Eldgosið grimma og móðuharðindin 1783–1785

Maí 2021

Eldgosið grimma og móðuharðindin 1783–1785

Rentukammer 1928 – B10/6, örk 21.

„1783 þann 8. Junii á hvítasunnuhátið gaus hér eldur upp úr afréttarfjöllum, sem eyðilagði land, menn og skepnur með sínum verkunum nær og fjær“. Með þessum orðum lýsti Jón Steingrímsson (1728–1791), prófastur á Kirkjubæjarklaustri, upphafi Skaftárelda. Fyrirboðar gossins voru sterkir jarðskjálftar, vöxtur í Skaftá og bláleit reykjarmóða yfir afréttunum sem sást af hafi úti. Enginn gat þó gert sér í hugarlund hvaða ósköp væru í uppsiglingu en gosið var mjög öflugt og stóð í yfir átta mánuði. Lakagígar, sem er röð gosgígja, mynduðust, samtals 27 km. Þeir spúðu eldi og gufu af krafti svo að strókarnir náðu einn til tvo kílómetra upp í himinhvolfið. Skaftáreldar og móðuharðindin sem fylgdu gosinu stóðu í heildina yfir á árunum 1783–1785. Nístingskuldi ríkti og jarðir fóru víða í eyði.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar heimildir er greina frá aðstæðum landsmanna á þessum neyðartímum. Meðal þeirra eru skýrslur embættismanna dönsku krúnunnar, einkum amtmanna og sýslumanna, til Rentukammers í Kaupmannahöfn. Jón Jakobsson (1738–1808), sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, ritaði reglulega skýrslur til stjórnvalda á þessum örlagaþrungnu tímum. Sú skýrsla, sem hér er kynnt, ber yfirskriftina „Underdanigst Pro Memoria! Om Øefiords Syssels nærværende Tilstand“ og var skrifuð á upphafsskeiði móðuharðinda, dagsett 23. september 1783. Þá hafði gosið staðið yfir í rúma þrjá mánuði og grafalvarlegar afleiðingar þess voru að renna upp fyrir fólki. Í skýrslunni er einnig fjallað um ýmisleg umbótaverk sem komin voru í framkvæmd áður en gosið hófst. Jón tjáði yfirvöld t.d. að matjurtaræktun væri hafin í Eyjafirði en uppskera hefði verið lítil um sumarið vegna mikilla kulda og að sjómenn væru áhugasamir um hvalveiðar með nútímalegum veiðarfærum. Nauðsynjavarningur eins og korn hefði verið ófáanlegur í kaupstað um sumarið en Sörensen skipstjóri á húkkertunni Isefiord sem komin var til hafnar hefði þó nýlega bætt úr því, en farmur skipsins var m.a. mjöl og korn.

Lýsing Jóns sýslumanns á því hvernig umhorfs var fyrstu vikur gossins hljóðar svo í íslenskri þýðingu: „Loftið myrkvaðist af eldi og brennisteini og dökk gufuslæða fyllti sjóndeildarhringinn. Hún varð sífellt dekkri og hafði þau áhrif að sólin náði jafnvel ekki að brjótast í gegnum þykka huluna þó óskýjað væri.“ Af þessum sökum kólnaði skyndilega svo að grasvöxtur brást. Ekki bætti úr skák að 17. júní tók smáögnum, sem ollu brunatilfinningu í augum, að rigna niður. Andþrengsli og höfuðverkur hrjáðu og marga í eiturkófinu að sögn Jóns sýslumanns. Ekki þarf að undra að umskiptin höfðu áhrif á sálarlíf fólks. Jón kvað áhyggjuefni að sumir hefðu fallið í „en sterk Melancholie“ með voveiflegum afleiðingum í einstaka tilfellum. Taldi Jón að rekja mætti helstu ástæður þunglyndisins til þess að myrkrið hefði verið gegndarlaust og reykjarmóðan og þokan gert illt verra. Ofan á þetta lagðist hungur.

