„[A]l kongens krigsmagt til lands og vands er nu samlet“. Fréttir af vígbúnaði Dana 1762

Desember 2019

„[A]l kongens krigsmagt til lands og vands er nu samlet“. Fréttir af vígbúnaði Dana 1762

ÞÍ. Skjalasafn Amtmanns II, 88. Örk: Bréf til amtmanns frá mönnum í Kaupmannahöfn 1755-1767.

Sjö ára stríðið geisaði á árunum 1754–1763 en átökin stóðu sem hæst á sjö ára tímabili 1756–1763. Stríðandi fylkingar voru Bretland og Prússland sem gerðu með sér bandalag gegn Frakklandi og Austurríki. Fleiri lönd skipuðu sér í aðra hvora fylkinguna. Danmörk var hlutlaus og stóð utan við átökin en hallaðist þó heldur á sveif með Frökkum. Það var að frumkvæði og með fjármagni Frakka að 24.000 manna danskur her var settur niður í Holtsetalandi árið 1758. Tilgangurinn með því var að setja þrýsting á breska herliðið í kjörfurstadæminu Hannover í Þýskalandi og um leið að tryggja landamæri Danmerkur til suðurs. Í þessu fólst ákveðinn viðbúnaður en enginn eiginlegur óvinur var í sigtinu.

Það breyttist þó árið 1761 þegar gömul ógn tók að rumska en þá varð ljóst að Elísabet keisaraynja af Rússlandi átti skammt eftir ólifað. Ríkiserfinginn var Karl Pétur Ulrich hertogi af Gottorp (1728–1762) sem var hertogadæmi sem náði yfir hluta af Slésvík og Holtsetalandi. Hann var barnabarn Péturs mikla og sonur Karls Friederich hertoga af Gottorp sem lést 1739 en við það varð hinn 11 ára Karl Pétur hertogi. Tveimur árum síðar, þegar Elísabet frænka hans var orðin keisaraynja, sendi hún eftir honum og gerði að ríkisarfa. Hann stjórnaði hertogadæmi sínu frá Rússlandi með aðstoð ráðgjafanefndar og dreymdi um að beita styrk Rússlands fyrir sig til þess að ná fram hefndum á Danakonungi vegna brottreksturs ættar sinnar frá hertogadæmi þeirra í Slésvík. Í Norðurlandaófriðnum mikla hertóku Danir gottorpska hluta Holtsetalands árið 1713 og í kjölfar friðarsamninga í stríðslok sumarið 1720 innlimuðu þeir gottorpska hluta Slésvíkur.

Her og floti Danakonungs vígbjuggust og liðstyrkur bæði herliðsins í Holtsetalandi og flotans var aukinn árið 1761. Hinn mikli franski hershöfðingi Claude de Saint-Germain var fenginn til þess að styrkja stjórn hersins. Þann 5. janúar 1762 var Karl Pétur krýndur keisari Rússlands og varð við það Pétur III. Hans fyrsta verk var að stöðva framgang Rússa gegn Prússum sem hafði miðað vel áfram og beina vopnunum að Danmörku. Honum var svo umhugað um þetta að hann var reiðubúinn að láta alla landvinninga hersins af hendi gegn því að Prússar styddu sókn Rússa að Jótlandsskaga. Saint-Germain hershöfðingja var fengin stjórn yfir danska landhernum. Þar sem Rússar höfðu ekki tök á að flytja herlið sitt sjóleiðina var gangan í átt að landamærum Danmerkur bæði löng og ströng. Í júlímánuði fékk P.A. Rumiantzev hershöfðingi Rússa fyrirmæli um að sækja fram til Pommern, sem nú skiptist milli Þýskalands og Póllands, með 40.000 manna her sinn. Danska stjórnin hafði samþykkt áætlun Saint-Germain um að sókn væri besta vörnin en samt yrði að komast hjá því að litið yrði á Dani sem árásaraðila. Dagana 9.–12. júlí 1762 fór 27.000 manna landher Dana yfir fljótið Trave sem markar landamæri Slésvíkur-Holtsetalands og Mecklenborgar í Norður-Þýskalandi. Báðir herir sóttu hratt fram í átt til hvors annars. Þann 16. júlí var dönsk framvarðarsveit send að fljótinu Warnow og hinnar herteknu borgar Rostock. Hinum megin fljótsins sáu Danir kósakka og varðsveitir óvinarins. Allt stefndi í bardaga en svo tóku Rússar að draga her sinn til baka og 17. júlí voru þeir á bak og burt. Brátt bárust fregnir af því að Pétri III. hefði verið steypt af stóli af lífvörðum sínum að undirlagi Katrínar eiginkonu sinnar. Katrín mikla varð keisaraynja en Pétur hnepptur í varðhald og svo myrtur viku síðar.

