Bálfarafélag Íslands

Febrúar 2020

Bálfarafélag Íslands

ÞÍ. Einkaskjalasöfn. E 136. Bálfarafélag Íslands.

Í sögulegu tilliti eru bálfarir tiltölulega nýlegt fyrirbæri í útfararsiðum á Íslandi. Lög um líkbrennslu á Íslandi voru samþykkt á Alþingi árið 1915 (lög nr. 41/1915. Sjá einnig lög nr. 21/1963 og lög nr 36/1993).

Snemma árs 2020, var greint frá því, að ríflega helmingur jarðsetninga á höfuðborgarsvæðinu, væru jarðsetningar duftkera (54%). Á landsvísu er hlutfall bálfara komið í 43% (2019). Fyrir 15 árum (2005) var hlutfall bálfara á höfuðborgarsvæðinu um 25% en um 19% á landsvísu. Á þessum tiltölulega stutta tíma hafa bálfarir því ríflega tvöfaldast, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsins í heild.Ekkert bendir til annars en að hlutfall bálfara á Íslandi muni halda áfram að aukast og að innan fárra ára muni bálfarir verða algengari en hin gamla, hefðbundna kistugreftrun.

Helsti hvatamaðurinn að löggjöf um líkbrennslu á Íslandi var Sveinn Björnsson (1881-1952), þá þingmaður Reykvíkinga, en síðar fyrsti forseti íslenska lýðveldisins (1944-1952).

Það var þó ekki fyrr en árið 1934, að sérstöku félagi um bálfarir var komið á fót á Íslandi. Tildrög að stofnunar Bálfarafélags Íslands voru þau, að áðurnefndur Sveinn Björnsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og dr. Gunnlaugur Claessen (1881-1948), læknir, boðuðu á fund með sér á Hótel Borg, þann 26. janúar sama ár, „nokkra menn, sem áhugasamir eru um líkbrennslumál.“

Þessir menn voru þeir Ágúst Jósefsson (1874-1968) prentari og heilbrigðisfulltrúi, Benedikt Gröndal (1899-1984) verkfræðingur, Björn Ólafsson (1895-1974) stórkaupmaður og síðar ráðherra, Guðmundur Thoroddsen (1887-1968) prófessor og yfirlæknir, Magnús Kjaran (1890-1962) stórkaupmaður, Pétur Ingimundarson (1878-1944) slökkviliðsstjóri og Snæbjörn Jónsson (1887-1978) kaupmaður og bóksali. Svo sem sjá má var þetta afar borgaralegt samansafn reykvískra karla, sem gegndu virðingar- og ábyrgðarstöðum í samfélaginu.

Boðað var til stofnfundar þann 6. febrúar 1934, hvar Bálfarafélag Íslands var formlega stofnað. Stofnfélagar voru 52 talsins; 42 karlar og 10 konur. Konurnar voru ýmist eiginkonur karlanna eða dætur þeirra. Karlarnir áttu það sammerkt að gegna annað hvort góðum stöðum og embættum eða stunda atvinnurekstur af einhverju tagi.

Var formanni félagsins, Gunnlaugi Claessen, falið það verk að semja ávarp til almennings um bálfarir, til birtingar í dagblöðum og flutnings í útvarpi. Ávarp Gunnlaugs hljóðaði svo:

Bálfarir hafa rutt sjer mjög til rúms víða erlendis í nýtízku bálstofum. Forgöngumenn hafa verið Þjóðverjar og Norðurlandabúar. Í sumum þýskum borgum eru nú flest lík brend [svo], en á Norðurlöndum eru víða bálstofur, og það í mannfærri borgum en Reykjavík.

Orsakir til þess, að horfið er frá að jarðsetja framliðna, er aukinn skilningur almennings á því, að það er að öllu leyti meiri ræktarsemi og hreinlæti að eyða líkamsleifum hins látna á 1-2 klst. Í líkofni, heldur en að leggja þær til rotnunar árum eða áratugum saman í dimmri gröf. Erlendis reynast líka bálfarir miklu ódýrari en jarðarfarir, og starfrækja bæjarfélögin víða bálstofur, en reyna að komast hjá kostnaði við aukning og viðhald grafreita.

