Agnes og Friðrik

Október 2014

Agnes og Friðrik

ÞÍ. Kirknasafn. Þingeyrar BA/2. Prestþjónustubók 1816-1854, bls. 228-229.
ÞÍ. Kirknasafn. Tjörn á Vatnsnesi BA/4. Prestþjónustubók 1816-1863, bls. 96.
ÞÍ. Sýslumaðurinn á Blönduósi. GA/7, örk 2. Dóma- og þingbók 1827-1830, bls. 340-343.

Sögulegar skáldsagnapersónur bókmenntanna eru fleiri en tölu verður á komið. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveitt frumgögn um lífshlaup fólksins að baki söguhetjanna, hér eru heimildir um Jón Hreggviðsson Íslandsklukkunnar, Jón Steingrímsson eldklerk, Jörund hundadagakonung og Agnesi og Friðrik svo nokkur dæmi séu nefnd.

Bókin Náðarstund eftir ástralska rithöfundinn Hannah Kent hefur vakið mikla athygli undanfarið. Náðarstund er söguleg skáldsaga sem byggir á þekktu morðmáli en hin sakfelldu, Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson, sem dæmd voru til lífláts fyrir tvö morð, voru síðustu sakborningarnir sem teknir voru af lífi á Íslandi. Þriðji sakborningurinn sem hlaut dauðadóm fyrir hlut sinn í málinu, Sigríður Guðmundsdóttir, var náðuð af konungi. Um þetta mál hefur margt verið ritað og rætt. Fræðimenn, rithöfundar, tónlistarmenn og kvikmyndargerðamenn hafa sótt efnivið í þessa mögnuðu sögu og enn lætur fólk hrífast af örlögum þeirra Agnesar og Friðriks.

Í Þjóðminjasafni er til sýnis í grunnsýningu safnsins höggstokkurinn og axarblaðið sem notað var við aftökuna 12. janúar 1830. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar heimildir um aðalpersónur sögunnar, til að mynda kirkjubækur, dómabækur, vitnisburðir og önnur opinber skjöl sem bera vitni um líf þeirra og örlög.

Í prestsþjónustubók Þingeyraklausturs er fært til bókar þann 12. janúar 1830 að greftraður hafi verið hjá réttarstaðnum, Friðrik Sigurðsson „Morðingi í fángahaldi á Þingeyrum“. Presturinn færði að auki í athugasemd að hann hafi verið hálshöggvinn fyrir morð tveggja manna. Á sömu opnu er fært til bókar að sama dag hafi verið dysjuð Agnes Magnúsdóttir „Sakapersóna haldin á Kornsá en líflátin hér í sókn“. Í athugasemd segir um Agnesi: „fyrir Morðsmeðvitund hálshöggvinn“ (sjá mynd úr prestþjónustubók efst hér til hægri).

Í kirkjubók Tjarnar á Vatnsnesi eru fórnarlömb þeirra, Nathan Lyndal Kétilsson bóndi á Illugastöðum og Pétur Jónsson fangi frá Geitarskarði, skráð látin þann 24. mars 1828 og dánarorsök beggja er gefin upp í athugasemd prestsins „Myrðtur“ (sjá mynd úr prestþjónustubók næstefst hér til hægri).

Dómurinn yfir Agnesi og Friðriki er færður inn í Dóma- og þingbók Húnavatnssýslu fyrir árin 1827-1830 og er niðurstaða hans sýnd á mynd hér til hliðar (neðsta mynd) og í uppskrift sem fylgir hér neðar á síðunni.

Helga Hlín Bjarnadóttir og Brynja Björk Birgisdóttir rituðu kynningartexta.
Helga Hlín Bjarnadóttir skrifaði upp niðurstöðu dómsins yfir Agnesi og Friðriki.

Tengt efni

Heimildir

  • ÞÍ. Kirknasafn. Þingeyrar BA/2. Prestþjónustubók 1816-1854, bls. 228-229.
  • ÞÍ. Kirknasafn. Tjörn á Vatnsnesi BA/4. Prestþjónustubók 1816-1863, bls. 96.
  • ÞÍ. Sýslumaðurinn á Blönduósi. GA/7, örk 2. Dóma- og þingbók 1827-1830, bls. 340-343.

Hér að neðan má sækja uppskrift niðurstöðu dómsins yfir Agnesi og Friðriki.

Færslur í prestþjónustubók um greftrun þeirra Friðriks og Agnesar
Færslur í prestþjónustubók um greftrun þeirra Natans og Péturs
Niðurstaða dóms yfir Friðriki og Agnesi