Benjamörk Krists koma fram á vistmanni Hörgslandsspítala á fyrri hluta 18. aldar

Nóvember 2021

Benjamörk Krists koma fram á vistmanni Hörgslandsspítala á fyrri hluta 18. aldar

ÞÍ. Biskupsskjalasafn A. VIII, 6. Skjöl um Hörglandsspítala 1715–1801. Örk 1, bl. 3r–6v

Friðrik III. fyrirskipaði með konungsbréfi, dagsettu 10. maí 1651, að komið skyldi á fót holdsveikraspítölum á Íslandi. Einn spítali var settur niður í hverjum landsfjórðungi, þ.e. á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit fyrir Vesturland, að Klausturhólum í Grímsnesi fyrir Suðurland (fluttur að Kaldaðarnesi í Flóa árið 1753), á Hörgslandi á Síðu fyrir Austurland og að Möðrufelli í Eyjafirði fyrir Norðurland.

Spítalarnir voru undir yfirumsjón eða eftirliti (tilsjónarmenn voru kallaðir inspectores) biskupa og lögmanna framan af. Amtmenn tóku svo við hlutverki lögmanna þegar embætti þeirra var lagt niður árið 1800. Í skjalasöfnum biskupsstólanna má finna skjalaflokk sem varðar þetta eftirlit biskups með spítölunum. Þá má jafnframt finna bréfaskipti biskups og spítalahaldara í bréfabókum og bréfasöfnum biskupsstólanna. Auk þess vísiteruðu biskupar gjarnan spítalana í eftirlitsferðum sínum um biskupsdæmin og var það fært til bókar í vísitasíubækur. Þannig má finna byggingarbréf séra Magnúsar Péturssonar fyrir Hörgslandsspítala, dagsett 25. september 1660, í vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar biskups.

Talið er að fyrstu holdsveikissjúklingarnir hafi komið til spítalans að Hörgslandi sumarið 1654. Eiríkur Sigvaldason (um 1590–1661), fyrsti spítalahaldarinn þar, lét reisa spítalahús eftir fyrirsögn Brynjólfs biskups og voru þau fyrir víst komin í notkun sumarið 1657.

Í skjalasafni Skálholtsbiskupsdæmis má finna öskju með skjölum Hörgslandsspítala sem spanna árin 1715–1801 og í skjalasafni Biskupsdæmisins Íslands er framhald þessara skjala sem ná yfir árin 1801–1846. Elsta skjalið, sem þar er að finna, er byggingarbréf Höskuldar Hannessonar (um 1686) spítalahaldara fyrir jörðunni sem er dagsett 24. janúar 1715.

Lítið er vitað um Höskuld en í manntalinu 1703 var hann til heimilis á Lambafelli í Eyjafjallasveit hjá bóndanum Ólafi Eiríkssyni og Margréti Snorradóttur konu hans. Hieronymus (f. um 1685), bróðir Höskuldar, var hins vegar til heimilis á Höfðabrekku í Dyrhólahreppi. Í manntalinu segir: „lögdæmdur ómagi Jóns Eiríkssonar“, en hann var 44 ára vinnumaður á sama stað. Líkast til hafa þeir Ólafur og Jón verið bræður og náskyldir Höskuldi og Hieronymusi sem hafa væntanlega misst foreldra sína og því verið dæmdir á fé Ólafs og Jóns. Það er líkast til um að kenna mismunandi vinnubrögðum við gerð manntalsins í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu að þessar viðbótarupplýsingar koma ekki fram varðandi Höskuld.

