Endurreisn Skólavörðunnar

September 2018

Endurreisn Skólavörðunnar

ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9.

Fyrr á öldum höfðu skólar og nemendur þeirra ýmsar hefðir og venjur, sem okkur kunna að koma á óvart, en ýmsar af þessum fornu hefðum lifa þó enn t.d. í sumum framhaldsskólum.

Biskupssetrin gegndu fyrr á öldum lykilhlutverki sem menntasetur landsins. Í svo gömlum stofnunum sköpuðust hefðir og venjur, sumar heimatilbúnar, en aðrar ef til vill innblásnar af námsefninu eða fengar að láni frá erlendum menntastofnunum.

Í Skálholti var skóli frá síðari hluta 11. aldar til ársins 1785, með hléum þó. Sá var siður í Skálholti að piltar mæltu sér mót að hausti þegar skóli var að hefjast. Þeir söfnuðust saman og riðu í fylkingu heim að staðnum. Á leiðinni áðu þeir og æptu heróp – sem nefnt var „signum“ og fengið að láni frá rómverskum herdeildum síns tíma. Við heimreiðina að Skálholti reistu þeir síðan vörðu, sem þeir nefndu Skólavörðu og var þar síðasta áningin áður en komið var að staðnum.

Árið 1785 var skólahald lagt af í Skálholti og skólinn fluttur til Hólavallar við Reykjavík. Skólapiltar héldu þó þeim sið að safnast saman og fara í fylkingu til skólans. Til að gera langa sögu stutta reistu þeir nýja skólavörðu á Arnarhólsholti sem þá hét, þar sem skólinn á Hólavelli blasti við þeim. Skólinn var enn fluttur til Bessastaða í byrjun 19. aldar og varðan á Arnarhólsholti varð veðri og vindum að bráð. Þó voru sumir sem töldu vel þess virði að viðhalda vörðunni og að forgöngu Kriegers stiftamtmanns var byggð upp ný varða, mun stærri og glæsilegri en sú sem áður hafði verið. Í framhaldinu var lagður stígur upp að vörðunni, sem fékk nafnið Skólavörðustígur.

Nýja skólavarðan var talsvert mannvirki, raunar hús frekar en varða. Á toppi hennar var trépallur með setubekkjum og varðan því tilvalinn útsýnisstaður yfir Reykjavík. Bæjarstjórn tók að sér viðhald vörðunnar, en ekki vildi þó betur til en svo að trévirkið fúnaði og loks hrundi varðan með öllu einn sumardag árið 1858.

Komum við þá að heimild mánaðarins, sem er dreifibréf frá árinu 1865 sem varðveitt er í einkaskjalasafni Árna Thorsteinssonar bæjarfógeta í Þjóðskjalasafni Íslands. Í bréfinu, sem hér er uppskrifað, eru bæjarbúar hvattir til að leggja til fjármuni til endurbyggingar vörðunnar. Þá eru í skjalasafninu margvísleg gögn varðandi byggingu vörðunnar en hún var loks endurreist árið 1868 og varð bæjarprýði. Engin hús skyggðu á hana og hún var vinsæll viðkomustaður jafnt heimamanna sem ferðamanna. Afdrif Skólavörðunnar voru næsta sorgleg. Varðan var rifin árið 1931 og vék fyrir minnismerki um Leif heppna sem gefið var af bandarísku þjóðinni til að minnast Ameríkuferðar hans.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.
Björk Ingimundardóttir skrifaði upp texta dreifibréfsins.

Heimildir

  • Árni Óla, „Brotnar eru borgirnar II“, Lesbók Morgunblaðsins 26. maí 1979, bls. 4.
  • Guðlaugur R. Guðmundsson, Skólalíf. Starf og siðir í Latínuskólunum á Íslandi 1552-1846, Reykjavík, 2000.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift dreifibréfsins.

 

Blýantsriss af Skólavörðunni er í gögnunum, en harla dauft. <em>ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9</em>.
Alls skráðu 38 manns sig á lista undir bréfinu og lofuðu allir peningagreiðslum, nema einn hét 4 dagsverkum. Rausnarlegastir allra voru Árni Thorsteinson og Hilmar Finsen stiftamaður, sem lofuðu 10 ríkisdölum hvor eða tvöfalt á við þá, sem næstir komu. <em>ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9</em>.
Alls skráðu 38 manns sig á lista undir bréfinu og lofuðu allir peningagreiðslum, nema einn hét 4 dagsverkum. Rausnarlegastir allra voru Árni Thorsteinson og Hilmar Finsen stiftamaður, sem lofuðu 10 ríkisdölum hvor eða tvöfalt á við þá, sem næstir komu. <em>ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9</em>.
Alls skráðu 38 manns sig á lista undir bréfinu og lofuðu allir peningagreiðslum, nema einn hét 4 dagsverkum. Rausnarlegastir allra voru Árni Thorsteinson og Hilmar Finsen stiftamaður, sem lofuðu 10 ríkisdölum hvor eða tvöfalt á við þá, sem næstir komu. <em>ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9</em>.
Alls skráðu 38 manns sig á lista undir bréfinu og lofuðu allir peningagreiðslum, nema einn hét 4 dagsverkum. Rausnarlegastir allra voru Árni Thorsteinson og Hilmar Finsen stiftamaður, sem lofuðu 10 ríkisdölum hvor eða tvöfalt á við þá, sem næstir komu. <em>ÞÍ. Einkaskjalasafn Árna Thorsteinssonar E/273-9</em>.
Skólavarðan í Reykjavík.