Nóvember 2022

Húsakostur á Bessastöðum og Viðey

ÞÍ. Rentukammer, F/4-11. Lénsreikningur og fylgiskjöl reikningsárið 1636/37

Pros Mund sem var lénsmaður á Íslandi 1633 til 1645 var sjóliðsforingi af norskum aðalsættum, og átti ættarsetrið Bjerkevold í Noregi. Síðar keypti hann Grevensvænge á Sjálandi. Árið 1624 varð hann lautinant á skipi í sjóher Dana en forframaðist árið 1628 og varð skipherra. Árið 1630 var hann sendur til stranda Noregs og Færeyja og tók síðar þátt í átökum við Hamborgara við Elbu þar sem hann hafði aðstöðu fyrir skip sín í nokkur ár.

Hann hafði Ísland á leigu frá Jónsmessu 1633 og formlega til ársins 1645 og greiddi fyrir það 3200 ríkisdali árlega. Hann dvaldi marga vetur á Íslandi, þeirri fjarlæju eyju, og kona hans, Edel Urne, flutti til Íslands árið 1638. Þegar stríðið við Svía braust út (1643–1645) var þörf fyrir hann á ný til sjóliðsforingjastarfa og féll hann í einni orustunni eftir frækilega baráttu árið 1644.

Pros Mund fékk heimild konungs árið 1635 til að lagfæra húsin á Bessastöðum og í Viðey fyrir 200 ríkisdali. Átti hann að nota þá peninga sem herra Sigurður Oddsson prestur í Stafholti greiddi fyrir leyfi til að giftast systkinabarni sínu, Guðrúnu Jónsdóttur þ.e 200 ríkisdali. Í reikningi árið 1636/37 er kostnaðurinn færður til útgjalda og vitnisburður tilkvaddra votta um verð bygginganna, dagsettur 16. október 1636, liggur með reikningnum.

Þar segir m.a. að Pros Mund hafi látið byggja upp húsakost á Bessastöðum og Viðey og jafnframt látið laga kirkjuna á Bessastöðum. Í fyrstu er nefnd ný stofa með sængur kamersum, borð, bekkir, skorsteinn auk vindauga. Kostnaðurinn er metinn á 200 ríkisdali. Nefndur er nýr jarðkjallara með timbri og nýtt fjárhús með timbri virt á 22 ríkisdali. Jafnframt byggði Pros Mund loft ofan á Enevolds stofu (Enevold Kruse lénsmaður 1602–1606) sem var byggð áður en hann tók við embætti en var ekki fullkláruð. Er sú lagfæring virt til 8 ríkisdala, auk þess lét hann gera hurð og hengsli og ýmislegt annað sem virt var á 7 ríkisdali. Jafnframt virtu þeir til 4 ríkisdala ýmislegt sem gert var við önnur hús á staðnum. Til kirkjunnar var virt til 14 ríkisdala timbur, gluggar auk nýs klukkuhúss. Að síðustu segir að vegna timburs til byggingar nýs húss í Viðey er lagt til 8 ríkisdali og 1 ríkisort. Alls eru þessar framkvæmdir virtar til 280 ríkisdala og 3 ríkisorta. Í lénsreikningnum árið 1636/37 er tekið fram að þrátt fyrir þessa upphæð þ.e. rúma 280 ríkisdali fáist aðeins greiddir 200 ríkisdalir eins og leyfi hafði fengist fyrir.

Í Alþingisbók árið 1634 er úttekt frá 6. júlí, á húsakosti á Bessastöðum og Viðey. Um kirkjuna segir í úttektinni:

Í fyrstu kirkjan af gömlum viðum uppgjör og stæðileg, af Holger Rosenkrantz upp byggð undir stafgólfi og 8 fornum, sumum brotnum, glergluggum. En ornamenta í prestsins vöktun, 2 stórar klukkur, ein lítil, en til þeirrar fjórðu vísar fógetinn Ólafur Pétursson til, að sé hjá síra Ólafi. [Jónssyni presti í Görðum á Álftanesi] 2 stórar koparpípur á altari, og altaristafla, sem Herluf Daa lét upp á kosta. Skírnar mundlaug. Undirportið gamalt, sem forbetrað var í Holgers tíð.