Í byggingarbréfinu eru taldar upp skyldur og skuldbindingar Höskuldar sem spítalahaldara. Hann átti að halda sex kúgildi sem fylgdu spítalanum, endurnýja þau á eigin kostnað og sömuleiðis að halda við húsum jarðarinnar, hjáleigunnar og spítalans. Þá átti hann jafnframt að halda túnum og engjum í rækt og verja þau fyrir skaða sem þau kynnu að verða fyrir af vatni og sandi en jafnframt var viðurkennt að upp gætu komið atvik sem spítalahaldarinn hefði ekki vald yfir. Alls ágóða jarðarinnar mátti hann njóta, þ.e. ítaka hennar svo sem meltaks, lambaupprekstrar og skógtaks til viðhalds á húsakosti jarðarinnar, trjáreka sem ekki var vogrek (þ.e. rekin tré sem mannaverk sáust á) og allan fisk en af hvölum aðeins það sem var umfram það sem leiguliði jarðarinnar átti rétt á. Hann átti að annast þrjá hospitalsómaga en sá hreppur sem var ábyrgur fyrir framfærslu ómagans átti að bera kostnaðinn við flutning hans til spítalans. Í fimmta lið byggingarbréfsins segir eftirfarandi um skyldur hans gagnvart sjúklingunum: „Skal hann veita þessum ómögum góða og tilbærilega forsorgun, bæði til dags og nætur, fata og fæðis, híbýla, þjónustu og alls annars aðbúnaðar, svo enginn kunni með réttu þar yfir að klaga.“ Höskuldur bar að greiða prestinum á Kirkjubæjarklaustri 20 álnir árlega, væntanlega fyrir messuhald annan hvern sunnudag við hálfkirkjuna á staðnum. Hann átti að taka á móti öllum hospitalshlutum sem til féllu árlega í Mýrdal en það var skattur sem taka skyldi af fiskafla á ákveðnum degi og átti að renna til rekstrar spítalans. Loks skyldi hann reyna að innheimta útistandandi skuld Páls Ámundasonar, fyrrverandi spítalahaldara, og endurnýja hálfkirkjuna á staðnum en til þess átti hann nota reka jarðarinnar og njóta til þess aðstoðar sóknarbænda.

Fyrrnefnd skjöl varða einkum rekstur spítalans en segja lítið um vistmennina eða hagi þeirra sem fróðlegt væri að vita meira um. Í manntalinu 1703 má sjá nöfn vistmanna á Hörgslandi það árið. Þar eru reyndar aðeins tveir hospitalsmenn nefndir, þeir Starri Eyjólfsson 45 ára og Guðmundur Jónsson 37 ára. Ástæða þess mun vera sú að Páll Ámundason yngri (um 1645–1716), sem var spítalahaldari á Hörgslandi 1690–1706, vildi losna undan því að veita spítalanum forstöðu. Hann tilkynnti Jóni Vídalín biskupi þetta í bréfi sem barst í Skálholt 27. desember 1700 og var ástæðan forsendubrestur. Honum þótti þungt að halda jörðina með sömu skilmálum áfram því að hún hafði gengið mikið af sér að túnum og engjum enda hafði frá árinu 1696 staðið yfir langur harðindakafli á landinu sem varaði allt til ársins 1702. Biskup svaraði í bréfi, dagsettu 28. desember 1700, að hann gæti ekki stokkið frá borði fyrirvaralaust. Einhver yrði að veita spítalanum forstöðu og ekki væri hægt að finna nýjan mann með svo skömmum fyrirvara en hægt væri að setjast yfir málið á næsta alþingi. Þá þyrfti hann einnig að tilkynna Sigurði Björnssyni lögmanni í Saurbæ á Kjalarnesi um þetta enda hafði hann verið viðriðinn hospitalstöku Páls og samið um skilmálana við hann.

Biskup gaf svo út nýtt byggingarbréf handa Páli fyrir Hörgslandi dagsett 14. nóvember 1701. Þar var kveðið á um að vegna slæms ástands jarðarinnar, sem skilaði minni tekjum en áður, þá var komið til móts við spítalahaldarann með þeim hætti að hann þyrfti aðeins að halda tvo karlgilda hospitalsómaga á spítalanum en hann ætti þeim: „… góða forsorgun veita bæði til matar og drykkjar og þjónustu …“ Gildistími þessara skilmálabreytinga voru tólf mánuðir frá fardögum sem voru þrír dagar í júníbyrjun. Þá átti hann einnig við fyrstu hentugleika að kalla til skynsama og ráðvanda menn til þess að meta jörðina í viðurvist prófasts og sýslumanns sem átti svo að ákveða fyrir hversu mikla leigu ætti að byggja jörðina. Þetta var ástæða þess að aðeins tveir vistmenn voru á spítalanum þegar manntalið var tekið.

Það er hægt að grafast aðeins nánar fyrir um síðarnefnda spítalaómagann því hann var skáldmæltur og hafa nokkur kvæði varðveist eftir hann. Ekki hefur tekist að ættfæra Guðmund sem var fæddur um 1666. Í handritum, þar sem kveðskap hans er að finna, er hann einungis kenndur við Hörgsland. Því er aðeins hægt að áætla að hann sé ættaður úr Austfirðingafjórðungi, þ.e. annað hvort úr Múla- eða Skaftafellssýslum en vistun hans á Hörglandsspítala sýnir fram á það. Í handritinu ÍBR 127 8vo, sem er skrifað af eldklerkinum séra Jóni Steingrímssyni (1728–1791) sem var prestur á Kirkjubæjarklaustri en bjó á Prestbakka á Síðu auk þess að vera prófastur í Skaftafellsþingi, er að finna kvæði (sálm) eftir Guðmund um Stórubólu sem sýnir að hann var á lífi árið 1707. Að auki þá tilgreinir séra Jón að Guðmundur hafi verið blindur en það er algengur fylgifiskur holdsveiki.

