Mars 2022

Frásögn Jóns Ólafssonar úr Grunnavík um Hóladómkirkju

ÞÍ. Varia IV, 24. Um Hóladómkirkju, með hendi Grunnavíkur Jóns 1763–1764.

Jón Ólafsson (1705–1779) úr Grunnavík vann mestan hluta ævinnar við fræðistörf í Árnasafni í Kaupmannahöfn og varð fyrsti styrkþegi Árnasjóðs. Langflest skjöl rituð af honum eru því eðlilega varðveitt í safni Árna Magnússonar. Í Þjóðskjalasafni leynist þó að minnsta kosti eitt skjal ritað af honum. Það er að finna í skjalaflokki sem nefnist Varia sem er samtíningur af ýmsum skjölum sem safninu hefur borist frá stofnun þess í lok nítjándu aldar. Í ágripi af sögu Þjóðskjalasafns segir Sigfús Haukur Andrésson um þennan skjalaflokk: „Auk venjulegra embættisskjala hafa Þjóðskjalasafninu smám saman borizt alls konar laus plögg og pakkar skjala, sem erfitt hefur þótt að heimfæra til ákveðinna deilda þess. Í önn dagsins hefur slíkum skjölum löngum verið stungið inn í steinklefa safnsins til frekari ráðstöfunar. Sum hafa ílenzt þar, en flest lent í samtíningsflokki, sem nefnist Varia...“ (bls. 90). Aftan á bréfið er nafnið Jóhann ritað með annarri og yngri rithönd. Ekki er vitað hvaða Jóhann það muni vera.

Bréfið sjálft er óundirritað og án staðs og dagsetningar en skjalavörður hefur borið kennsl á rithönd Jóns og merkt framan á örkina sem það er varðveitt í: „Um Hólakirkju, með hendi Grunnavíkur-Jóns.“ Af efni bréfsins má sjá að það er skrifað í Danmörku einhvern tíma skömmu eftir 1763, það var rétt eftir að nýja kirkjan sem Gísli Magnússon (1712–1779), biskup á Hólum 1755–1779, lét byggja. Bygging kirkjunnar hófst sumarið 1757 og var kirkjan vígð 20. nóvember 1763. Ekki er vitað í hvaða tilgangi Jón tók þetta ágrip um sögu Hólakirkju saman öðrum en að halda til haga einhverjum fróðleik um sögu kirkjunnar. Sjálfur brautskráðist Jón frá Hólaskóla 1722 og hefur þekkt vel til staðhátta þar.

Jón virðist taka efnið saman án þess að hafa neinar heimildir að ráði við hendina og treystir þess betur á minni sitt sem hann átti gjarnan til að gera. Hann afsakar það í upphafi bréfsins en segist ætla „að gefa sannferðiga og á rökum byggða undirréttingu um fata [örlög] Hóladómkirkju.“ Hann byrjar á að rekja hvar helstu heimildir sé líklegast að finna, segir frá rauðum múrsteinum „á bak við kórinn“ í kirkjunni úr tíð Jörundar Þorsteinssonar biskups (1267–1313) og telur líklegt að ætlunin hafi verið að byggja alla kirkjuna af múrsteini.

Hann segir frá enduruppbyggingu kirkjunnar á síðustu æviárum Guðbrands Þorlákssonar biskups (1571–1627) sem kennd er við dóttur hans Halldóru og jafnan nefnd Halldórukirkja en smíði hennar lauk 1627. Þótti mikið koma til þessarar kirkju og segir Jón frá því að prinsinn í Danmörku (síðar Friðrik IV. konungur Danmerkur og Noregs 1699–1730) hafi verið svo hrifinn að hann hafi gefið henni „einhvern merkilegan kostgrip.“ Ekki greinir hann nánar frá hvaða gripur það var. Hann tilgreinir nákvæmlega málin á kirkju Péturs Nikulássonar biskups (1391–1411) og er augljóslega með minnismiða yfir þau við hendina. Hann fer fögrum orðum um Gísla Magnússon biskup, drepur á jarðeignum og gjöfum til kirkjunnar á fimmtándu og sextándu öld og nefnir í lokin altari einhvers heilags manns sem hafi verið í kirkjunni á miðöldum.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift á skjalinu.

Heimildir

  • Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík. Safn Fræðafjelagsins V. Kaupmannahöfn 1926.
  • Kirkjur Íslands 6. Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi. Ritstj. Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson. Reykjavík 2005.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Þjóðskjalasafn Íslands. Ágrip af sögu þess og yfirlit um heimildasöfn þar. 2. útg. Reykjavík 1982.
  • ÞÍ. Varia IV, 24. Um Hóladómkirkju, með hendi Grunnavíkur Jóns 1763–1764.

Vefsíður

Undirrétting um dómkirkjuna á Hólum.

Undirrétting um fata - örlög - Hóladómkirkju
Undirrétting um fata - örlög - Hóladómkirkju
Undirrétting um fata - örlög - Hóladómkirkju