Bíla- og vagnasmiðja Kristins Jónssonar

Ágúst 2014

Bíla- og vagnasmiðja Kristins Jónssonar

ÞÍ. Sögusafn Verkalýðshreyfingarinnar/ASÍ, A-42, 90/1.

Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir skjöl Sögusafns verkalýðshreyfingarinnar, sem stofnað var af Alþýðusambandi Íslands í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands. Föstudaginn 16. janúar árið 2002 var stofnskrá Sögusafnsins undirrituð við athöfn í Listasafni ASÍ, Ásmundarsal, en stofnskráin var undirrituð af Grétari Þorsteinssyni forseta ASÍ og Ólafi Ásgeirssyni þjóðskjalaverði. Tilgangur safnsins var að efla verkalýðsfélög á Íslandi og safna saman skjölum og gögnum sem snertu sögu þeirra ásamt því að stuðla að rannsóknum á sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar.[1] Skjalasafnið var afhent Þjóðskjalasafni í kjölfar undirritunarinnar á stofnskránni.

Safnið er nokkuð umfangsmikið, u.þ.b. 260 hillumetrar og þar kennir ýmissa grasa. Nefna má teikningasafn Kristins Jónssonar sem á árunum 1904 til 1957 rak Bíla- og vagnasmiðju Kristins Jónssonar sem fyrst fyrirtækja á Íslandi smíðaði vagna og síðar yfirbyggingar á bifreiðar.[2] Kristinn er talinn hafa innleitt vagnöldina á Íslandi en hann segir sjálfur svo frá upphafi vagnsmíði sinnar. "Árið 1904 kom Sigurður heitinn Sigurðsson, sem þá var búnaðarráðunautur, til mín og spurði hvort ég vildi ekki taka að mér að gera við og smíða hestvagna fyrir bændur og hafa til þess opið verkstæði. Þörfin væri orðin mikil fyrir vagnasmíði." Kristinn byrjaði undurbúning að smíði vagna árið 1904 og hófst framleiðsla í apríl mánuði það ár.[3] Fyrst um sinn voru einungis smíðaðir vagnar sem hestar drógu og smíðaði Kristinn alla vagna sem landsmenn þurftu, hvort sem um var að ræða flutningskerrur, kerrur undir áburðardreifara eða póstvagna sem settu svip sinn á fyrstu ár 20. aldarinnar.

Kristinn fylgdist þó vel með þróuninni í samgöngumálum en á öðrum áratug 20. aldarinnar, sérstaklega eftir fyrri heimsstyrjöldina, hóf bifreiðin inngöngu sína á Íslandi. Kristinn var þekktur fyrir hagleikssmíðar sínar og var hann fenginn til að byggja traustar yfirbyggingar á fyrstu bílana sem komu til landsins. Hægt var að fá yfirbyggingar úr tré, stáli eða áli.[4] Kristinn er talinn hafa smíðað yfirbyggingu á bifreið árið 1919 og benda líkur til þess að um hafi verið að ræða vörubíl af tegundinni Ford, en sá bíll var notaður í hráefnisflutninga fyrir lýsisbræðslu og var hann í eigu Emils Rokstads og Jes Zimsen kaupmanns.[5]

Fyrst um sinn smíðaði Kristinn einungis yfir fólksflutningabifreiðar og vöruflutningabifreiðar en í seinna stríði kom varnarliðið með fjölmarga jeppa til landsins og byggði Kristinn yfir fyrsta Willys jeppann sem seldur var frá varnarliðinu og voru jeppahúsin svokölluð fulningshús smíðuð úr birki. Árið 1954 var farið að nota álprófíla í hurðir jeppahúsanna þó svo að grindurnar hafi verið úr tré.. Seinna var farið að klæða þær með stáli og enn síðar áli. Árið 1956 véku svo trégrindurnar og farið var að nota álprófíla í alla grindina fyrir jeppahúsin, sem kölluð voru Kristinshús, og voru þau þá eingöngu úr áli.[6] Árið síðar eða árið 1957 var byrjað að flytja inn svokallaða rússajeppa og tengist heimild mánaðarins þeim jeppum og yfirbyggingu á þeim. Um er að ræða teikningar fyrir „Hús á rússneskan jeppa“ og hvaða efni eigi að nota í það eins og sést í textaboxinu á fyrri myndinni, sem staðsett er neðst í vinstra horni teikningarinnar.

Álprófílarnir, sem notaðir voru í grind húsanna, eru merktir með númerum inn á teikninguna á fyrri myndinni og getið um hversu marga skuli nota. Til að sjá hverskonar prófílar þetta voru þarf að líta á seinni myndina sem útskýrir hvernig prófílarnir líta út, mál þeirra og hversu margir þurfa að fara í tiltekið hús.

__________________

  1. Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árin 2001 og 2002, bls 50.
  2. Haukur Már Haraldsson, Ögmundur Helgason, Hugvit þarf við hagleikssmíðar, bls. 134. „Vagnasmiðja Kristins Jónssonar 50 ára“, Mbl 41. árg. 80. tbl bls. 6.
  3. Haukur Már Haraldsson, Ögmundur Helgason, Hugvit þarf við hagleikssmíðar, bls. 93.
  4. „Vagnasmiðja Kristins Jónssonar 50 ára“, Mbl 41. árg. 80. tbl bls. 6.
  5. Haukur Már Haraldsson, Ögmundur Helgason, Hugvit þar við hagleikssmíðar, bls. 127-8.
  6. Haukur Már Haraldsson, Ögmundur Helgason, Hugvit þarf við hagleikssmíðar, bls. 133-134.

Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Haukur Már Haraldsson, Ögmundur Helgason, Hugvit þarf við hagleikssmíðar : frætt um farartæki og ferðabúnað ásamt kafla um glerslípun og speglagerð. Safn til iðnsögu Íslendinga. Ritstj. Jón Böðvarsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1992), bls. 93-134.
  • Skýrsla forseta um störf Alþýðusambands Íslands árin 2001 og 2002. Ritstj. Guðmundur Rúnar Árnason (Reykjavík: ASÍ 2002), bls. 50.
  • „Vagnasmiðja Kristins Jónssonar 50 ára“, Morgunblaðið 6. apríl, bls. 6.
Teikningar fyrir hús á rússneskan jeppa
Teikningar fyrir hús á rússneskan jeppa, álprófílar
Rússajeppi eftir yfirbyggingu hjá Kristni vagnasmið