Erindisbréf sýslumanns

September 2015

Erindisbréf sýslumanns

ÞÍ. Stiftamtmaður. III, nr. 191. A.150,4. Erindisbréf Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns í Snæfellsnessýslu gefið út af Lafrentz amtmanni, 15. febrúar 1739.

Sýslumenn fengu veitingu fyrir sýslum samkvæmt erindisbréfum og þar voru helstu verkefni þeirra útlistuð. Samkvæmt varðveittum erindisbréfum frá 18. öld fólust verkefnin aðallega í að gæta fjárhagslegra hagsmuna konungs í héraði. Amtmenn höfðu eftirlit með sýslumönnum og áttu að tryggja að sýslumenn greiddu gjöld sín ásamt því að yfirfara þingbækur sýslumanna árlega á Alþingi. Þá skyldu sýslumenn hafa eftirlit með verslun og að hún færi löglega fram, líta eftir að enginn ferðaðist án tilskildra leyfa og tryggja gott ástand vega í landinu.

Í erindisbréfi Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns í Snæfellsnessýslu frá 1739 er eftirlit með eignum og réttindum konungs í fyrrirúmi og til að standa á því skil bar sýslumanni að senda amtmanni og landfógeta árlega skýrslur og reikninga. Meðal annars skyldi hann senda amtmanni hagskýrslur, s.s. um ástand fiskveiða og stuðla að aukningu þeirra, stuðla að uppbyggingu eyðijarða og hefta ofnýtingu skóga og kjarrs. Í erindisbréfinu kemur skýrt fram að honum bar að búa í sýslunni og sinna skyldum sínum í eigin persónu í stað þess að veita öðrum umboð sitt.

Samkvæmt erindisbréfinu átti sýslumaður einnig að halda sérstakar manntals- og gjaldabók sem færa átti í upplýsingar um skatta, gjafatolla og tíund ásamt greiðslu þeirra. Þá skyldi hann halda gegnumdregna og innsiglaða bók og í færa í hana alla dóma, vitnisburði, afsöl og veð, makaskipta- og gjafabréf ásamt öðrum gjörningum réttarins.

Erindisbréfið sýnir að skjalavarsla var nokkuð fyrirferðamikill hluti verkefna sýslumanns undir lok 18. aldar. Bæði kom þar fram skylda sýslumanns til að halda ákveðnar bækur sem og skylda hans til að útbúa skýrslur til upplýsingar amtmönnum um hin ýmsu málefni sýslunnar.

Hægt er að lesa nánar um erindisbréf sýslumanna í rannsókn Helgu Jónu Eiríksdóttur á embættisfærslum sýslumanna á 19. öld hér á vefnum.

Helga Jóna Eiríksdóttir ritaði kynningartexta.

Erindisbréf Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns í Snæfellsnessýslu gefið út af Lafrentz amtmanni, 15. febrúar 1739