir brunann festi konungur kaup á Amalíuborg.

Sjaldan er ein báran stök og rúmu ári síðar, eða þann 5. júní 1795, kviknaði eldur í timbri á Gamlahólmi og næstu tvo daga barst hann með sterkum vindi um fjölmennustu og fátækustu hverfi borgarinnar. Þegar loks tókst að stöðva hann, um kvöldmatarleytið 7. júní, voru fimm af 12 hverfum borgarinnar að mestu brunnin til grunna og meira en 950 hús í u.þ.b. 55 götum höfðu orðið eldinum að bráð. Ekki eru til tölur yfir hversu margir misstu heimili sín vegna brunans en vitað er að alls voru þetta 3442 fjölskyldur eða á bilinu 10.000-15.000 manns. Það var því gríðarlegur fjöldi fólks sem lenti á vergangi en það var lán í óláni að þetta gerðist um hásumar.

Hafist var handa við að aðstoða hina nauðstöddu og var þeim útdeilt eldiviði og brauði, mjöl var selt á hagstæðu verði úr forðabúri konungs og bruggurum borgarinnar uppálagt að framleiða ódýrt öl svo að hinir verst settu hefðu efni á að kaupa það. Einhvers staðar þurfti að koma fólkinu fyrir meðan húsin voru endurbyggð. Komið var á fót stóru tjaldbúðahverfi á Nørre fælled, sem var almenningsgarður, með hátt í 2000 tjöldum er fengin höfðu verið að láni hjá hernum. Tjaldbúðirnar urðu að hverfi með götum og torgum sem hafði sinn eigin bakara, slátrara og smákaupmenn. Þá voru rústir Kristjánsborgarhallar og hallartorgið nýtt til þess að reisa smáhýsi úr tré og bindingsverki. Þar reis lítill bær með 85 húsum sem gekk undir nafninu Friðriksnýlenda og voru þar tvær götur, Friðriks- og Kristjánsgata. Loks voru innréttaðar íbúðir fyrir 300 fjölskyldur í kjallara hallarrústanna og við hesthúsin voru reist hús fyrir 80 fjölskyldur.

Gísli Konráðsson sagnaritari greinir svo frá þessum atburðum í Húnvetninga sögu sinni:

Urðu tveir ægilegir eldsvoðar á dögum Kristjáns konungs hinn 26ta febrúar 1794 - brann þá hin ágæta Kristjánsborg - og vetri síðar hinn 5ta (sama mánaðar) [svo, rétt júní]. Brann þá mikill hluti staðarins, 934 hús, og mikill hluti á Gamla hólmi.

Í kjölfar brunanna voru gefnar út tvær konunglegar auglýsingar. Sú fyrri, dagsett 23. júlí 1794, greinir frá söfnun m.a. til endurbyggingar hallarinnar. Í þeirri seinni, frá 1. júlí 1795, er fólk hvatt til þess að rétta hinum bágstöddu hjálparhönd og að hver og einn gefi sjálfviljugur eins mikið og hann treysti sér til svo að hægt sé að lina neyð þeirra sem misst höfðu heimili sín. Báðar þessar auglýsingar voru lesnar upp á prestastefnu Skálholtsstiftis (og sjálfsagt einnig Hólastiftis) ári eftir að þær voru gefnar út og líkast til hefur prestunum verið falið að koma skilaboðunum áleiðis. Sýslumenn tóku svo á móti peningagjöfum á manntalsþingum sem voru annars vegar beinharðir peningar en mest þó sem innlegg í verslunina. Sveinn Pálsson læknir segir, í ferðadagbók sinni við árið 1794, að kaupmenn sem ráku verslun á Íslandi en voru búsettir í Kaupmannahöfn hafi hækkað verð á innfluttum vörum gífurlega. Hækkunin mun hafa verið gerð til þess að vinna upp framlag kaupmanna til endurbyggingar Kristjánsborgarhallar.

Aðeins örfáir Íslendingar höfðu komið til Kaupmannahafnar og gengið um trjágöngin við Kristjánsborgarhöll eins og Sveinn sem hafði virt fyrir sér fjólubláar svölur sem gerðu sig þar heimakomnar. Þrátt fyrir það þá brugðust Íslendingar vel við ákallinu og gáfu samtals 6611 ríkisdali og 79 ½ skilding en þar af áttu 4870 rd. og 83 sk. að renna til endurbyggingar konungshallarinnar en 1740 rd. og 92 ½ sk. til fórnarlamba borgarbrunans. Þetta sýnir e.t.v. konungshollustu Íslendinga og er talsverð upphæð, sérstaklega í ljósi þess að Kaupmannahafnarbúar söfnuðu 9701 ríkisdal handa Íslendingum í kjölfar Skaftárelda, þ.e. strax í janúarmánuði 1784. Sú upphæð átti þó eftir að aukast er umfang náttúruhamfaranna kom betur í ljós.

Hér er birt skýrsla yfir söfnunina í Húnavatnssýslu sem Ísleifur Einarsson sýslumaður hefur tekið á manntalsþingum 9.-27. maí 1796 auk viðbóta frá tveimur hreppum, allt í danskri þýðingu. Ókannað er hvort skýrslur af þessu tagi hafi varðveist í öðrum sýslum og málið hefur ekki verið rakið upp eftir stjórnkerfinu (sjá þó lista frá Norðurlandi, sbr. Rentukammer B14/9, örk 1). Í handritasafni Landsbókasafns (Lbs 32 fol., bls. 125-132) er skýrsla úr Skaftafellsþingi sem hefur sennilega villst úr skjalasafni sýslunnar. Þá eru nokkrar skýrslur af Vesturlandi og Vestfjörðum í skjalasafni landfógeta. Líklegast er þó að finna skýrslur úr öllum sýslum landsins í fylgiskjölum jarðabókarsjóðsreikninga í skjalasöfnum landfógeta og rentukammers. Loks má geta þess að í hreppsgögnum er einnig að finna heimildir um þessa söfnum eins og sjá má í færslu frá héraðsskjalasafninu á Akureyri vegna norræna skjaladagsins 2015.