Skjal mánaðarins er bréf Paul Røn (1716–1789) stúdents þar sem hann rekur framvindu stríðsins og lýsir þátttöku Dana í því, fram til 15. mars 1762, fyrir Magnúsi Gíslasyni amtmanni (1704–1766). Þegar Niels Ryberg kaupmaður (1725–1804) var skipaður verslunarstjóri yfir Konungsversluninni fyrri á Íslandi í ársbyrjun 1760 sendi hann Røn til Íslands í félagi við „Fabriqveur Otto“, þ.e. Johan Christian Otto, sem hann nefnir í bréfinu, til þess að taka út starfsemi Innréttinganna í Reykjavík. Höskuldsstaðaannáll greinir þannig frá þessu: „Útkomu syðra herramenn, einn sendur að rannsaka um Reykjavíkur vesen og tilstand etc., annar að eftirsjá um sáðverk og akuryrkju etc.“ Røn hefur við dvöl sína á Íslandi komist í vinfengi við Magnús amtmann sem var jafnframt hluthafi í Innréttingunum. Sjá má af bréfinu að hann hefur staðið í einhverjum útréttingum fyrir Ólaf Stefánsson varalögmann og tengdason Magnúsar en hann hafði áður verið bókhaldari Innréttinganna.

Þrátt fyrir það að Íslendingar hafi haft fréttaritara í Kaupmannahöfn, þ.e. Jón Ólafsson (1705–1779), eða Grunnavíkur-Jón, þá hefur verið mikilvægt fyrir menn, ekki síst háembættismenn, að fá sem fjölbreytilegastar fréttir af því sem var að gerast utan landsteinanna. Røn segir í bréfi sínu frá heilsufari konungs, veðurfari, umgangspestum, embættaveitingum, hvernig Íslandsversluninni farnaðist, auk mikilvægra upplýsinga um yfirvofandi stríðsátök með meðfylgjandi hækkunum á nauðsynjavörum og röskun á skipakomum.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfsins.

Heimildir

  • Aðalgeir Kristjánsson, „Vildi koma Íslandi undir Rússakeisara“, Aðalgeirsbók. Aðalgeir Kristjánsson áttræður 30. maí 2004. Hólar 2004, bls. 143–150.
  • Annálar 1400–1800 IV. Reykjavík 1940–1948, bls. 510 (Höskuldsstaðaannáll), sjá einnig bls. 382 (Ölfusvatnsannáll).
  • Dansk biografisk lexikon, tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 XIV. Udgivet af C.F. Bricka. Kjøbenhavn 1900, bls. 444–447, 497–498.
  • Dansk krigshistorie. Redaktion: Ole L. Frantzen og Knud J. V. Jespersen. [København] 2010, bls. 394–396.
  • de Madariaga, Isabel, Russia in the Age of Catherine the Great. New Haven and London 1981, bls. 2–8, 16–17, 24–25, 31–32.
  • Gregersen, H.V., Slesvig og Holsten før 1830. Danmarks historie. Copenhagen 1981, bls. 371–376, 393–396.
  • Heiberg, Steffan, „Fra småfyrster til selvherskere – De gottorpske hertuger og Danmark“, Gottorp – Et fyrstehof i 1600-tallet. København 2002, bls. 10–14, 43–44.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 81–82.
  • Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík. Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga V. Kaupmannahöfn 1926, bls. 327–329.
  • Lýður Björnsson, Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til Iðnsögu Íslendinga XI. Reykjavík 1998, bls. 59, 67, 69, 72, 74, 78–79, 81–82, 84–87, 132–133 (þar er vitnað í skýrslur þeirra Røn og Otto).

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift af bréfinu.

 

Bréf Paul Røn til Magnúsar Gíslasonar amtmanns.
Bréf Paul Røn til Magnúsar Gíslasonar amtmanns.
Bréf Paul Røn til Magnúsar Gíslasonar amtmanns.
Bréf Paul Røn til Magnúsar Gíslasonar amtmanns.