Bréf til jólasveinsins

Desember 2013

Bréf til jólasveinsins

ÞÍ. Póstminjasafnið.

Í skjalasafni Pósts og síma, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands, er að finna þúsundir bréfa til jólasveinsins. Póstur og sími tók að sér, fyrir hönd jólasveinsins, að hafa umsjón með pósti til hans á Íslandi. Póststofnanir hinna Norðurlandanna höfðu sama hlutverk hver í sínu landi en bréf til jólasveinsins bárust til allra Norðurlandanna.

Börn allstaðar að úr heiminum sendu jólasveininum á Íslandi bréf með óskalista um hvað þau viltu helst fá í jólagjöf. Bréfin eru afar skemmtilegar heimildir og sýna á einlægan hátt trú barna á jólasveininn og óskir þeirra um jólagjafir.

Í skjalasafni Pósts og síma virðast aðeins hafa varðveist bréf til jólasveinsins frá börnum á Bretlandseyjum sem send voru fyrir jólin 1997 en þetta hlutverk rækti þó Póstur og sími í áratugi. Um miðja síðustu öld bárust jólasveininum á Íslandi tugþúsundir bréfa ár hvert og hefur líklega enginn nokkurn tíma fengið eins mikinn bréfpóst og jólasveinninn. Allur bréfpóstur sem stílaður var á jólasveininn á Íslandi fór til Pósts og síma þar sem bréfin voru opnuð. Fyrst um sinn svöruðu starfsmenn póstsins bréfunum en þegar þau voru orðin of mörg var því hætt. Íslandspóstur hf., sem varð til þegar Pósti og síma var skipt upp í tvö fyrirtæki árið 1998, fær enn fjölda bréfa á ári hverju frá erlendum börnum sem eru að senda jólasveininum á Íslandi jólagjafaóskir.

Bréfin til jólasveinsins eru fjölbreytt, allt frá því að vera langur óskalisti jólagjafa til nokkurra orða til jólasveinsins auk þess sem að í flestum bréfanna var auðvitað staðhæft að viðkomandi hefði verið þæg(ur) og stillt(ur) allt árið. Árið 1997 var t.d. vinsælt að biðja um í jólagjöf kvikmyndir á myndbandsspólum, geislaspilara, varning tengdri bresku hljómsveitinni Spice Girls og fyrir yngri kynslóðina og allt tengt Stubbunum (Teletubbies) sem var þá vinsælt sjónvarpsefni. Í bréfunum sögðust mörg barnanna ætla að skilja eftir í stofunni svolítinn mat fyrir jólasveininn þegar hann kæmi og gulrætur handa hreindýrunum. Í einu bréfinu sagðist Jamie, 9 ára drengur frá Bretlandi, óska sér að fá í jólagjöf reiðhjól og súkkulaði. Jafnframt sagðist hann ætla að skilja eftir viský, ávaxtaböku og gulrætur þegar jólasveinninn kæmi.

Utanáskriftir umslaganna eru líka fjölbreyttar en öll vísa þau á Norðurpólinn á Íslandi og jafnvel til Verkstæðis jólasveinsins (Santa‘s Grotto) þar sem gjafirnar eru búnar til.

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Morgunblaðið 18. desember 1958, bls. 6.
  • ÞÍ. Póstminjasafnið.

 

Sýnishorn umslaga utan um bréf send jólasveininum
Sýnishorn umslaga utan um bréf send jólasveininum
Bréf frá Steven
Bréf frá Rebeccu
Bréf frá Töru
Bréf frá Kayleigh
Bréf frá Jamie
Bréf frá Rachel