Bréfhausar úr Hagsögusafni

Nóvember 2019

Bréfhausar úr Hagsögusafni

Undanfarið ár hefur verið unnið hörðum höndum að skráningu og frágangi á svonefndu Hagsögusafni í Þjóðskjalasafni Íslands. Hagsögusafn er í raun safnheiti yfir fjölda smærri og stærri safna, sem hafa að geyma skjalasöfn ýmissa verslana, félaga og fyrirtækja, sem starfað hafa á Íslandi.

Hagsögusafn hefur að geyma skjöl og skjalabækur rúmlega 300 verslana, félaga og fyrirtækja. Elstu skjölin eru frá seinustu áratugum 18. aldar og þau yngstu frá seinni hluta þeirrar tuttugustu.

Nú hillir undir að vinnu við Hagsögusafn ljúki þegar vel á annað hundrað skrár úr Hagsögusafni hafa ratað á vef Þjóðskjalasafns, sjá nánar.

Skjöl og skjalabækur í Hagsögusafni bjóða upp á nær óþrjótandi rannsóknarmöguleika á mörgum þáttum í verslunarsögu Íslands á 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Innan Hagsögusafns rúmast skjalasöfn stórverslana á borð við Thomsensverslun og Ásgeirsverslun, ásamt minni verslunum sem voru og eru enn þann dag í dag þekktar. Þar mætti nefna Fischersverslun, Duusverslun og Clausensverslun.

Í Hagsögusafni leynast einnig leifar af starfsemi verslana sem fæstir þekkja til í dag; Gudmannsverslun, verslun Tage og F. C. Möller, verslun C. A. Hemmert og fleiri.

Þá eru ónefnd ýmis félög og fyrirtæki sem kunna að koma mönnum spánskt fyrir sjónir nú til dags. Hefur einhver heyrt minnst á Kolanámufélagið Surt hf.? Eða Sápuverkið í Reykjavík? En hvað með Vargafélagið? Skjalaskrár þessara félaga eru komnar á vef Þjóðskjalasafns, hvar áhugasamir geta kynnt sér innihald þeirra nánar.

Það er ýmislegt eftirtektarvert og forvitnilegt sem kemur fyrir sjónir þeirra sem kanna það fjölbreytta efnisinnihald sem söfnin í Hagsögusafni hafa að geyma. Eitt af því eru bréfahausar íslenskra verslana og fyrirtækja frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Hér á síðunni má sjá nokkur sýnishorn.

Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta.

Reikningur frá Baldvini Einarssyni aktýgjasmið.
Efnagerð Reykjavíkur.
Slippfélagið.
Ræsir hf.
H.f. Egill Vilhjálmsson.
Bifreiðastöðin Hreyfill.
Gosdrykkjaverksmiðja Seyðisfjarðar.
Sanitas. Gosdrykkja- og aldinsafagerðin.
P. Stefánsson.