Lýsing á öðrum húsum er m.a. eftirfarandi:

Forstofan og fógetans hús nýbyggt af nýjum við. Höfuðsmannsstofan nýbyggð af góðum við með panil og eikilista allt um kring og á lopti, og allir bitar klæddir með eikiborðum, með 3 hurðum, 3 matborðum, 6 gömlum vindaugum. Item hans sængurhús með 3 bekkjum og 1 matborði, 3 gömlum vindaugum og steinkakalofn, og annað lítið borð. Skotsteinninn nýr með heimuglegu gemak. Forstofan og göngin ný. Salthúsið slæmt og gamalt. ... Brugghúsið nýtt, göngin fallin, ... Baðstofa út í bænum með palli gömlum. Gamalt eldhús mjög tilgengið. Skálinn sterkur og stæðilegur með átta sængurstöðum.Búrhúsið vænt og stæðilegt, sem kallað er mjólkurhús, og göngin nokkuð forfallin. Fiskahjallurinn byggður í Holgers tíð, sterkur og stæðilegur. Gamalt smiðjuhús. Gamalt torfhús forfallið. ... Hesthús og fjós forfallið. Skipaskemman stæðileg að viðum, en moldarveggir lasnir. 2 hús á kýr inni við fjárhús. Bessastaða hosspítall forfallinn, undanteknu mjólkurhúsinu. Ráðsmannsstofan er gömul, þó stæðileg af góðu timbri.

Hér er mjög áhugaverð lýsing á húsakosti á Bessastöðum og í Viðey (spítalinn). Stofunni sem hér er lýst virðist vel búin enda íverustaður æðsta stjórnanda landsins. Einnig er áhugavert að lesa um baðstofuna, brugghúsið, eldhúsið, mjólkurhúsið, skálann með átta sængurstæðum og kirkjuna auk Bessastaðaspítala. Holger Rosenkrantz, lénsmaður 1620 –1633, lét reisa kirkjuna árið 1627. Altaristaflan er frá árinu 1616 og gaf Herluf Daa, lénsmaður 1606 –1619, hana til kirkjunnar. Hún er nú varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Varðveittar eru tvær húsavirðingar frá Bessastöðum frá árunum 1663 og 1666. Svo virðist sem Thomas Nikolajsen, fógeti 1652–1660 og 1662–1665, hafi látið reisa nýjar byggingar á konungsgarðinum Bessastöðum árið 1663. Við húsavirðinguna eru m.a. talin suðurstofan, norðurstofan, portið með kvistum, kjallari, Holgers stofa, Pros Mund stofa, smiðjan, fálkahúsið, gamalt eldhús, hesthús, fjós og sjóbúð. Árið 1666 óskar Henrik Bjelke eftir virðingu á húsakosti á Bessastöðum. Um þá húsavirðingu sá Jakob Benediktsson, fógeti hans 1666–1668, sem þá var að taka við starfi. Litlar breytingar höfðu orðið á húsakostinum þessi þrjú ár. Enn voru taldar stofur, port með kvistum, Pros Mund stofa, gamalt eldhús og útihúsin. Hér var þó einnig nefndur einn nýr steikarofn með múruðum skorsteini auk bakaraofns. Af þessum lýsingum hefur Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur dregið þá ályktun að konungsgarðurinn hafi verið fjórar álmur með lokuðum húsagarði og hliði. Er það skipulag 40 árum eldra en talið hafði verið.

Kristjana Kristinsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer, F/4-11. Lénsreikningar og fylgiskjöl reikningsárið 1636/37.
  • Alþingisbækur Íslands V. (Reykjavík 1922, 1925-1932) bls. 347-348.
  • Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn 1987. Aðdragandi og upphaf – uppgraftarsvæði 1–11. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2010/1. Ritstjóri Steinunn Kristjánsdóttir (Reykjavík 2010).
  • Íslenskar æviskrár IV, bls. 58-59 og 250.
  • Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Ritsjóri Hrefna Róbertsdóttir (Reykjavík 2021).
  • Magnús Ketilsson, Kongelige Allernaadigste Forordninger og aabne Breve som til Island er udgivet II, (Raapsøe 1778) bls. 397-398.
Teikning af Konungsgarðinum á Bessastöðum frá því um 1720. Voru sum þeirra húsa sem þar sjást  meðal þeirra sem nefnd eru í úttektinni frá því 1635
Úttekt á húsum konungs á Bessastöðum og í Viðey frá árinu 1636.
Teikning af Konungsgarðinum á Bessastöðum frá því um 1720. Voru sum þeirra húsa sem þar sjást  meðal þeirra sem nefnd eru í úttektinni frá því 1635?