Æfir lærðra manna

Apríl 2019

Æfir lærðra manna

ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands KA/1 - KA/67. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna.

Ævisögur lærða manna. Handrit í þjsks. Þó að rit þetta sé uppkast, heldur óaðgengilegt óvönum, hafi að geyma mikið af skjölum að þarflitlu, taki eingöngu yfir lærða menn og nái einungis yfir tímabilið frá því laust eftir siðaskipti til 1800, þá minnist eg samt ekki, að eg hafi farið yfir öruggara rit.
— Páll Eggert Ólason

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt hið mikla ævisagnasafn Hannesar Þorsteinssonar (1860-1935), Æfir lærðra manna. Safn þetta er á fárra manna vitorði; hulin veröld út af fyrir sig. Þeir sem kynnast þessu safni Hannesar læra fljótt að meta og virða það þrekvirki sem það er. Safnið er árangur rúmlega tveggja áratuga handrita- og skjalarannsókna, heima og erlendis.

Þriðjudaginn 2. janúar árið 1912, hóf Hannes störf sem aðstoðarmaður við Landsskjalasafnið, sem nokkrum árum síðar varð að Þjóðskjalasafni Íslands. Hannes sló ekki slöku við, því sama dag og hann hóf störf, hófst hann handa við gerð ævisagnasafnsins, sem hann nefndi Æfir lærðra manna. Í upphafi ítarlegrar greinargerðar Hannesar um ævisagnasafnið, sem varðveitt er í eiginhandarriti hans sjálfs og fylgir verkinu, kemst hann svo að orði:

Mér hefur þótt hlýða að gera hér nokkra grein fyrir því, hvernig ég hef safnað föngum til þess ritsafns, er ég nú hef haft með höndum síðan á nýári 1912, og hvernig ég hafi hagað þessu verki frá upphafi, svo að menn geti betur áttað sig á því og dæmt það réttilega. Jafnframt mun ég láta fylgja hér síðar nokkrar bendingar og leiðbeiningar til þeirra, er safn þetta nota eptir minn dag.

Hannes hélt sérstaka bók yfir þau skjöl og handrit sem hann rannsakaði í heimildasöfnun sinni. Þar er getið vinnu hvers árs, frá árinu 1912 að telja, fram til ársins 1934. Innan hvers árs á rannsóknartímabilinu, getur Hannes þeirra skjala og handrita sem hann kannaði. Þessi sérstaka bók, sem Hannes hélt yfir skjala- og handritarannsóknir sínar, er merkileg heimild út af fyrir sig. Hún er í fjórðungsbroti og telur 95 þéttskrifaðar síður. Sjá má að Hannes hófst handa við verkið á nýársdegi 1912. Síðasta skjalabókin sem Hannes færði til bókar er skiptabók klerkdóms í Dalasýslu 1809-1833, og lauk hann við rannsókn hennar þann 25. júlí árið 1934.

Einstök skjöl sem Hannes kannaði skiptu tugum þúsunda. Þar að auki aflaði hann fanga í öllum þeim íslensku handritum og skjalabókum í Landsbókasafni, Árnasafni og í Þjóðskjalasafni sem hönd á festi. Hannes nálgaðist verkefnið sem handritarannsókn, vann eftir fastákveðnu fyrirkomulagi og sneiddi nær algerlega framhjá prentuðum heimildum:

Ég hef haft það fyrir reglu að taka heldur of mikið en of lítið upp úr heimildum, þannig að safn mitt gæti orðið grundvöllur undir allítarlegar æfisögur eða „Monografíur“ einstakra manna.

Æfir lærðra manna, eru, eins og gefur að skilja, handskrifaðar. Menn hafa haft á orði að rithönd Hannesar sé torlæsileg og á köflum snúin og seinleg aflestrar. Upp að vissu marki er hægt að fallast á þær athugasemdir. Rithönd Hannesar ættu þó flestir að geta vanist, með tíð og tíma.

Veturinn 1919-1920 dvaldi Hannes við handritarannsóknir í Kaupmannahöfn. Um veru sína þar segir hann svo í ævisögu sinni:

Meðan ég var í Kaupmannahöfn þennan vetur, notaði ég tímann vel og vann afar mikið í söfnunum, bæði í safni Árna Magnússonar og Ríkisskjalasafninu og nokkuð í Konunglega safninu. Háskólasafnið, sem hefur að geyma handritasafn Árna Magnússonar, var lengst opið frá klukkan 10 á morgnana til klukkan 10 á kveldin óslitið, og sat ég stundum þar við skriftir allan þann tíma, kom fyrstur manna á morgnana og fór síðastur á kveldin.

