Bannað að gista í kirkjum

Maí 2016

Bannað að gista í kirkjum

Biskupsskjalasafn, Bps. C III, 54. Bréfabók biskups 1880-1882, bls. 534-535.

Undanfarin ár hefur nokkuð verið rætt um að ferðamannastraumurinn sé nánast stjórnlaus og stundum kvartað yfir átroðningi ferðamanna, en helsta markmið óprúttinna landa sé að „mjólka“ þá eins mikið og unnt er, en fátt annað byggt en hótel. Ekki er þetta alveg nýtt vandamál hér á landi því landsmenn voru lengi vel vanbúnir að taka á móti erlendum gestum.

Húsakostur á landinu var lengstum heldur bágborinn og því nauðsyn að nota öll hús vel. Mörg dæmi voru þess að kirkjur væru hafðar til geymslu milli þess að þær voru notaðar til helgihalds. Sömuleiðis fór það að tíðkast á 19. öld, að ferðamenn fengu að matast í kirkjunum og þurrka plögg sín og jafnvel gista. Má sjá mörg dæmi um þetta í ferðabókum.

Svo kom að kirkjuyfirvöldum blöskraði þetta framferði og ritaði biskup próföstum allharkalegt áminningarbréf, dagsett 1. febrúar 1881, þar sem lagt var fyrir þá að brýna fyrir prestum sínum að líða ekki slíkt framferði. Biskup var þá Pétur Pétursson, allröggsamt yfirvald. Hann segir m.a. í umburðarbréfinu: „Þó kirkjur vorar séu fátæklegar í samanburði við kirkjur annarra landa eru þær þó guðshús og eins helgar og hinar stærri og skrautlegri kirkjur. Ef tilfinning vor fyrir þessu væri svo næm og lifandi eins og hún á að vera mundum vér aldrei leyfa að þær væru hafðar til annars en Drottins þjónustu. Að þessi ósiður hneykslar jafnvel ferðamennina sjálfa, auk heldur aðra landa þeirra, þar sem þeir segja að sér hafi verið léð kirkjan sem eitthvert útihús, þar sem þeir hafi geymt farangur sinn í kór og framkirkju, yfirhafnir sínar á prédikunarstólnum og annað þess háttar á altarinu.“

Vísast hefur biskup haft í huga orð Jesú, sem hermd eru eftir honum í Markúsarguðspjalli, um vanhelgun helgistaða og mustera: „Hann gekk inn í helgidóminn og tók til að reka út þá sem seldu og þá sem keyptu í helgidóminum, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. ... Og hann kenndi og sagði við þá: „Er ekki ritað: „Hús mitt á að nefnast bænahús fyrir allar þjóðir?“ en þér hafið gjört það að ræningjabæli.““

Jón Torfason ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Biskupsskjalasafn, Bps. C III, 54. Bréfabók biskups 1880-1882, bls. 534-535.
Umburðarbréf Péturs Péturssonar biskups hefst rétt neðan við miðja síðu
Niðurlag umburðarbréfs Péturs biskups er um miðja síðu