Eldgos í Vestmannaeyjum. Stofnun Viðlagasjóðs

Febrúar 2021

Eldgos í Vestmannaeyjum. Stofnun Viðlagasjóðs

ÞÍ. Viðlagasjóður. afh. 1989-39, 1997-66 EC/1, 2

Þann 23. janúar 1973 gerðist það sem margir töldu ómögulegt. Eldgos hófst í Heimaey. Með ólíkindum þykir og mikil mildi að enginn hafi látið lífið eða slasast alvarlega þá nótt sem gosið hófst. Margar frásagnir segja frá þeirri ró sem var yfir fólki þegar það gekk niður að höfn um nóttina og í bátana sem flest allir lágu við bryggju vegna slæmrar veðurspár daginn áður.

Eftir stóð heilt bæjarfélag, yfir 5000 manns, sem voru án heimilis, atvinnu, skóla og félagslegra úrræða. Margir íbúanna áttu ættingja og vini víðsvegar um landið, sem þau gátu farið til. Aðrir þáðu boð frá ókunnugum, sem höfðu boðið húsaskjól en það var auðvitað bráðabirgðaúrræði og ljóst að varanlegra húsnæði þyrfti að finna. Þá þurfti að huga að atvinnu fyrir fjölda fólks sem og skóla fyrir börnin og annarra félagslegra úrræða. Ljóst var að björgunarstarf í Vestmannaeyjum yrði tímafrekt og kostnaðarsamt og fátt hægt að gera þar fyrr en eldgosinu lyki.

Meðal þess sem stjórnvöld gerðu í upphafi var að setja lög um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey nr. 4/1973 þar sem stofnaður var sérstakur Viðlagasjóður sem átti að halda utan um björgunar- og uppbyggingastarf vegna náttúruhamfaranna. Verkefni sjóðsins var samkvæmt lögunum í fjórum liðum.

  1. Að tryggja hag Vestmannaeyinga og stuðla að vernd og endurreisn byggðar þeirra.
  2. Að greiða kostnað vegna björgunarstarfs, flutninga og röskunar á högum vegna eldsumbrotanna í Vestmananeyjum.
  3. Að bæta tekjumissi og eignatjón af völdum eldgossins á Heimaey.
  4. Að draga úr áhrifum náttúruhamfara í Vestmannaeyjum á afkomu og atvinnulíf Vestmannaeyinga og þjóðarheildarinnar og gera hvers konar fjárhagsráðstafanir í þessu skyni.

Meðal verkefna sjóðsins var því að minnka skaðann af gosinu eins og unnt væri en eitt þekktasta dæmið er líklega aðgerðir við björgun hafnarinnar. Sjóðurinn stóð að því að meta eignartjón og greiða bætur, einnig að kaupa og setja upp einingahúsnæði fyrir Vestmannaeyinga bæði í Heimaey og annarsstaðar á landinu.

Skjalasafn Viðlagasjóðs er varðveitt í Þjóðskjalasafni og er þar að finna ýmsar heimildir um starfsemi sjóðsins. Þar eru til að mynda fundagerðir nefndarinnar, sölubæklingar frá fyrirtækjum sem seldu einingahús og margt fleira sem tengdist verkefnum sjóðsins.

Sjóðurinn var að mestu fjármagnaður af ríkissjóði með fjármögnun uppá 160 milljónir, atvinnuleysissjóður bætti við öðrum 160 milljónum og síðan var sett á svokallað viðlagagjald sem lagðist tímabundið á nokkra skattstofna, sem voru söluskattur, aðstöðuskattur, tekju- og eignarskattur og útsvar. En einnig bættust við gjafir og frjáls framlögum frá innlendum og erlendum aðilum sem gáfu til sjóðsins.

Listi yfir þá sem gáfu til sjóðsins er í skjalasafni Viðlagasjóðs og er merki um samhug þjóða og einstaklinga gagnvart Vestmanneyingum sem stóðu í ströngu. Það er ótrúlegt hversu víða fréttir af gosinu fóru. Þeir fyrstu sem gáfu til sjóðsins voru frændur okkar Færeyingar (Föroya Gjaldstova) sem gáfu 10 milljónir íslenskra króna (6. febrúar 1973. Dagsetningar verða skrifaðar í sviga fyrir aftan). Á listanum eru fyrirtæki víðsvegar um heiminn eins og Schweis Aluminum (9/2) og Tokyo Maruichi Shopi Co. (28/2), og samskot frá nemendum t.d. frá Stateus-Fagskole for Fiskindustri í Vardö í Norður Noregi (27/2) Cummer Ave. Elementary School í Kanada (4/4).

Listinn inniheldur einstaklinga sem óráðið er að vita hvaðan koma nema út frá nafni og gjaldmiðli. Upphæðirnar eru vissulega misháar, „gamall sjómaður“ er skrifaður fyrir tæpri milljón (19/2), „tvær aldraðar systur í Kaupmannahöfn“ (21/3) gáfu hálfa milljón íslenskra króna og maður að nafni Marwin H. Gaskell gaf einn bandarískan dollar eða rúmar 2000 kr (22/2). Þá eru peningar frá „söfnun á vegum Equipe Vulcain“ (14/5), kirkjugestum í Skjåk (2/7), „Íslendskvöld Falconercentret á Friðriksbergi“ (1/8) og ágóði hljómleika í Stokkhólmi (1/8).

Þjóðir heims eru skráðar fyrir þónokkrum upphæðum, ríkisstjórn Danmerkur (15/2 og 13/4), Sviss (5/4), Ítalíu (8/6), Noregs (3/8) og landsþing Álandseyja (1/8) eru á blaði. Athyglisvert er að sjá ríkisstjórnir þjóða eins og Suður-Kóreu (27/2), Ísraels (8/6), Bresku Kólumbíu (4/4) og Norður-Kóreu (19/3) gefa upphæðir, sem sýnir hvað heimurinn er í raun lítill og fréttir af þessum atburðum hefur farið víða. Frá 6. febrúar til 28. ágúst 1973 safnaðist rúmur milljarður íslenskra króna eða 1.029.401.546,70 kr. í frjálsum framlögum. Listinn yfir þá sem gáfu til sjóðsins, gefur til kynna margar smáar sögur af framtaksemi einstalinga, félaga, vinnustaða, smærri bæjarfélaga og jafnvel þjóða sem létu fé af hendi rakna og hugsuðu hlýtt til Vestmannaeyinga sem höfðu misst svo mikið. Óhætt er að segja að samtakamáttur heimsins hefur verið einstakur og samkennd með Vestmannaeyingum vart átt sinn líka.

Helga Hlín Bjarnadóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Viðlagasjóður. afh. 1989-39, 1997-66 EC/1, 2.
  • Lög nr. 4/1973 um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey.
  • Guðbjörg Helgadóttir, „Fjölskyldur á flótta, áhrif eldgossins á Heimaey 1973 á íbúa hennar“. BA ritgerð frá Háskólanum á Akureyri 2011, https://skemman.is/handle/1946/9521, sótt 29.12.2020.
  • „Heimaeyjargosið“, Heimaslóð, http://www.heimaslod.is/index.php/Heimaeyjargosi%C3%B0, sótt 29.12.2020.

 

Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.
Greiðslur og gjafir til Viðlagasjóðs.