Beinakerlingarvísur í skjalasafni landfógeta

Október 2012

Beinakerlingarvísur í skjalasafni landfógeta

ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. XXIX, 1. Einkaskjöl Skúla Magnússonar 1741–1788. Örk: Bréfauppköst og bréfaskrá m.m. 1776

Skúli Magnússon (1711–1794) gegndi embætti landfógeta á árunum 1749–1793. Í skjalasafni embættisins má finna slangur af einkaskjölum Skúla sem sullast hafa saman við hin opinberu skjöl. Þeim var komið fyrir í sérstökum skjalaflokki þegar safnið var skráð. Þar á meðal má finna beinakerlingarvísur sem Skúli orti um íslenska lagaverkið og skildi eftir í vörðu á Stórasandi árið 1735. Lagaverkið var langdregin og árangurslaus tilraun til þess að semja nýja íslenska lögbók byggða á Norsku lögum Kristjáns V. sem samþykkt voru 1687. Fyrstir til þess að spreyta sig á því voru lögmennirnir Sigurður Björnsson og Magnús Jónsson en konungsboð þess efnis var birt á alþingi sumarið 1688. Þeim tókst hins vegar ekki að sigla verkinu í höfn, ekki frekar en öðrum lögspekingum sem voru viðriðnir það síðar, allt fram á 19. öld.

Beinakerlingarvísur voru vísur sem skrifaðar voru á miða sem stungið var inn í legg af sauðfé eða stórgripum og komið fyrir í grjótvörðu (beinakerlingu) við fjallvegi, ferðalöngum til skemmtunar og jafnvel storkunar. Ókunnugt er um hversu langt aftur þessi siður nær en hann hefur a.m.k. tíðkast allt frá síðari hluta 17. aldar.

Jón Þorkelsson, síðar þjóðskjalavörður, gaf þessar vísur út árið 1890 eftir afskrift Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 1768 en hann samdi einnig skýringar við þær. Grunnavíkur-Jón segir þar að Skúli hafi séð ýmsar vísur í beinakerlingu á Stórasandi árið 1736 en sjálfur ort þessar. Hann hafi numið þær af Skúla og fært inn í sögu sína um íslenska lagaverkið. Þar á hann líkast til við rit sem ber heitið „Lítið ágrip um laganna reformation á Íslandi“ og er að stofni til eftir Jón Magnússon, bróður Árna handritasafnara, en Grunnavíkur-Jón hefur svo haldið því áfram.

Ekki er hægt að skera úr um, að svo stöddu máli, hvort vísurnar í landfógetasafni séu með hendi Skúla sjálfs. Skriftin er mjög áþekk hendi hans en talsvert settari en á bréfum hans til stiftamtmanns frá sama tíma sem notuð voru til samanburðar. Ástæðan fyrir því er sjálfsagt mismunandi tilefni skrifanna. Við samanburð kemur í ljós að á tveimur stöðum má finna smávægilegt ósamræmi milli vísnanna hjá Grunnavíkur-Jóni og þeirra sem er að finna í landfógetasafni. Mestu varðar þó um ártalið í fyrirsögn en hjá Grunnavíkur-Jóni er það 1736 en í fyrirsögn vísnanna í landfógetasafni stendur 1735 og er það leiðrétting á 1733 sem skrifari hefur upphaflega skrifað en leiðrétt svo jafnharðan að því er virðist. Það fer ekki á milli mála að Grunnavíkur-Jóni skeikar hér um eitt ár og rétt ártal er í fyrirsögn vísnanna í landfógetasafni. Þar gengur tímaviðmiðunin, í síðustu ljóðlínu fyrsta erindis, upp því þegar 47 ár eru dregin frá 1735 fæst ártalið 1688. Þetta fær enn frekari stuðning af því að Alexander Christian Smith, sem getið er í síðasta erindi, var lögmaður að norðan og vestan aðeins árin 1734–1735 og var á alþingi í bæði skiptin. Hann sigldi utan 1735 en sagði af sér embætti í apríl 1736 svo að Magnús Gíslason varð að gegna báðum lögmannsembættunum á alþingi þá um sumarið.

Árið 1735 var Skúli Magnússon sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu og bjó hjá séra Benedikt Jónssyni í Bjarnanesi í Hornafirði. Hann var á alþingi sumarið 1735 og hefur þá væntanlega riðið norður í Skagafjörð að þingi loknu og áð hjá beinakerlingu á Sandi. Stórisandur var þjóðleið á milli Norður- og Vesturlands, norðan við Langjökul, og þar lá svokallaður Skagfirðingavegur. Óvíst er hvað „að sitja í seglbót“ eigi að þýða hjá Skúla en ein túlkun gæti verið sú að siglingin gangi hægt ef sífellt er verið að bæta seglið, þ.e. sífellt nýir menn að koma að verkinu.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir:

  • ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. XXIX, 1. Einkaskjöl Skúla Magnússonar 1741–1788. Örk: Bréfauppköst og bréfaskrá m.m. 1776.
  • „Beinakerlingar“, útg. Jón Þorkelsson. Blanda II (1921–1923), bls. 406–407.
  • Gísli Baldur Róbertsson, „Áform um endurskoðun íslenskra laga“, Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík 2004, bls. 35–54.
  • Guðmundur Jósafatsson, „Skagfirðingavegur um Stórasand“, Vörður á vegi. Ferðafélag Íslands. Árbók 1988, bls. 9–25.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 291–292.
  • Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík. Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga V. Kaupmannahöfn 1926, bls. 318, 339.
  • Jón Jónsson [Aðils], Skúli Magnússon landfógeti. Reykjavík 1911, bls. 19, 25, 27–28.
  • Jón Sigurðsson, „Lögsögumanna tal og lögmanna á Íslandi, með skýríngargreinum og fylgiskjölum“, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju II. Kaupmannahöfn 1886, bls. 154.
  • „Vísur eptir Skúla landfógeta Magnússon“, útg. Jón Þorkelsson. Tímarit hins íslenzka bókmentafélags 11 (1890), bls. 102–104 (sjá timarit.is).

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Uppskrift af beinakerlingarvísum Skúla Magnússonar má sækja með því að smella á tengilinn hér að neðan: (PDF, 36KB)

Beinakerlingarvísur Skúla Magnússonar landfógeta