Desember 2022

Í fangabúðum nasista – stjórnvöld gera bók upptæka að kröfu þýska ræðismannsins

ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1967/3. B/46-16

Werner Gerlach var ræðismaður Þýskalands á Íslandi frá apríl 1939 og þar til Ísland var hernumið af Bretum þann 10. maí 1940. Þá var hann handtekinn og ræðismannsbústaðurinn að Túngötu 10 hernuminn. Gerlach var yfirmaður í SS-sveitum nasista og sannfærður nasisti. Eitt af verkefnum hans á Íslandi var að hamla gegn andþýskum áróðri í fjölmiðlum og menningarlífi Íslendinga, og það starf rækti hann af mikilli samviskusemi. Hann var tíður gestur í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu þar sem hann kvartaði m.a. yfir umfjöllun um Þýskaland og nasista í fjölmiðlum.

Eitt af þessum málum vakti nokkra athygli á sínum tíma. Laugardaginn 4. nóvember 1939 birtist auglýsing í Morgunblaðinu um nýútkomna bók eftir þýska leikarann Wolfgang Langhoff í þýðingu Karls Ísfelds blaðamanns og rithöfundar. Bókin var frásögn Langhoff af 13 mánaða dvöl hans í þýskum fangabúðum, m.a. í Börgermoor og Lichtenburg fangabúðunum. Eftir að Langhoff var sleppt úr haldi árið 1934 flúði hann til Sviss og gaf út bókina á þýsku. Bókin hét á frummálinu Die Moorsoldaten. 13 Monate Konzentrationslager. Eftir að bókin var þýdd yfir á ensku skömmu síðar hlaut hún nokkra útbreiðslu. Útgáfa hennar var með fyrstu útgefnu heimildum sjónarvotts á alþjóðavísu af því harðræði og grimmd sem átti sér stað í fangabúðum nasista fyrir og í síðari heimsstyrjöld. Bókin hafði þó í raun komið út á Íslandi árið 1935 í sömu þýðingu og hét þá Ár í helvíti og hafði þegar selst miklu upplagi og var til á flestum bókasöfnum landsins.

Sama dag og auglýsingin birtist í Morgunblaðinu fór Gerlach á skrifstofu utanríkismáladeildar forsætisráðuneytisins (síðar utanríkisráðuneytið) og kvartaði yfir útgáfu bókarinnar. Sagði hann að í henni væri að finna mjög „svæsnar ósannar ádeilur á stjórn fangabúðanna í Þýskalandi“ og að í bókinni „hallaði á sannleikann um allt, sem Þýskaland varðaði“, svo vitnað sé í frásögn Stefáns Þorvarðarsonar, skrifstofustjóra utanríkismáladeildar. Viðbrögðin í Stjórnarráðinu voru að stöðva sölu bókarinnar þegar í stað þar til efni hennar hefði verið kannað af dómsmálaráðuneytinu. Eftir skoðun var svo ákveðið af íslenskum stjórnvöldum að gera allt upplag bókarinnar upptækt með vísan í ákvæði hegningarlaga um móðgun gegn erlendum ríkjum sem Ísland ætti í vináttusambandi við.

Þetta mál vakti nokkra athygli í samfélaginu og var skrifað um málið í fjölmiðlum, einkum í blöðum vinstri flokkanna, þ.e. Þjóðviljanum sem var málgagn Sósíalistaflokksins og Verkamanninum, sem var gefið út af Sósíalistafélagi Akureyrar. Fyrirsagnir í blöðunum voru m.a. „Þýzki sendiherrann hyggst koma á nazistískri ritskoðun á Íslandi!“, „Ríkisstjórnin í þjónustu Hitlers“ og „Ritfrelsi og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða“ sem var bein tilvitnun í stjórnarskrána. Fyrirsagnir í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, sem voru málgagn ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, voru öllu hóflegri og ekki er að sjá að fjallað hafi verið um málið í Tímanum, blaði Framsóknarflokksins og forsætisráðherra Hermanns Jónassonar. Í umfjöllun Þjóðviljans var því haldið fram að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefði ritfrelsi verið afnumið og að nasistastjórninni í Berlín hefði verið fengið það vald að ákveða hvaða bækur kæmu út hér á landi.

Svo virðist sem að fljótt hafi fennt yfir þetta mál. Það var ekki aftur til umfjöllunar í fjölmiðlum og ákvörðun um að gera bókina upptæka var ekki endurskoðuð. Mögulega vegna þess að umrædd bók hafði verið til sölu hér á landi í fjögur ár, þó undir öðru nafni, og var aðgengileg öllum Íslendingum sem heimsóttu bókasöfn landsins. Þá varð staðan í samskiptum á milli íslenskra stjórnvalda og þýskra önnur eftir að Bretar hernámu Ísland hálfu ári síðar.

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta

Heimildir

  • ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1967/3. B/46, örk 16.
  • Morgunblaðið 5. nóvember 1939, bls. 3.
  • Verkamaðurinn 18. nóvember 1939, bls. 1.
  • Þjóðviljinn 5. nóvember 1939, bls. 1.
  • Þjóðviljinn 11. nóvember 1939, bls. 2.
Ár í helvíti
Gerlach í fangabúðum