Þá greindi Jón frá því í skýrslunni að nokkrir þrautreyndir sjómenn á þremur bátum hefðu lent í hafvillum í byrjun september og hefðu þeir allir farist. Eiginkonur þeirra stæðu nú einar með ung börn á framfæri og byggju við hinar aumustu aðstæður. Í ritinu Skaftáreldar 1783–1784, þar sem birtar eru ýmsar heimildir embættismanna til yfirvalda í Kaupmannahöfn frá tímum Skaftárelda og móðuharðinda, eru tvær aðrar skýrslur frá Jóni. Þar kvartar sýslumaður yfir dýrtíð, gæftaleysi, hafís, búfjárfelli og vöruskorti svo nokkuð sé nefnt en segir einnig frá því að matjurtarækt hafi gengið vel hjá honum sumarið 1784.

Jón Eiríksson konferensráð, sem starfaði í Rentukammeri og las skýrslurnar frá íslensku embættismönnunum, var bjartsýnn á framtíðina á Íslandi. Allar þær skýrslur sem Rentukammerið hefði fengið frá því að gosið hófst sýndu að mati Jóns að fólk var þrátt fyrir allt vongott um betri tíð. Jón taldi árið 1785 að forsendur slíkrar bjartsýni mætti „regne noget paa“.

Þó var augljóst að neyðin hafði sett mark sitt á fólkið í landinu. Ummæli skoska trúboðans Ebenezers Henderson, sem dvaldi á Íslandi frá 1814–1815 og skrifaði merkilegt rit um dvöl sína, íslenska sögu, náttúrufar og menningu, eru til vitnis um það. Hann tók eftir því að rúmlega þremur áratugum eftir móðuharðindin voru atburðirnir enn greiptir í sálir landsmanna. Afleiðingarnar voru „svo margvíslegar, hræðilegar og dapurlegar, að af bar, og eimir eftir af sumum þeirra enn í dag“, skrifaði Henderson.

Skelfingin og ringulreiðin sem gripið hafði um sig þar sem aðstæður voru verstar gleymdust ekki. Hannes Finnsson biskup í Skálholti lýsti hörmungunum á tímum móðuharðinda, en tæplega fimmtungur landsmanna lést, með eftirfarandi hætti í ritgerð sem bar yfirskriftina Af mannfækkun af hallærum: „sumstaðar dóu faðir og móðir frá börnunum; fundust svo börnin nær dauða komin og sum út af dáin, þegar einhvör af öðrum bæ kom af hendíngu að“. Árin tvö meðan á móðuharðindum stóð, og aska og brennisteinsmóða fylltu andrúmsloftið, voru fyrir marga grimm og sorgleg þrautaganga.

Eldgosið á Íslandi sýndi klærnar víðar um lönd. Hár styrkur brennisteins í gosinu hafði þær afleiðingar að móðan, sem hafði að geyma brennistein og fleiri gosefni, náði langt út fyrir landsteinana. Brennisteinninn barst um jarðarkringluna með háloftavindum (í 9–13 km hæð). Áhrifa gossins gætti í Evrópu, þar sem kuldi og móða færðust yfir sumarið 1783. Í Norður-Afríku og Asíu varð áhrifa sömuleiðis vart en ójafnvægi komst á reglubundnar hitabeltisrigningar. Á austurströnd Norður-Ameríku kólnaði einnig mjög skyndilega haustið 1783 þegar brennisteinssveimur frá Íslandi lagðist yfir. Í Færeyjum, Noregi og skosku hálöndunum mátti einnig merkja áhrifin á jörðu niðri þar sem ösku og vikri rigndi niður. Nokkrir evrópskir vísindamenn, sem fylgdust af athygli með því hvernig sólarljósið breyttist og sólin varð blóðrauð svo varla sást til hennar á köflum, bentu á tengsl þessa við Ísland og Skaftárelda.

