Brot úr íslenskri fánasögu

Júlí 2013

Brot úr íslenskri fánasögu

Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa. Db. 4, nr. 36.

Skjal mánaðarins er konungsúrskurður um að Íslendingar skyldu hafa sérstakan fána innanlands og á skipum í landhelgi en í ár eru liðin 100 ár síðan hann var gefinn út. Þó konungur hafi ekki ákveðið hvernig fáninn skyldi líta út fyrr en 19. júní 1915 og þó hið svokallaða fánamál yrði ekki endanlega til lykta leitt fyrr en Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1944 þá var hér um að ræða mikilvægan áfangasigur í málinu.

Rekja má sögu þess aftur til Jörundar hundadagakonungs sem gaf Íslendingum nýjan fána árið 1809. Sá fáni hvarf hins vegar af sjónarsviðinu á sama tíma og Jörundur og segja má að málið hafi ekki hafist fyrir alvöru fyrr en árið 1897 þegar Einar Benediktsson lagði til að Íslendingar skyldu taka upp bláhvítan þjóðfána. Íslendingar voru hrifnir af hugmynd Einars og varð hvítbláinn svokallaði að óformlegum fána landsins á næstu árum. Þeirri stöðu hélt hann til 12. júní 1913 er Einar Pétursson ákvað að róa um Reykjavíkurhöfn með fánann í skut bátsins. Því vildi skipstjóri danska varðskipsins Islands Falk ekki una enda taldi hann að Einar réri undir fána sem skip og bátar í hinu danska konungsveldi mættu ekki nota og gerði því fánann upptækan. Sú aðgerð hleypti illu blóði í bæjarbúa og drógu margir þeirra hvítan og bláan fána að húni til þess að mótmæla henni.

Þar með var fánamálið orðið að hitamáli hjá landsmönnum og var rætt á næsta Alþingi nokkuð sem leiddi til þess að konungur gaf út tilskipun 22. nóvember 1913 um að Íslendingar skyldu fá sérfána. Þrátt fyrir vinsældir hvítbláa fánans þá varð hann ekki fyrir valinu því Kristjáni 10. Danakonungi þótti hann of líkur gríska konungsfánanum og samþykkti þess í stað fána sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi stungið uppá árið 1906 en sá var heiðblár með hvítum krossi og rauðum krossi inni í þeim hvíta.

Kristinn Valdimarsson ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir

  • Einar Laxness. 1995. ÍSLANDSSAGA - 1. bindi - a-h. Vaka-Helgafell hf. Reykjavík.
  • Helgi Skúli Kjartansson. 2003. Ísland á 20. öld. Sögufélag. Reykjavík.
  • Illugi Jökulsson o.fl. 2004. Ísland í aldanna rás 1900-2000 - öldin öll í einu bindi. JPV útgáfa. Reykjavík.

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

Hér að neðan er hægt að sækja uppskrift af texta skjalsins.

Konungsúrskurður um sérstakan íslenskan fána. ÞÍ
Konungsúrskurður um sérstakan íslenskan fána. ÞÍ