Og langdvalir Hannesar á lestrarsal Háskólasafnsins voru honum erfiðiskvöl og pína:

Var ég þá oft þreyttur að kveldi eftir þessa löngu setu, en ávallt unnið af kappi. Einkennilegt var, hve sætin í Háskólasafninu voru léleg, bæði litlir og vondir strástólar af allra einföldustu gerð og setan farin niður úr sumum, svo að það var kapphlaup um að ná sér í stól með heilli setu, en þeir sem síðar komu urðu að sætta sig þá setulausu. [...]. Þá er maður situr mjög lengi grafkyrr við skriftir, er nauðsynlegt að hafa þægilegan stól, en ekki eitthvert gargan að sitja á. Ég sé það nú eftir á, að ég vann alltof mikið og of lengi á degi hverjum allan þennan langa tíma, er ég var í Höfn, en kappið var svo mikið að afkasta sem mestu, að ég ætlaði mér ekki af og ofbauð kröftum mínum, þá kominn á 60. aldursár, og hygg ég, að það hafi komið síðar fram á mér. En margháttaðan fróðleik hafði ég uppúr þessari dvöl minni þar handa ævisagnasafni mínu, er ég flutti að miklu leyti með mér héðan að heiman, þ.e. það, sem ég hafði þá þegar safnað hér, og störðu safnverðirnir [í Kaupmannahöfn] hissa á þann handritahlaða, er ég hafði með mér og fékk geymdan á safninu, og spurðu hvað þetta mikla hrúgald væri.

Verkið sjálft telur 66 þéttskrifuð bindi í fjórðungsbroti. Þar að auki fylgir registur, heimildaskrá og fyrirmæli Hannesar um notkun og umgengni við verkið. Þeim sem hér skrifar telst til að heildarblaðsíðufjöldi bindanna 66 sé 19.100 blaðsíður. Æviþættirnir eru 2.796 talsins. Mestmegnis eru þetta æviþættir skólagenginna manna, andlegra og veraldlegra, sem voru á dögum frá því um miðja sextándu öld fram um aldamótin 1800, og í einhverjum tilfellum manna sem voru áberandi fram eftir þeirri nítjándu.

Stór hluti æviþáttanna er helgaður vígðum mönnum; nánar tiltekið prestum, próföstum og biskupum, og telja æviþættir þeirra vel á annað þúsund. Það sem útaf stendur, hátt í 900 æviþættir, fjalla um menn úr hinni veraldlegu stétt, hærri og lægri embættismenn og skólagengna menn, gjarnan efnameiri bændur,  sem ekki gegndu embættum. Þetta eru vitaskuld allt karlar, eins og gefur að skilja. Þess ber þó að geta að í æviþáttunum er jafnan getið um fjölskyldur og fjölskyldutengsl þeirra manna sem hlut eiga að máli, eiginkonur þeirra og börn, foreldra og tengdaforeldra.

Hannes fékk sérstaka fjárstyrki frá Alþingi Íslendinga vegna vinnu hans við ritsafnið.Var það og samkomulag beggja að ritsafnið skyldi verða eign landsins eftir hans dag.

Nærtækast væri að ætla að fyrirmynd Hannesar hafi verið hið danska ævisagnasafn Dansk biografisk Lexicon, sem gefið var út í Kaupmannahöfn á árunum 1887-1905. Þess má geta að Svíar gáfu út Biografiskt lexicon öfver namnkunnige svenske män á árabilinu 1857-1907 og Norðmenn gáfu út Norsk biografisk leksikon á árunum 1923-1983. Íslendingar hafa hingað til gert sér Íslenzkar æviskrár Páls Eggerts Ólasonar að góðu, en Páll Eggert studdist að verulegu leyti við Æfir lærðra manna, þá hann tíndi saman í æviskrár sínar. Þess ber þó að geta að æviskrár Páls Eggerts eru engan veginn jafn ítarlegar.

Það verður að teljast frekar ólíklegt að Æfir lærðra manna verði gefnar út á prenti, úr því sem komið er. Ætla má að útgáfa verksins í heild yrði mjög frek til fjármuna. Hins vegar mætti gera Æfir lærðra manna aðgengilegar með stafrænni endurgerð verksins og miðlun hennar, fyrir brotabrot af þeim kostnaði sem til félli við hefðbundna prentútgáfu. En hvort að það muni rætast á okkar dögum verður tíminn að leiða í ljós.

Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta.

Heimildir

Óprentað

  • ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna. KA/1 – KA/67.

Prentað

  • Biografiskt lexicon öfver namnkunnige svenske män I-XXIII. Uppsala, 1857-1907.
  • Dansk biografisk Lexicon I-XIX. Kaupmannahöfn, 1887-1905.
  • Einar Arnórsson, „Dr. Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður“. Skírnir. 1. tbl., 109. árg. Reykjavík, 1935, bls. 49-67.
  • Hannes Þorsteinsson, Endurminningar og hugleiðingar um hitt og þetta, er á dagana hefur drifið : ritaðar af honum sjálfum 1926-1928. Þorsteinn Þorsteinsson bjó til prentunar. Reykjavík, 1962.
  • Íslenzkar æviskrár I-V. Páll Eggert Ólason tíndi saman. Reykjavík, 1948-1952.
  • Norsk biografisk leksikon I-XIX. Oslo, 1923-1983.
  • Svenskt biografiskt lexikon I-XXXIII. Stockholm, 1918-2010.
Hannes Þorsteinsson þjóðskalavörður
Opna úr 8. bindi
Nokkrar öskjur úr safni Hannesar
Hér má sjá eitt bindi úr Æfum lærða manna
Tafla yfir lengstu æviþættina í safni Hannesar
Af þessari töflu má sjá að 1% þeirra einstaklinga sem Hannes samdi æviþátt um, grípa yfir frekann fimmtung verksins í blaðsíðum talið.