Enskumælandi vinnumaður og dagbókarritari

Október 2021

Enskumælandi vinnumaður og dagbókarritari

ÞÍ. E.98. Hákon Finnsson bóndi í Borgum í Hornafirði. Dagbækur 1897–1944.

Árið 2016 kom út bókin Frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði. Hún fjallar um ævi og störf Hákonar Finnssonar (1874–1946) en tveir afkomenda hans sáu um útgáfuna. Meginefni bókarinnar er ritað af Hákoni sjálfum og eru ríkulegar heimildir úr fórum hans varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands, þar á meðal dagbækur hans sem hér verður sagt frá.

Hákon Finnsson var fæddur á Brekkum á Rangárvöllum þar sem foreldrar hans voru bændur. Þau neyddust til að bregða búi árið 1876, þegar Hákon var tveggja ára gamall, þar sem sandfok hafði gert Brekkur óbyggilegar, og misstu þau þar aleigu sína. Næstu ár var Hákon með foreldrum sínum en síðan með föður sínum, sem var verkstjóri í Kirkjubæ á Rangárvöllum. Tíu ára gamall fór Hákon í vist til vandalausra og var í vistum á þremur bæjum á Rangárvöllum (ef frá er talin ársdvöl í Reykjavík 1891–1892), allt þar til hann fór í Möðruvallaskóla haustið 1896. Þaðan lauk hann prófi vorið 1898 sem dúx síns árgangs.

Saga Hákonar er um margt eftirtektarverð enda gefa heimildir þá mynd af honum að hann hafi verið óvenju fjölhæfur og afar eljusamur maður. Hann varð vinsæll kennari, afkastasamur við skriftir (sem hann þó stundaði í hjáverkum), fékkst við smíðar, var organisti og söngstjóri en starfaði þó lengstum við búskap. Hákon flutti til Austurlands árið 1898 og bjó á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði til 1919 (ef frá eru talin tæp tvö ár sem hann dvaldi erlendis) en flutti það ár til Hornafjarðar þar sem hann bjó þar sem eftir var ævinnar. Á árunum 1898–1904 og svo aftur eftir heimkomuna frá Danmörku og Bretlandi árið 1906 stundaði Hákon barna- og unglingakennslu öll árin fram til 1911. Fyrst var hann heimiliskennari en 1907–1911 hélt hann eigin ungmennaskóla, fyrst Seyðisfirði og síðar á Fljótsdalshéraði. Hákon náði að verða áberandi í mennta-, menningar- og félagslífi á Austurlandi án þess að eiga þar rætur eða frændgarð.

Hákon skrifaði dagbækur sem spanna árabilið 1897–1944 og eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Það er eftirtektarvert hversu nákvæmur Hákon var við færslu dagbóka sinna og á köflum ítarlegur. Dagbækur hvers árs eru á bilinu 200–300 blaðsíður í áttblöðungsbroti (8vo). Dæmigerð færsla hefst á stuttri veðurlýsingu, síðan frásögn af unnum störfum og endar á að tíunda tónlistaræfingar, lestur eða afþreyingu. Dæmi um nákvæmni Hákonar eru skráningar hans á veikindum, bæði eigin og síðar einnig eiginkonu sinnar, sem og á skemmtunum og afþreyingu á heimilum (t.d. getur hann þess oft að hafa verið við spilamennsku á kvöldin og þá kemur jafnan fram hvað var spilað og við hverja).

Þó dagbækur Hákonar séu líkt og margar aðrar dagbækur einkum skráning atburða og upplýsinga má líka finna í þeim færslur sem eru tilfinningaríkar, t.d. upplifanir á ferðalögum og frásögn Hákonar af því er hann hóf skólahald sitt á Seyðisfirði haustið 1907. Um þann viðburð skrifar hann í dagbókina 4. nóvember 1907:

„setti ég þá skólann minn unga og smáa með fleiri nemendum en eg nokkru sinni bjóst við.“

Þrátt fyrir nákvæmnina sjást þess líka dæmi að Hákon væri varfærinn í færslum í dagbókum sínum, stundum svo að erfitt er fyrir utanaðkomandi að átta sig á hvað nákvæmlega er átt við. Einnig sjást stöku setningar á ensku. Hvort tveggja má ætla að hafi verið öryggisráðstöfun, með það í huga að annað heimilisfólk gæti komist í dagbókina og lesið hana og því hafi Hákon ekki skráð viðkvæmar upplýsingar berort eða ítarlega, eða gert það með þeim hætti (á ensku) að ekki væri á færi hvers sem var að skilja það. Dæmi um þetta er þegar Hákon ræddi 15. september 1904 við húsbónda sinn, Halldór Benediktsson á Skriðuklaustri um fyrirhugaða ferð sína til Danmerkur og Bretlands:

„I spoke to him about my journey.“

Og einnig síðar (21. apríl 1907) þegar Hákon ræddi við Halldór um fyrirhugað brúðkaup sitt og Ingiríðar Guðmundsdóttur (1877–1946), vinnukonu á Skriðuklaustri:

„I spoke to the master about my marriage and he received me very kindly.“

Af vitnisburðum dagbóka Hákonar og öðrum heimildum um ævi hans má sjá að hann náði því markmiði sínu að njóta viðurkenningar austfirsku samfélagi. Þar hefur velvild áhrifamanna vafalítið verið honum mikill styrkur, ekki síst þegar hann fór að hasla sér völl í unglingakennslu og ryðja þar næsta óplægðan akur í austfirsku menntalífi. Hákon leitaði frama innan ríkjandi samfélagsgerðar og náði þar árangri sem er eftirtektarverður, ekki síst fyrir þær sakir að hann byrjaði með tvær hendur tómar bæði í efnalegu og félagslegu tilliti, sem fátækur aðkomumaður í framandi landshluta.

Hrafnkell Lárusson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Elísabet Baldvinsdóttir. „Hákon Finnsson.“ Gerpir 2 (desember 1948): 20–21.
  • Hákon Finnsson: Frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði, búið hafa til prentunar Karl Skírnisson og Hákon Hansson (Kópavogur: Karl Skírnisson og Hákon Hansson, 2016). [Útgefendur bókarinnar, Karl Skírnisson líffræðingur og Hákon Hansson dýralæknir, eru barnabörn Hákonar Finnssonar.]
  • Helgi Hallgrímsson. Fljótsdæla: mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi (Reykjavík: Skrudda, 2016).
  • Jónas Eiríksson. „Um unglingaskóla í Fljótsdalshéraði.“ Austri, 17. apríl 1909, 41.
  • ÞÍ. E.98. Hákon Finnsson bóndi í Borgum í Hornafirði. Dagbækur 1897–1944.
Hákon Finnsson - ungur
Úr dagbók Hákons Finnssonar í apríl 1907
Úr dagbók Hákons Finnssonar í nóvember 1907
Úr dagbók Hákons Finnssonar í nóvember 1907