Á Íslandi voru sett frjálslynd líkbrenslulög [svo] árið 1915, skv. frv. Þáverandi alþm. Sv. Björnssonar sendiherra. Þó er enn engin bálstofa til hér á landi. Þ[ann] 6. febr. s.l. var því stofnað „Bálfarafélag Íslands“ til þess að koma þessu máli á rekspöl.

Tilgangur þessa félags er að 1) útbreiða þekking um líkbrenslumál [svo] 2) vinna að því að reistar verði bálstofur í Rvík og víðar á landinu, 3) veita aðstoð og leiðbeiningar um bálfarir og bálstofur, 4) vinna að því að gera bálfarirnar sem ódýrastar, 5) koma upp tryggingardeild, þannig að menn geti gegn iðgjöldum tryggt sér greiðslu bálfararkostnaðar, að þeim látnum.

Félagsmenn geta orðið bæði fullorðnir og börn. Árgjald er kr. 3,00 en æfigjald kr. 25,00. Menn geta innritað sig og börn sín í félagið í flestum bókaverslunum höfuðstaðarins og hjá ritara félagsins, Gunnari Einarssyni, Ísafoldarprentsmiðju.

Vér þykjumst þess fullvissir, að Bálfarafélag Íslands eigi erindi til landsmanna. Bálfarafélögin í Svíþjóð og Danmörku eru nýlega búin að eiga 50 ára afmæli, svo ekki verður sagt að rasað sé fyrir ráð fram, þótt þessi hreyfing sé vakin á Íslandi. Erlendis hefir fyrstu bálstofunni aldrei verið komið á fót í neinu landi, nema vegna forgöngu og félags einstakra manna. Bálfarafél. Ísl. ætlar sér að vinna að þessu sjálfsagða menningarmáli hér á landi, og skorar á menn að gerast félagar.

Reykjavík, þ. 14. febr. 1934.
Í stjórn Bálfarafél. Íslands.
G. Claessen, Ben. Gröndal, Gunnar Einarsson, Ágúst Jósefsson, Björn Ólafsson.

Árið 1943, náðist samkomulag á milli kirkjugarðsstjórnar Reykjavíkur og Bálfarafélags Íslands, hvað snerti samvinnu þeirra á milli um byggingu bálstofu í kirkjugarðinum í Fossvogi.Þann 25. apríl árið 1946, lagði Sveinn Björnsson, forseti Íslands, hornstein að kapellunni í Fossvogi. Hlutverk kapellunnar átti að verða þríþætt; bálstofa, útfararkapella og líkgeymsla. Laugardaginn 3. maí árið 1947, kom stjórn Bálfarafélags Íslands saman í húsakynnum bálstofunnar, við kapelluna í Fossvogskirkjugarði. Tilefni fundarins var það að láta reyna á annan líkbrennsluofninn, sem þá var fullgerður. Stjórnin hafði útvegað dauða sauðkind frá Keldum í Mosfellssveit, í því skyni að láta reyna á brennsluhæfni ofnsins. Sauðkindinni var komið fyrir í trékassa, sem var á stærð við miðlungs líkkistu. Trékassanum var síðan ekið inn í brennsluofninn á þar til gerðum vagni, og viðhafður allur sá umbúnaður eins og um dæmigerða líkbrennslu væri að ræða. Hiti ofnsins var þá 500°C. Kviknaði þegar í trékassanum. Þegar hann hafði brunnið um stund var hitinn aukinn í 800°C. Við það logaði allur trékassinn. Eftir það brann kindin og trékassinn í ljósum loga, þar til ekkert var eftir annað en nokkur tréaska og eðlilega brunnin bein kindarinnar, sem að lokum féll niður í þar tilgert öskuílát á botni ofnsins. Brennslan tók um 90 mínútur sem var á pari við dæmigerðan líkbrennslutíma.