Mynd á titilsíðu rits Carls Pontoppidan Samlinger Til Handels Magazin for Island
Mynd á titilsíðu rits Carls Pontoppidan Samlinger Til Handels Magazin for Island sem kom út skömmu eftir móðuharðindi árið 1787–1788.

Vísindamenn sáu fljótlega að áhrifamáttur íslenska eldgossins var tröllaukinn. Eldfjallið tilkomumikla Vesúvíus á Ítalíu, sem var viðkomustaður á ferðum hástéttarfólks um Evrópu á átjándu öld, væri að því er virtist ekki nándar nærri eins ægilegt og Lakagígar. Allir vissu þó eftir að rústir borgarinnar Pompeii (sem lagðist undir ösku árið 79. e. Kr.) fundust í upphafi átjándu aldar að fjallið var hættulegt og aðeins var liðinn rúmur áratugur frá öflugu gosi (1768). Það vekur upp áleitnar spurningar um seiðmagn og aðdráttarafl eldfjalla að á sama tíma og Skaftáreldar geisuðu á Íslandi og eldi og brennisteini rigndi niður var farið í lautarferðir á Vesúvíus þar sem fólk naut þess að virða fyrir sér gosgíginn og ægilega náttúru. Enginn vogaði sér aftur á móti á þessum árum ótilneyddur að gosstöðvunum á Íslandi.

Margrét Gunnarsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

 • ÞÍ. Rentukammer 1928 – B10/6, örk 21.
 • Hannes Finnsson, Mannfækkun af hallærum, Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal sáu um útgáfuna (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1970), bls. 119.
 • Henderson, Ebenezer, Ferðabók. Frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík, þýð. Snæbjörn Jónsson (Reykjavík: Snæbjörn Jónsson, 1957), bls. 171.
 • Jón Eiríksson, „Minnisgreinar Jóns Eiríkssonar um móðuharðindi“, Skaftáreldar 1783–1784. Ritgerðir og heimildir, ritnefnd Gísli Ágúst Gunnlaugsson o.fl. (Reykjavík: Mál og menning, 1984), bls. bls. 434.
 • Jón Steingrímsson, Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar. Eftir sjálfan hann (Helgafell, Reykjavík 1945), bls. 182.
 • McCallam, David, Volcanoes in eighteenth-century Europe. An essay in environmental humanities, Oxford University studies in the Enlightenment (Oxford: Liverpool University Press, 2019).
 • Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1950), bls. 161–162.
 • Pontoppidan, Carl, Samlinger Til Handels Magazin for Island, I–II (Kiöbenhavn 1787–1788).
 • Magnús Stephensen, Kort Beskrivelse over den nye Vulcans Ildsprudning i Vester-Skaptefields-Syssel paa Island i Aaret 1783 (Kiøbenhavn: Nicolaus Møller, 1785).
 • Sæmundur Magnússon Hólm, Om Jordbranden paa Island i aaret 1783 (Kiøbenhavn: Peder Horrebow, 1784).
 • „Um ástand Íslands frá september 1783 til október 1784“, Skaftáreldar 1783–1784. Ritgerðir og heimildir, ritnefnd Gísli Ágúst Gunnlaugsson o.fl. (Reykjavík: Mál og menning, 1984), bls. 374–377, 394–397.

 

Skýrsla Jóns Jakobssonar (1738-1808) sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, "Underdanigst Pro Memoria! Om Øefiords Syssels nærværende Tilstand", dagsett 23. september 1783.
Skýrsla Jóns Jakobssonar (1738-1808) sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, "Underdanigst Pro Memoria! Om Øefiords Syssels nærværende Tilstand", dagsett 23. september 1783.
Skýrsla Jóns Jakobssonar (1738-1808) sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, "Underdanigst Pro Memoria! Om Øefiords Syssels nærværende Tilstand", dagsett 23. september 1783.
Skýrsla Jóns Jakobssonar (1738-1808) sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, "Underdanigst Pro Memoria! Om Øefiords Syssels nærværende Tilstand", dagsett 23. september 1783.