Sigurður Sigurðsson eldri (1679–1745), alþingisskrifari að Eyjum í Kjós, skrifaði handritið ÍBR 87 4to, sem er ársett 1709, og gaf seinni eiginkonu sinni, Málfríði Einarsdóttur, sem hann gekk að eiga 6. október 1709. Í umræddu handriti, sem hann kallar söngvabók, er að finna kvæði fjölda skálda sem hafa verið vinsæl í byrjun 18. aldar. Í inngangi að kvæðum Guðmundar segir:

Saung Kvedlingar Þess Gaafum Prÿdda
[: DROTTENS BENIAMØRK a Sÿnum Lÿkama Berande :]
Guds Manns GUDMUNDAR IONS SONAR
Er aa Hørgslands Hospital Lifde Gudrækelega, Veikur og Siönlaus.
og Biriast Fyrst Psalmar ad Singia Kvølld og Morgna I Vikunne,
ut af Dags Verkum DROTTENS, a þeim Siø Døgum

Af þessari kynningu má sjá að Guðmundur virðist ekki vera á lífi þegar hún er skrifuð, sbr. „Er á Hörgslands hospital lifði […]“ Hann var á lífi árið 1707 og hefur því væntanlega dáið einhvern tíma á árabilinu 1707–1709. Eins og sjá má af skjölum sem fylgja með afriti byggingarbréfs Höskuldar þá var sjúklingaveltan á spítalanum talsvert hröð enda um mikið veikt fólk að ræða og einungis rúm fyrir þrjá holdsveikisjúklinga hverju sinni þannig að fólk hefur þurft að bíða eftir leguplássi.

Það sem er þó athyglisverðast við kynninguna er að Guðmundur hafði sáramerki Jesú Krists á líkama sínum, þ.e. blæðandi sár á höndum og fótum eftir naglana sem festu hann við krossinn, á síðunni eftir spjót rómverska hermannsins og á höfði eftir þyrnikórónuna. Benjamörk eða sáramerki kallast stigmata á latínu. Þau koma fram hjá sérstaklega guðræknum og heittrúuðum einstaklingum sem lifa sig heilshugar inn í kristinn trúarboðskap og hafa djúpa samkennd með örlögum Jesú Krists. Þau eru yfirnáttúrleg birtingarmynd trúarhita þeirra. Í Guðbrandsbiblíu (1584) segir Páll postuli: „Hér eftir gjöri mér engin meiri mæðu, því að ég ber jafnan benjar drottins á mínum líkama.“ Í Þorláksbiblíu, sem kom út árið 1644, er þetta orðað nokkurn veginn eins nema að búið er að skipta út „benjar drottins“ fyrir „markteikn drottins“.

Það er merkilegt að það hafi ekki vakið meiri athygli ef maður með stigmata á líkama sínum hafi verið uppi á Íslandi á seinni hluta 17. aldar og á fyrsta tug 18. aldar. Það kann að stafa af því að andleg yfirvöld hafi talið þetta tilheyra kaþólskum menningarheimi og því vera hálfgerða villutrú sem ekki ætti að hafa hátt um. Þá hlýtur einnig að hafa skipt miklu máli að Guðmundur var holdsveikisjúklingur og yfirvöld hafa ekki viljað að landsmenn sæktu í að skoða þessi undur og stórmerki því að hugmyndin með holdsveikraspítölum var að einangra sjúklinga frá almenningi til þess að forðast smit. Aðeins þeir sem sáu um hjúkrun og umönnum sjúklinganna hafa umgengist þá en einhver hefur líka þurft að skrifa kvæði Guðmundar upp eftir honum því að hann var blindur.

Þessa vitneskju sem Sigurður eldri bjó yfir um Guðmund mun hann líkast til hafa fengið frá föður sínum Sigurði Björnssyni (1643–1723). Hann var lögmaður sunnan og austan á árunum 1697–1705 en sem slíkur hafði hann eftirlit með holdsveikraspítölunum að Klausturhólum og á Hörgslandi í félagi við Skálholtsbiskup. Í byggingarbréfi Páls Ámundasonar fyrir Hörgslandi, frá 14. nóvember 1701, koma fram upplýsingar um inntökuskilyrðin. Þar segir að enginn skuli takast inn á spítalann nema honum fylgi seðill frá lögmanni eða biskupi og fullvíst sé að hann sé sannur hospitalslimur sem eigi hvergi annars staðar framfæri að lögum. Þetta sýnir að það var undir lögmanni og biskupi komið hver fékk legupláss á spítalanum. Þeir hafa væntanlega fengið skýrslu um hvern ómaga sem nefndur var til spítalavistar en þar hafa komið fram upplýsingar um ætterni, sjúkdómssögu og jafnvel lífshlaup ómagans.