Gunnlaugur Claessen, sem verið hafði formaður Bálfarafélags Íslands frá stofnun þess, lést þann 24. júlí árið 1948. Þá hafði bálstofan ekki enn verið tekin formlega til notkunar. Stjórn félagsins fór þess á leit við stjórn kapellunnar í Fossvogi, að bálstofan yrði tekin í notkun þá þegar „og að jarðneskum leyfum [svo] G[unnlaugs] Cl[aessen] yrði eytt í bálstofunni.“ Það varð og úr að fyrrum formaður Bálfarafélags Íslands var fyrstur manna brenndur í þar til gerðum líkbrennsluofni á Íslandi og þar með hófust bálfarir á Íslandi.

Þann 8. apríl árið 1964 kom stjórn Bálfarafélags Íslands saman, í því augnamiði að ræða framtíðarhorfur í starfsemi félagsins. Stjórnin taldi það ótvírætt hafa komið í ljós á þeim árum sem liðið höfðu frá byggingu bálstofunnar í Fossvogi, að enginn raunverulegur grundvöllur væri fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins, og þá aðallega af tveimur ástæðum:

  1. Félagið hefir engan fjárhagslegan grundvöll til að byggja á, sökum þess að fyrir mörgum árum var sú ályktun gerð, að ekki væri hægt að innheimta árstillag og var því horfið að því ráði að leggja lágt æfigjald á félagsmenn, sem á engan hátt getur staðið undir félagsstarfsemi.
  2. Þótt líkbrennsla hafi hér ýmsa áhangendur, er málið þannig vaxið, að erfitt er að halda uppi áróðri að staðaldri fyrir líkbrennslu í litlu þjóðfélagi, svo að gagni kæmi, enda getur slíkur enhliða áróður á opinberum vettvangi oft reynst neikvæður ef mikið er gert.

Af ofangreindum ástæðum taldi stjórn félagsins það vera rétta ákvörðun að slíta félaginu. Megintakmarki þess hafði verið náð; að koma upp bálstofu í Reykjavík til almenningsnota.

Stjórn félagsins ákvað að láta eignir félagsins, sem þá voru 95.337 krónur og 59 aurar, renna til stofnunar Duftgarðasjóðs, sem myndi í framhaldi þess verja fénu til þess að skipuleggja og fegra duftgarða Reykjavíkur, eftir nánari fyrirmælum um sjóðsstofnunina. Þess má geta að þessar rúmlega 95 þúsund krónur sem Bálfarafélag Íslands lét renna til stofnunar Duftgarðasjóðs, eru rétt rúmlega 1.9 milljónir króna á verðlagi dagsins í dag (janúarmánaðar 2020).

Síðustu fyrirmæli félagsins voru þau að fundargerðabók þess skyldi lögð inn í Þjóðskjalasafn Íslands, hvar hún er varðveitt nú.

Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta.

Heimildir og ítarefni

Heimildir

  • „Ávarp frá Bálfarafélagi Íslands“, Vísir, 24. árg., 45. tbl., (15. febrúar 1934), bls. 2-3.
  • „Forsetinn leggur hornstein að Fossvogskapellunni“, Morgunblaðið, 33. árg., 93. tbl., (27. apríl 1946), bls. 12.
  • Stefanía Ágústa Pálsdóttir, Framtíð grafreita á Íslandi. Tillaga að gróðurgrafreitum. BS-ritgerð frá Landbúnaðarháskóla Íslands (september, 2019).
  • ÞÍ. Einkaskjalasöfn. E 136. Bálfarafélag Íslands.

Vefir og vefheimildir

Tildrög til stofnunar Bálfarafélags Íslands.
Stofnfundargerð Bálfarafélags Íslands.
Lög Bálfarafélags Íslands.
Stofnfundargerð Bálfarafélags Íslands og skrá um stofnfélaga.
Stofnfundargerð Bálfarafélags Íslands og skrá um stofnfélaga.