Þessar skýrslur eru athyglisverðar heimildir og forvitnilegt er að sjá hversu margir láta eitthvað af hendi rakna, en það eru ekki einungis húsráðendur heldur einnig börn þeirra sem og vinnufólk. Sumir gefa einungis til endurreisnar konungshallarinnar en aðrir einungis til hinna nauðstöddu íbúa höfuðborgarinnar. Embættismenn hafa sjálfsagt ekki þorað annað en að gefa rausnarlega til hallarbyggingarinnar en sumir prestar gefa einungis til hinna bágstöddu.

Af þessu er ljóst að Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum við endurreisn Kristjánsborgar en hún var vígð árið 1828. Þessi önnur gerð Kristjánsborgarhallar brann aftur til grunna 1884 og af því tilefni orti Hannes Hafstein kvæðið Hallarbruni („Höllin háa brennur!“). Þá brunnu m.a. æviskrár orðuþega dannebrogsorðunnar frá 1808-1883, þ. á m. íslenskra viðtakenda hennar. (Hvað yngri æviskrár íslenskra viðtakenda dannebrogsorðunnar varðar, þ.e. frá árunum 1884-1918, sjá Einkaskjalasöfn, E. 293). Þriðja gerð Kristjánsborgarhallar, sem enn stendur, var vígð árið 1928.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp skýrsluna.

Hin upprunalega Kristjánsborgarhöll, vígð 1740.

Hin upprunalega Kristjánsborgarhöll var vígð 1740. Höllin lokaði hringnum umhverfis skeiðvöllinn og riddarasalurinn sneri út að honum. Koparstunga tekin af alnetinu.

Heimildir

  • ÞÍ. Landfógeti XXIX, 3. „Söfnunarlistar úr vesturamti 1795.“ (Ómerktar arkir neðst í öskju.)
  • ÞÍ. Rentukammer B14/9, örk 1. „Stefán amtmaður Þórarinsson sendir gjafalista vegna hallarbrunans í Kaupamannahöfn og Nota.“
  • Landsbókasafn-Háskólabókasafn. Lbs 32. fol. „Skýrsla um tillag til Kristjánsborgar slots úr Skaftafellsþingi 1795.“
  • Af min ungdoms tid. Danske, især kjøbenhavnske, tilstande og stemninger ved og efter overgangen til det nittende aarhundrede. E.C. Werlauff's efterladte optegnelser. Ved Hans Degen. København 1954, bls. 11-20.
  • Einkaskjalasöfn E. nr. 1-300. Júníus Kristinsson tók saman. Skrár Þjóðskjalasafns - Nýr flokkur 2. Reykjavík 1992, bls. 438.
  • Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir. Jón Eyþórsson bjó til prentunar. Reykjavík 1945, bls. 51, 365.
  • Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Viðbrögð stjórnvalda í Kaupmannahöfn við Skaftáreldum.“ Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík 1984, bls. 193, 207.
  • Gísli Konráðsson, Húnvetninga saga II, 1786-1830. Jón Torfason sá um útgáfuna. Reykjavík 1998, bls. 470.
  • „Hallarbruni“, Ljóða-bók eftir Hannes Hafstein. 2. útg. Reykjavík 1925, bls. 233-234.
  • Íslandskóngur. Sjálfsævisaga Jörundar hundadagakonungs. Skipstjórinn, byltingarmaðurinn, erindrekinn og njósnarinn, Íslandskóngurinn, rithöfundurinn, leikskáldið, presturinn, refsifanginn, spilagikkurinn, hjúkrunarmaðurinn, landkönnuðurinn, blaðamaðurinn, útgefandinn, og lögregluþjónninn Jörgen Jürgensen (Jörundur) segir frá. Trausti Ólafsson þýddi á íslenzku. Reykjavík 1974, bls. 26-27.
  • Jessen, Kirsten-Elizabeth, Genopbygningen af København efter branden i 1795. København 1958, bls. 7-8, 11-14.
  • Jón Espólín, Íslands árbækur í sögu-formi XI. deild, IX. hluti. Kaupmannahöfn 1854, bls. 76.
  • Lovsamling for Island, indeholdende udvalg af de vigtigste ældre og nyere love og anordninger, resolutioner, instructioner og reglementer, althingsdomme og vedtægter, collegial-breve, fundatser og gavebreve, samt andre aktstykker, til oplysning om Islands retsforhold og administration i ældre og nyere tider VI, 1792-1805. Samlet og udgivet af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Kjöbenhavn 1856, bls. 182-183, 208-209.
  • Magnus Stephensen, Island i det attende aarhundrede, historisk-politisk skildret. Kjøbenhavn 1808, bls. 356.
  • Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I. Redigeret af Wilhelm von Rosen. København 1983, bls. 155-158.
  • Seks øjenvidner til slotsbranden 1794. Udgivet ved Carl Dumreicher. København 1952, bls. 12, 29-30, 40, 43, 48, 50-52, 56, 63.

Hér að neðan er hægt að hlaða niður uppskrift af skýrslunni um söfnunina í Húnavatnssýslu.

Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795
Skýrsla yfir söfnun Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Húnavatnssýslu vegna bruna í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1795