Sýn heilags Frans frá Assisi (1181/1182–1226) í túlkun þýska listamannsins Albrecht Dürer (1471–1528) sem greint er frá í ævisögu hans eftir fransiskana munkinn Bonaventure (1221–1274). Í íslenskum miðaldabókmenntum er ekki að finna þýðingu á ævisögu heilags Frans og hans er einungis getið í stuttri klausu í jarteinasögu af Maríu mey. Því verður að duga að vísa í íslenska frásögn af sýn heilags Frans, frá 20. öld, en þar segir: „Franciscus fann undir eins til verkjar í höndum, fótum og síðu og sáust glögglega naglaför á þeim stöðum. Guð veitti honum þá náð, að verða lifandi eftirmynd hins krossfesta Frelsara, sem Franciscus hafði prédikað um með svo mikilli ástundun.“

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfanna.

Heimildir

  • ÞÍ. Biskupsskjalasafn (Bps.) A. II, 8. Vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar biskups um Austfirðingafjórðung og Eyjafjallasveit 1641–1672, bls. 368–369.
  • ÞÍ. Bps. A. IV, 4. Bréfabók Jóns Vídalín Skálholtsbiskups 1699–1703, bls. 130–132, 172–173. (Í bréfi biskups og í byggingarbréfinu kallar hann Pál Ámundason „eldra“ en þeir bræður voru þrír með sama nafninu, sá elsti prestur á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði, sá yngri hélt Kirkjubæjarklaustur, fyrst allt en svo hálft, auk Hörgslandsspítala og sá yngsti var nefndarmaður úr Skaftafellsýslu en dó árið 1703.)
  • Lbs. ÍBR 87 4to. „Saungva Bök Eigandans Er Heiter Maalfrijdur Einars Dotter. Gefen af hennar HiartKiærasta Sigurde SigurdsSine Elld[ra] Ad Saurbæ ä Kialarnese Anno M.DCC.IX“, bls. 431.
  • Lbs. ÍBR 127 8vo. „Andlegt kvæðasafn VIII“, m.h. Jóns Steingrímssonar, skr. um 1770–1790, bls. 180.
  • Alþingisbækur Íslands VI. Reykjavík 1933–1940, bls. 412.
  • Biblia þad er, øll heilög ritning, vtlógd a norrænu. Hólar 1584. (Galatabréfið, 6. kafli, 17 vers).
  • Biblia þad er, øll heilog ritning, vtløgd a norrænu. Hólar 1644. (Galatabréfið, 6. kafli, 17 vers).
  • Biskupsskjalasafn. Skrár Þjóðskjalasafns III. Reykjavík 1956, bls. 101, 115, 122–123.
  • Björk Ingimundardóttir, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I. Austfirðinga- og Sunnlendingafjórðungar. Reykjavík 2019, bls. 239.
  • Erla Dóris Halldórsdóttir, Holdsveiki á Íslandi. Reykjavík 2001, bls. 201.
  • Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson, Íslensk bókmenntasaga I. Ritstjóri Vésteinn Ólason. Reykjavík 2006, bls. 432.
  • „Hinn heilagi Franciscus frá Assisi“, Merki krossins 1:3–4 (1926), bls. 58.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948, bls. 251, 419–420.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 279–280.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 105–106, 212–213, 255–256.
  • Lovsamling for Island I. Samlet og udgivet af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. København 1853, bls. 241–242.
  • Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 438–439, 451, 467.
  • Sæmundur Bjarnhéðinsson, „Ágrip af sögu holdsveikinnar á Íslandi“, Skírnir LXXXIV (1910), bls. 60–65.
  • Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Jón Helgason bjó til prentunar. Safn fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga XII. Kaupmannahöfn 1942, bls. 25–26, 36–38, 88–89.

Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að hlaða niður uppskriftinni.

 

Bréf Höskuldur Hannesson - heimild nóvembermánaðar
Bréf Höskuldur Hannesson - heimild nóvembermánaðar
Bréf Höskuldur Hannesson - heimild nóvembermánaðar
Heimild nóvembermánaðar
Heimild nóvembermánaðar
Heimild nóvembermánaðar
Heimild nóvembermánaðar